Alltaf langað til að flýja klakann

Arna Petra elskar að ferðast.
Arna Petra elskar að ferðast. Ljósmynd/Aðsend

Arna Petra Sverrisdóttir er 22 ára kona sem hefur ferðast víðar en margir aðrir. Arna Petra er með ferðabakteríu á háu stigi og er dugleg að mynda ferðlög sín og deila á bloggsíðu sinni, Instagram og á Youtube. Í dag býr hún í Svíþjóð en dreymir um að flytja í hlýrra loftslag.

„Ég veit ekki beint hvað ég vil gera í lífinu. En ég veit að ég vil ferðast, blogga, taka fínar myndir og elta flugmanninn,“ segir Arna Petra og á þar við kærasta sinn Tómas sem er í flugnámi í Svíþjóð. Parið flutti til Svíþjóðar í ágúst 2018. Arna Petra starfar á hóteli auk þess að stunda fjarnám frá Íslandi. 

„Ég vinn á Steam Hotel sem er staðsett hér í Västerås í Svíþjóð. Västerås er rétt fyrir utan Stokkhólm og ég gæti ekki mælt meira með því fyrir ykkur sem búið í Stokkhólmi að fara í „getaway“ eins og ég vil kalla það, á Steam,“ segir Arna Petra um Västerås. 

„Það er mjög gott að búa í Svíþjóð og ég er mjög ánægð hér. Ég vil meina að allir hefðu gott af því að prófa að flytja utan, þótt það sé ekki nema í stuttan tíma. Það að hoppa aðeins út fyrir þægindarammann er alltaf gott fyrir mann og skemmtilegt.“

Hefur þú alltaf verið með mikla ferðabakteríu?

„Já, ekki spurning. Síðan ég man eftir mér hefur mig alltaf langað til að vera allt annars staðar en á klakanum.“

Arna Petra er dugleg að taka myndir og myndbönd á …
Arna Petra er dugleg að taka myndir og myndbönd á ferðalögum sínum. Ljósmynd/Aðsend

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Ég verð að segja heimsreisan stóra sem við fórum í árið 2018. Það er það skemmtilegasta sem ég hef gert. Að fá innsýn í alla þessa ólíku menningarheima var mögnuð upplifun. Það óvænta gerðist líka að eftir að ég var búin að skrifa um ferðalagið á blogginu fékk ég það tækifæri að vinna skemmtilegt verkefni með Kilroy. Núna er heimsreisan mín seld á heimasíðu þeirra,“ segir Arna Petra og bendir forvitnum á heimasíðu sína, Arnapetra.blog.  

Arna Petra fór í heimsreisu árið 2018.
Arna Petra fór í heimsreisu árið 2018. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Mér hefur alltaf þótt erfitt að velja einn stað en ef ég verð að velja nokkra þá er París yndisleg, Barcelona guðdómleg og svo stendur Ítalíuferðin sem ég fór í á seinasta ári mjög mikið upp úr, borgirnar Mílano og Róm. Vá!“

Arna Petra í Mílanó.
Arna Petra í Mílanó. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Kjósin, það er alltaf minn uppáhaldsstaður á Íslandi. Svo finnst mér ótrúlega gaman að fara í „road trip“ um landið, bara prófa að keyra eitthvað. Við fórum einmitt í lítið „road trip“ um daginn og ég bjó til stutt myndband um það sem finna má á YouTube. Það er svo gaman að fara aðeins út fyrir Reykjavík, alla vega þegar það eru engar veðurviðvaranir!

Talandi um YouTube, þá er það mjög vinsæll miðill hér úti í Svíþjóð. Ég nota hann aðallega til að sýna frá ferðalögum og lífinu hérna úti. Ég hef verið að taka eftir því að Íslendingar eru byrjaðir að opna aðeins augun fyrir myndbandagerð eða svo kölluðum VLOG-um, sem ég er mjög spennt að sjá. Þetta er auðvitað stórt skref út fyrir þægindaramman en bæði mjög skemmtilegt og frábærar minningar til að eiga.“

Besti maturinn á ferðalagi?

