Flugvélarútína Naomi Campbell

Naomi Campbell er með grímu á sér í háloftunum.
Naomi Campbell er með grímu á sér í háloftunum. skjáskot/Youtube

Ofurfyrirsætan Naomi Campbell ferðast mikið með flugvélum starfs síns vegna. Fyrirsætan sýndi nýlega frá því í myndbandi á Youtube hvað hún gerir alltaf fyrir flug en það má segja að fyrirsætan sé sýklahrædd. 

Campbell er á fyrsta farrými í myndbandinu og segist alltaf gera það sama þegar hún flýgur. 

Campbell byrjar á því að setja á sig einnota plasthanska og tekur því næst upp blautklúta og skrúbbar allt hátt og lágt sem hún mögulega gæti snert í fluginu. „Þetta er það sem ég geri í hvaða flugi sem ég er. Mér er sama hvað fólki finnst um mig. Þetta er mín heilsa og þetta lætur mér líða betur,“ segir Campbell. 

Eftir að hafa skrúbbað flugvélina setur hún sérstakt teppi yfir sætið sitt. Hún velur sér teppi í fallegum litum og skiptir um í hverri viku og lætur handþvo fyrir sig á hótelum sem hún gistir á. 

Þegar hún loksins fær sér sæti er hún með maska og rakagefandi snyrtivörur við höndina. Hún setur því næst á sig grímu sem nær yfir munn og nef og er með hana á sér allt flugið. Hún segir fólk alltaf vera að hósta og hnerra hvort sem það er í einkaþotum eða í almennu farþegaflugi. Campbell vill síður en svo smitast og segist reyndar verða afar sjaldan veik miðað við hversu mikið hún flýgur. 

Það mætti einna helst halda að Campbell hataði að fljúga miðað við allar varúðarráðstafanir sem hún gerir en það er þó ekki svo. „Ég elska að ferðast, ég fæddist á ferðalagi,“ segir Campbell í myndbandinu og segist elska að vera í háloftunum. mbl.is