Upplifði paradís á jörðu þegar heimurinn fór á hliðina

Skúli segir jóga auka vellíðan í daglega lífinu.
Skúli segir jóga auka vellíðan í daglega lífinu.

Skúli Bragason er í sóttkví um þessar mundir og segir að hann noti tímann til að hugleiða og stunda jóga heima fyrir. Hann ákvað á elleftu stundu að fara utan í jógakennaranám til Taílands og var því í paradís á jörðu að eigin sögn, á meðan heimurinn fór á hliðina vegna Covid-19.  

„Ég tók afdrifaríka ákvörðun um miðjan mars mánuð þegar ég ákvað að skella mér til Taílands til þess að læra að verða jógakennari. Þar dvaldi ég á paradísareyjunni Koh Samui. Aðgerðir gagnvart Covid-19 voru töluvert litlar á þessum tímapunkti og því gat ég nýtt tímann vel áður en námið byrjaði. Ég fór í göngur í gegnum stórkostlega skóga og fossa. Skoðaði gömul risastór musteri og fór í bátsferðir á litlar eyjur í kring. Það má segja að ég hafi verið í paradísar-„búbblu“ á meðan allur heimurinn var farinn á hliðina.“

Öllu flugi til og frá eyjunni aflýst

Skúli stundaði jógakennaranámið í apríl þar sem dagarnir einkenndust af stífri jógaiðkun, hugleiðslu og almennum kennslustundum. 

„Þetta var krefjandi en magnaður tími og ég mun taka mikið af því sem ég upplifði og lærði með mér inn í lífið. Þegar náminu lauk voru aðgerðir gagnvart Covid-19 orðnar meiri á eyjunni, flestir staðir voru lokaðir og öllu flugi til og frá eyjunni var aflýst.

Flugframboð til Evrópu var sáralítið, verðin margfölduðust og svo gat maður í þokkabót ekki verið viss um að fluginu yrði ekki aflýst vegna ástandsins. Á þessum tímapunkti var ég ekki viss um það hvenær og hvernig ég myndi komast heim. Mér leið eins og ég væri innikróaður á þessari agnarsmáu eyju, ansi langt frá heimilinu mínu.“

Þetta óvissuástand varði í tvær vikur þangað til Skúli fann leið til að komast heim. Hann pakkaði fljótt í töskur og lagði af stað með bát daginn eftir að hann kom auga á leið til baka. 

„Ég fékk á tilfinninguna að ef ég myndi ekki fara núna, þá væri ansi langt í að ég kæmist nokkurn tímann heim aftur. Þá tók við tveggja daga ferðalag. Fyrst með báti frá eyjunni á meginlandið til Surat Thani, þaðan flaug ég til Bangkok, Amsterdam, London og loks til Íslands. Ferðalagið gekk eins og í sögu og áður en ég vissi af var ég kominn til Íslands.“

Héldu að ég væri að missa vitið að fara út

Hvernig lýsir þú Taílandi?

„Þar sem ég var að mestu leyti fastur á þessari litlu paradísareyju Koh Samui þá fékk ég að sjá mun minna af Taílandi en ég hefði viljað. En það sem eyjan býður upp á er gríðarleg náttúrufegurð, mikill friður yfir öllu og fólkið einstaklega brosmilt og almennilegt. 

Ég myndi klárlega mæla með Koh Samui fyrir fólk sem er að leita að fallegum stað, hita, ströndum, slökun, fossum og jóga.“

Skúli í Taílandi.
Skúli í Taílandi.

Skúli segir að hann muni klárlega fara aftur til landsins og þá ferðast víðar. 

En hvernig var að fara utan í upphafi faraldursins?

„Upprunalega flugið mitt féll niður vegna Covid-19 og því ákvað ég þarna um miðjan mars að taka af skarið og kaupa mér miða aðra leið, daginn fyrir brottför.

Flestir í kringum mig hafa eflaust haldið að ég væri að missa vitið þarna, alls staðar í heiminum voru fréttir af því að lönd væru að loka landamærum en þarna var ég að ákveða að fara alla leið til Taílands. Það var auðvitað svolítið óþægilegt að ferðast á þessum tímapunkti, fólk var í eins konar hræðsluástandi og svolítið „súrrelaískt“ að sjá fólk með grímur og í búningum á flugvöllunum. 