„Matur heimamanna. Maður verður alltaf að prófa að smakka matinn hjá heimafólkinu, hann er yfirleitt bestur. Við höldum oft að það sé til dæmis ekki hægt að klúðra pizzu en það er svo sannarlega hægt. Þegar við mættum til Sri Lanka þá fengum við okkur pizzu sem var ein sú versta sem ég hef smakkað,“ segir Arna Petra og mælir með að fólk haldið sig við þann mat sem heimafólk gerir best. 

Mesta menningarsjokkið?

Kaíró, fyrsta stopp heimsreisunnar var algjört menningarsjokk. Við mættum í myrkri, dauðþreytt eftir langt ferðalag og skítstressuð vegna þess að áhyggjufullir foreldrar voru búnir að hræða okkur.

Á leiðinni á hótelið um hánótt voru konur sópandi göturnar, fólk standandi yfir varðeldi (brennandi rusl) og svo má ekki gleyma hliðinu sem við þurftum að fara í gegnum til að komast að hótelinu. Þar tóku á móti okkur menn haldandi á byssum. Þetta voru víst lögreglumenn en bara ekki í lögreglufatnaði eins og við erum vön að sjá. Við mættum á hótelið sem leit út fyrir að vera í ekki svo öruggu hverfi. En þegar við vöknuðum daginn eftir drógum við gardínurnar frá og horfðum á pýramídana út frá hótelglugganum okkar. 

Það er mjög fyndið að hugsa um þetta núna. Þetta var svo mikil vitleysa, við treystum ekki neinu og svo var bara mjög óþægilegt að mæta í nýtt land og nýja heimsálfu um hánótt.
Þannig að ég ætla að fá að gefa ykkur ferðatips. Mætið í dagsbirtu þegar þið eruð að heimsækja nýja staði.“

Arna Petra.
Arna Petra. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Nei, nei svo sem engu hættulegu, hef verið nokkuð heppin með það sjö, níu, þrettán. Eða ég fór reyndar í fallhlífarstökk í Namibíu sem er ákveðin áhætta fyrir sig.“

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Heyrnatól, eyrnatappar, höfuðpúði og kósísokkar (það má alls ekki gleyma þeim). Svo er alltaf sniðugt að vera með spil, bók eða vera búin að hlaða niður hlaðvarpi eða þáttum í símann. Í hreinskilni sagt þá er ég yfirleitt sofnuð fyrir flugtak og vakna við lendingu.“

Arna Petra og Tómas kærasti hennar fengu menningarsjokk í upphafi …
Arna Petra og Tómas kærasti hennar fengu menningarsjokk í upphafi heimsreisu sinnar en það lagaðist fljótlega. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Það eru svo margir staðir sem mig dreymir um að heimsækja. Ég ætla að nefna tvo staði sem mér detta í hug núna. Ég væri alveg til í að fara til Jórdaníu til að sjá Petru, svona af því að ég heiti Petra og það er eitt af sjö undrum veraldar. Svo langar mig að fara til Tókýó í Japan.“

Arna Petra.
Arna Petra. Ljósmynd/Aðsend

Hvaða ferðalög eru á dagskrá?

„Ég er yfirleitt ekki með neitt mikið planað fram í tímann. Mér finnst mjög gaman að taka skyndiákvarðanir og hoppa eitthvað spennandi. En það er tvennt sem mig langar að fara á þessu ári og það er til Árósa til þess að heimsækja Garðar Stein tvíburabróður minn. Svo langar okkur Tómas að flytja á annan stað, eitthvað aðeins hlýrra. Þannig að það er ekkert annað í boði núna en að spara, spara og spara, til að fá þann draum uppfylltan.“

Arna Petra.
Arna Petra. Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Arna Petra.
Arna Petra. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is