Svona sótthreinsarðu flugsætið þitt

Það er gott að þrífa flugsætið vel.
Það er gott að þrífa flugsætið vel. Ljósmynd/Unsplash

Í fyrra sýndi ofurfyrirsætan Naomi Campbell hvernig hún þrífur hvern krók og kima af flugsætinu sínu þegar hún ferðast. Mörgum var eflaust hlátur í huga á þeim tíma og þótti fyrirsætan eflaust frekar stressuð.

Í dag er eflaust engum hlátur í huga á meðan kórónuveirufaraldurinn geisar. Það eru kannski ekki margir sem vilja vera á ferðalögum þessa dagana og vikurnar en það eru þó alltaf einhverjir sem eru á ferðalagi, því er gott að kunna að þrífa sætið sitt vel. 

Flest stór flugfélög segjast þrífa vélar sínar á milli flugferða og setja hreinlæti í forgrunn. Þar er þó víða brotinn pottur eins og Ragnar Þór Ingólfsson komst að í síðustu viku þegar hann gagnrýndi Icelandair harðlega fyrir óþrifnað.

Flugsæti eru almenningsrými og sýklar geta lifað á yfirborði hluta lengi svo það skemmir ekki fyrir að þrífa. Þótt þú rennir yfir sætið með sótthreinsandi klút tekur það þó ekki alla sýkla 100% svo þú þarft enn að vera á varðbergi.

Fyrsta skrefið er að þvo sér um hendurnar og sleppa því að snerta á sér andlitið í gríð og erg. 

Veldu sætið við gluggann

Rannsóknir á flugferðum hafa sýnt að farþegar sem sitja í sætinu við gluggann komast sjaldnar í návígi við mögulega smitaða farþega. Ef þú getur, reyndu að bóka sæti fyrir fram. 

Þurrkaðu með sótthreinsi yfir yfirborðið

Þegar þú kemur í sæti þitt og hendur þínar eru hreinar eftir handþvottinn, notaðu sótthreinsiklúta til að þurrka af höfuðpúðanum, beltissylgjunni, skjánum og vasanum á sætinu fyrir framan þig. Ef sætið er úr leðri eða pleðri ættirðu að þurrka það líka. Ekki reyna að þurrka öðruvísi efni því það getur frekar hjálpað sýklunum að dreifa sér. 

Naomi Campbell notar einnota hanska í verkið og það er alls ekki svo vitlaust hjá henni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert