Stöldrum við svo ferðalög framtíðarinnar verði betri

Elsa Waage er óperusönkona sem hefur ferðast víða m.a. vegna …
Elsa Waage er óperusönkona sem hefur ferðast víða m.a. vegna vinnu en einnig til að snerta lífið og læra eitthvað nýtt. Ljósmynd/Vera Pálsdóttir
Elsa Waage óperusöngkona er mikill lífskúnstner. Hún segir dýrmætustu minningarnar í dag vera úr ferðalögum sem hún og Emilio De Rossi eiginmaðurinn hennar sem nú er látinn og dóttir þeirra Júlía Charlotte de Rossi fóru er þau sigldu um höfin blá og nutu lífsins. 
„Ég viðurkenni það að þó að ég hafi ferðast víða þá hafa flest þeirra ferðalaga tengst minni atvinnugrein, fyrst í námi erlendis og svo sem alþjóðleg söngkona.
Ef ég ætti að talað um ferðalög sem frí þá eru þau ekki svo ýkja mörg. Það sem stendur upp úr af þeim er Jamaíka og Hvar í Króatíu. Þegar ég var í háskólanámi í Washington D.C. vantaði mig pening eitt sumarið og fann mér vinnu hjá fyrirtæki með farandsölu á orðabókum. Ég skellti mér í það og gekk mér svo vel í sölumennskunni að ég vann til ýmissa verðlauna þar á meðal vikuferð til Montego Bay á Jamaíka. 
Það var alger upplifun að koma til heimalands raggí tónlistar. Þar var besta kaffi í heimi að mínu mati, Blue Mountain kaffi og bestu Romm kokteilarnir bornir fram í kókóshnetum. 
Eins var fólkið eitt það fallegasta sem ég hef séð og sérlega áhugavert. Ég var í viku, þannig að ég kynntist landi og þjóð með augum ferðamanns.“  

Ferðalög með fjölskyldunni dýrmætust 

Síðar á ævinni varði Elsa fríum með fjölskyldunni á króatísku eyjunni Hvar. 
„Ég og maðurinn minn, Emilio De Rossi, og dóttir okkar áttum lítinn bát sem við sigldum á milli eyja í Adríahafinu, en við dvöldumst á eyjunni Hvar. Þetta eru mínar ljúfustu ferðaminningar. Loftslagið var yndislegt og mikið af ilmandi furu og lavender trjám. Sjórinn var hreinn og fallegur og okkur tókst oft að fiska okkur í kvöldmatinn og renndum honum niður  með fersku staðar hvítvíni. Strendurnar voru grjótstrendur og Júlía mín gat varið tímunum saman í að tína fallega steina á ströndunum. Maðurinn minn var mikill sundmaður og kafari og hann kenndi okkur mæðgum að kafa. Við elskuðum tæran sjóinn og það sem við fundum neðansjávar. Sjórinn var samt kaldur en það var allt í lagi því loftslagið var hlýtt og þurrt og við vorum fljót að ná hita þegar við komum upp úr.
Ég átti mín verðmætustu frí í faðmi fjölskyldunnar á Hvar. Þar vorum við frjáls í villtri náttúrunni á allt annað hátt en maður hafði vanist. Ég elskaði að liggja í bátnum um miðjan daginn, þar sem sólin sleikti okkur. Dóttir mín var í stafninum með tíkina okkar Vitu á bak við sig og maðurinn minn að dorga með von um að veiða í matinn. Ég hlustandi á mjúkar öldurnar sem skullu vingjarnlega á bátnum.“

Hugsar hlutina til enda

Elsa segir að þótt hún hafi kannski aldrei verið neinn sérfræðingur í að pakka klæðnaði þá hafi hún alltaf verið með eitt fatasett til skiptanna í handfarangri sem kom að góðum notum ef ferðataskan skilaði sér ekki á leiðarenda. 
„Ég hef ansi oft lent í því að fá ekki farangurinn með úr fluginu. Svo hef ég haft það fyrir reglu að hafa alltaf nótur með og konsert kjól í handfarangrinum ef um vinnuferð er að ræða. Í ferðalög sem eru farin í frí þá er ég með mun einfaldari handfarangur. Ég ferðast í þægilegum fötum sem auðvelt er að þvo og set aukanærföt til skiptanna í handfarangurinn og sundbol ef ég er að fara til sólarlanda. Eins tek ég alltaf með smávegis þvottaefni svo ég geti skolað úr fötunum ef ég lendi í vandræðum með ferðatöskuna.“
Elsa Waage segir mikilvægt að snerta lífið en bíða ekki …
Elsa Waage segir mikilvægt að snerta lífið en bíða ekki eftir því að lífið snerti okkur. Ljósmynd/Vera Pálsdóttir
Að sumri til notar Elsa mest hörfatnað sem er þægilegur í hita og þá helst kjóla og víðar buxur. 
„Hörfatnaður má alveg vera krumpaður. Þannig að maður þarf ekki að vera að strauja mikið. Þröng föt og gallabuxur eru skilin eftir inn í skáp þegar farið er að hitna. Ég reyni að velja fáa liti sem passa saman. Tek með mér eins lítið snyrtidót og hægt er og kaupi þá á staðnum ef mig vantar. Eins finnst mér mikilvægt að vera með ferðatryggingu. Á Spáni sem dæmi, eru oft einkaspítalar í minni héruðum þar sem Evrópu heilsutryggingar duga ekki. Þá er gott að vera með sérstaka tryggingu ef svo óheppilega vill til að maður lendi á spítala.“

Leiðin til að meta frelsið betur í framtíðinni

Það sem skiptir Elsu mestu máli í dag er fjölskyldan hennar og góð vináttubönd.
„Að njóta þess að vakna á hverjum degi, eiga í sig og á og snerta lífið í öllu sínu litrófi skiptir mig máli. Ég mæli með að fólk bíði ekki eftir því að lífið snerti það. Við erum það sem við gerum, ekki það sem okkur langar að gera. 
Ferðalög eru svo mikilvæg. Allt það nýja sem mætir okkur í framandi löndum er svo mikilvægt. Svo á ég annað heimaland, Ítalíu þar sem dóttir mín er föst núna út af COVID-19. Fyrir mér er það frekar erfitt að geta ekki farið þangað sem mig langar. Þetta samt kennir manni að það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi og við þurfum að fanga augnablikin og njóta þeirra, við lifum jú víst bara núna.
Áður en ég ferðast bið ég alltaf til Guðs, ekki af því ég sé hrædd en þá finnst mér samt ég vera í öruggum höndum.“
Elsa er á því að við ættum að njóta þess núna að vera þar sem við erum. Því þá munum við kannski njóta í mun meira mæli frelsisins til að ferðast eftir þessa erfiðu reynslu sem við erum öll að fara í gegnum núna. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert