Neyðast til að fljúga í tómum flugvélum

Um 20 manns voru í áhöfninni með Lindu, sem flaug …
Um 20 manns voru í áhöfninni með Lindu, sem flaug frá Chicago til Denver með aðeins 5 farþega. AFP

Þrátt fyrir að fáir séu á faraldsfæti um þessar mundir þurfa margir flugþjónar að halda áfram að sinna störfum sínum. Ekki öll flugfélög hafa fellt niður ferðir sínar og þrátt fyrir að fáir farþegar séu um borð í vélunum þarf að manna fulla vakt hjá starfsfólkinu. 

Hin 65 ára gamla Linda segir í pistli sínum á People að sér finnist sín stétt hafa gleymst í umræðunni um hversu mikil áhrif kórónuveirufaraldurinn hefur haft á heimsbyggðina. 

„Ég er á sjötugsaldri og það eru flugþjónar sem eru miklu eldri en ég sem eru enn að vinna. Ég flaug einu sinni með flugþjóni sem var 83 ára. Sumir njóta þess að gera það sem þeir gera, það er ekki eins og þau þurfi enn að fljúga, en þau vilja gera það. 

Og eins og þessir flugþjónar hef ég ákveðið að vinna. Ég flaug fyrir stuttu frá Chicago til Denver og til baka. Það voru um 20 manns í áhöfninni í vélinni sem tekur um 350 farþega vanalega. Þennan dag voru fimm farþegar um borð. Jafnvel í þessum hálftómu vélum þurfum við að vera með starfsmann á hverjar einustu dyr þegar það eru farþegar um borð,“ segir Linda í pistli sínum. 

Linda hefur starfað sem flugþjónn í 40 ár og segir að ástandið nú sé sambærilegt því sem skapaðist eftir árásirnar á tvíburaturnana í New York  11. september 2001.

„Fyrir utan þegar fyrsta flugfélagið sem ég vann hjá varð gjaldþrota snemma á 10. áratugnum og auðvitað 9/11 hef ég ekki séð nokkuð annað hafa jafn mikil áhrif á ferðaiðnaðinn eins og kórónuveiruheimsfaraldurinn. Þetta er virkilega öðruvísi. Flugvellir eru tómir, flugvélar eru tómar. Og þetta hefur áhrif á svo marga, jafnvel flugþjónar og flugmenn eru að smitast af veirunni núna,“ segir Linda.

Hún segir að versti dagurinn hafi verið hinn 14. mars síðastliðinn, þegar ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna átti að taka gildi. 

„Ég var að koma heim úr utanlandsflugi á sama tíma og allir voru að reyna að komast heim. Þegar við stigum frá borði og sáum geðveikina trúðum við þessu varla. Sem betur fer þurftum við ekki að fara í löngu raðirnar, en við þurftum að koma nálægt farþegum. Fólk var bókstaflega hvað ofan í öðru. Það tók okkur yfir klukkustund að fara í gegnum tollinn þann dag en það tók örugglega marga fjóra til sex 6 tíma að komast í gegn. Ég get ekki sagt þér hversu margir voru örugglega smitaðir og gátu smitað aðra þarna, það var stappfullt af fólki,“ segir Linda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert