Ferðamenn sendir heim frá Hawaii

Tuttugu ferðamenn hafa verið sendir til síns heima frá Hawaii …
Tuttugu ferðamenn hafa verið sendir til síns heima frá Hawaii síðan 6. apríl. AFP

Eyjar Hawaii eru vinsælir áfangastaðir ferðamanna og hafa íbúar Hawaii fengið lof fyrir gestrisni sína síðustu áratugi. Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur ríkisstjórn Hawaii-ríkis krafist þess að ferðamenn sem koma til eyjanna sæti 14 daga sóttkví. 

Dregið hefur úr ferðalögum til eyjanna en þó ekki að fullu. Ferðamálaráðuneyti Hawaii hefur lagt 25 þúsund Bandaríkjadali til Visitor Aloha Society of Hawaii, VASH, til þess að aðstoða þá gesti sem ekki hafa tök á að fara í 14 daga sóttkví. Hafi ferðamenn sem koma til Hawaii ekki tök á því að fara í sóttkví geta þeir fengið frían flugmiða aftur til síns heima. 

Þessi lög tóku gildi 6. apríl og 24. apríl höfðu 20 farþegar verið sendir aftur heim. „Flestir ferðamennirnir sem við sendum aftur heim tóku að mínu mati óábyrga ákvörðun um að heimsækja Hawaii meðan heimsfaraldurinn geisar og á sama tíma og þeir vita að við erum að reyna að hefta útbreiðsluna á Hawaii,“ sagði Jessica Lani Rich, framkvæmdastjóri VASH, í viðtali við New York Times

VASH-samtökin veita öllu jöfnu ferðamönnum almenna aðstoð við að ferðast um eyjarnar. Þrátt fyrir að komum ferðamanna hafi fækkað um 99 prósent hafa íbúar tilkynnt um ferðamenn á ströndunum þrátt fyrir fyrirmæli um sóttkví og að halda sig heima. Allar strendur á Hawaii eru lokaðar þótt einstaklingar hafi leyfi til að synda og fara á brimbretti við ströndina, haldi þeir tveggja metra reglunni.

Þann 22. apríl, næstum því mánuði eftir að ríkisstjórinn David Ige boðaði reglur um 14 daga sóttkví fyrir alla þá sem kæmu til Hawaii, hefur 421 farþegi komið til eyjanna með flugi, þar af 109 sem búa ekki á Hawaii. Ekki er vitað hver heildarfjöldi ferðamanna á Hawaii er í dag. 

Í dag hafa 607 greinst með kórónuveirusmit á Hawaii, 493 hafa náð sér og 16 manns látist.

Ferðamenn eru ekki velkomnir á Hawaii í bili.
Ferðamenn eru ekki velkomnir á Hawaii í bili. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert