Komst ekki til Kenýa og breytti stofunni í sólarströnd

Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari hlýðir Víði og ferðast innanhúss …
Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari hlýðir Víði og ferðast innanhúss um páskana.

Ásdís Ásgeirsdóttir blaðamaður og ljósmyndari á Morgunblaðinu átti að vera í Kenýa um páskana en komst ekki vegna kórónuveirunnar. Um helgina ákvað hún að hlýða Víði, klæddi sig í bikiní, setti á sig sólhatt og sólgleraugu og fór í frí inni í stofu. 

„Það stóð til að fara til Kenýa um páskana en þangað ætlaði ég með unglingsdrengina mína tvo og góðri vinkonu sem ætlaði einnig að vera fararstjórinn þar sem hún hefur víðtæka reynslu af ferðalögum í Kenýa. Ég hef farið þrisvar með henni til Kenýa í mjög svo ólíkar ferðir en fyrsta ferðin var 1997. Þá var ferðast um með tjald og bakpoka en í síðustu ferðinni sem ég fór var meiri lúxus, enda 2007 ferð. Í þetta skipti langaði mig að kynna þennan heim fyrir strákunum. Við byrjuðum að plana þetta á síðasta ári og vorum búnar að skipuleggja ferðina nánast alveg. Við ætluðum í þriggja daga safarí, stunda vatnasport og sólböð við Indlandshafið og njóta lífsins. Ferðin átti að vera um tíu dagar alls,“ segir Ásdís. 

Voru það mikil vonbrigði að komast ekki?

„Þegar fór að líða að ferðinni dofnaði vonin með hverjum deginum að við myndum komast. Ég get ekki sagt að það hafi verið vonbrigði að komast ekki því staðan er einfaldlega þannig að heimurinn er stopp og ekkert hægt að væla yfir því að komast ekki til útlanda þegar fólk er veikt að deyja út um allan heim. Þessi ferð bíður bara betri tíma. En vissulega hugsar maður aðeins út í það þegar snjóar hér hálfan metra daginn sem við áttum að vera á ströndinni.“

Ásdís er mikið á ferð og flugi í lífinu. Þegar hún er spurð að því hvað ferðalög gefa henni segist hún kunna að meta það að fara á nýja staði. 

„Ég er mikið á ferð og flugi og finnst æðislegt að ferðast bæði ein og í góðra vina hópi, nú eða með fjölskyldunni. Mér finnst dásamlegt að fara á nýja staði og upplifa menningu og náttúru nýrra staða, smakka matinn og horfa á mannlífið. Ef ég er ein á ferð nota ég tækifærið og mynda heilu og hálfu dagana.“

Um helgina hefði Ásdís átt að vera í Kenýa í sínu löngu planaða páskafríi. Í stað þess að láta sér leiðast klæddi hún sig upp í bikiní og setti handklæði á stólinn. 

„Núna á sunnudag þegar pallurinn var á kafi í snjó og ég var heima að láta mér leiðast datt mér í hug að framkvæma bókstaflega það sem Víðir sagði; að ferðast innanhúss. Því tók ég mig til og skellti mér í bikiní, setti á mig sólgleraugu, hatt og afrískt hálsmen og skellti mér á handklæði á stól í einu horni stofunnar. Upphaflega var ég nú bara að senda þetta á vini mína á Spapchat en var hvött til að deila á Facebook. Mér fannst það tilvalið; ég gæti þá mögulega skemmt fleirum nú á þessum tímum þegar flestir eru hálfleiðir heima hjá sér. Það stóð ekki á viðbrögðunum. Greinilegt er að það er mikilvægt að deila gleðinni þessa dagana og pósta einhverju skemmtilegu á netið.“ 

Hvað ætlar þú að gera um páskana? 

„Annars er ég í fríi alla vikuna og ætla að nota tímann til þess að laga til í skúffum og skápum og mögulega mála einn vegg eða svo. Og hver veit nema ég ferðist meira innanhús. Kannski fer ég til Parísar næst!“ 

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert