„Við treystum á DHL og þeir klikka“

Þorramaturinn var fluttur með flutningaþjónustu DHL.
Þorramaturinn var fluttur með flutningaþjónustu DHL. mbl.is/Ómar Óskarsson

Jóhanna Kristín Júlíusdóttir, formaður Íslendingafélagsins á Gran Can­aria, segir að flutningsaðili þorramatsins sem bera átti á borð fyrir 250 Íslendinga á Kanarí á morgun hafi ekki staðið við sitt. Tollayfirvöld á Kanarí hentu þorramatnum frá Kjarnafæði í gær. 

Maturinn var ekki fluttur í ferðatöskum heldur treysti Íslendingafélagið á DHL að koma matnum til Kanarí. 

„Við vorum búin að panta mat fyrir 250 manns. Kjarnafæði gekk frá öllu sínu og stóð sig stórkostlega. Við treystum á DHL og þeir klikka,” segir Jóhanna í samtali við mbl.is. Hún bætir því við að stjórnin hafi ítrekað þurft að laga pappíra frá DHL. Að lokum fór svo að tollayfirvöld tóku einhliða ákvörðun um að henda matnum í gær, mánudag.

Jóhanna segir að vandamálið hafi ekkert haft með það að gera hvað var í sendingunni frá Kjarnafæði. „Við notuðum DHL af því við treystum á það og það klikkaði,“ segir Jóhanna.

Engin svör hafa enn borist frá DHL en spurð hvort félagið muni krefjast bóta segir Jóhanna að eitthvað verði gert. Félagið ætlar að sjá hvernig málið þróast og enn er ekki kominn lögfræðingur í málið.  

Jóhanna og stjórnin standa nú í því að reyna að bjarga 250 manna þorrablóti. Hún segir Íslendingasamfélagið á Kanarí hafa tekið fréttunum vel. 

„Við erum að gera okkar besta og það er allt hérna á hvolfi vegna þess að þorrablótið átti að vera á morgun. Við erum búin að vera á fullu að útbúa íslenska kjötsúpu í sárabætur,“ segir Jóhanna. „Fólk tekur þessu ótrúlega vel og er bara þakklátt fyrir að við skulum reyna að standa í þessu og klappar okkur á bakið og segist ekki vilja vera í okkar sporum. Fólk er mjög skilningsríkt.“

mbl.is