Einnig var alltaf sá möguleiki til staðar að flugunum yrði aflýst og ég yrði fastur í einhverju landi. Fluginu mínu frá Íslandi til Frankfurt var seinkað og því þurfti ég að hlaupa með töskuna mína milli hliða á flugvellinum þar, en þetta gekk allt saman upp á endanum.“

Mælir með að borða mangó 

Lærðir þú eitthvað um matargerð úti?

„Ég var inni í minni „búbblu“ meðan ég var þarna úti. Við sváfum, æfðum og borðuðum á sama stað, þar sem ég var við jógakennaranámið. Það var frábær matur í boði þar. Allt lífrænt, mestmegnis grænmætisfæði en einnig var ferskur fiskur úr sjónum á boðstólnum.

Maturinn var í samræmi við jógískan lífsstíl og var stór hluti af þessari mögnuðu upplifun. 

Mangó úti í Taílandi er besti ávöxtur sem ég hef smakkað. Ég mæli hiklaust með því að fólk smakki það.“

Skúli segir mikinn misskilning ríkja hjá fólki og þá sér í lagi karlmönnum að þeir þurfi að vera liðugir til að stunda jóga. 

„Ef þú ert stirður þá er það einmitt ástæða til þess að byrja að stunda jóga, til þess að liðka og mýkja líkamann og líða betur. Staðreyndin er sú að allt of margir karlmenn eru mjög stirðir og stífir í líkamanum. Jóga hentar öllum, hvort sem þú ert nú þegar að stunda einhvers konar líkamsrækt og vilt bæta liðleika og hreyfanleika eða fyrir þá sem vilja byrja að hreyfa sig. Þá er jóga frábær leið til þess.“

Skúli segir jóga samt ekki bara hreyfingu, teygjur eða slökun. 

„Fólk kemst fljótt að því þegar það stundar jóga reglulega að það iðkar ákveðna núvitund þegar það hreyfir líkamann í fullri meðvitund í takt við öndunina og færir þannig fókusinn inn á við. Með því að beina athyglinni að andardrættinum þjálfum við þann hluta heilans sem stjórnar því hverju við veitum athygli. Það er frábært að lyfta lóðum, hlaupa, hjóla eða bara hvað sem er sem aðstoðar við að ná hjartslættinum upp og styrkir líkamann. En ég trúi að við þurfum að finna ákveðið jafnvægi og ég tel marga karlmenn vanta að setja meiri athygli í teyjur, slökun og að fara inn á við og þjálfa hugann ekki síður en líkamann.“

Langar að hjálpa öðrum að líða vel í daglega lífinu

Skúli segir rúsínuna í pylsuendanum vera þá vellíðan og frið sem fólk upplifir í kjölfar æfinganna. 

„Áður en ég prufaði jóga hélt ég að jóga væri bara teygjur og slökun. Þegar ég prufaði fyrsta jógatímann minn varð ég strax heillaður af því hversu langt þú getur farið með líkamlegu stöðurnar. Þetta upplifði ég þegar ég sá kennarann og reyndar iðkendur líka nota líkamann sinn á þann hátt sem ég hreinlega skildi ekki. Ég heillaðist strax af þessum flóknu stöðum og vildi bæta liðleika og styrk til þess að ná þeim sjálfur. 

Ég kynntist handstöðunni fyrst í gegnum jóga og varð heltekinn af því hversu skemmtilegt það er að æfa og pæla í handstöðunni.

Skúli náði tökum á handstöðunni í gegnum jóga.
Skúli náði tökum á handstöðunni í gegnum jóga.

Eftir að ég byrja svo að stunda jóga reglulega, fór ég að finna fyrir gríðarlega góðum áhrifum ekki bara líkamlega heldur andlega líka. Þá áttaði ég mig á því að leiðin mín inn í jóga, sem var líkamlega hliðin, var alls ekki mikilvægasta hliðin á jóga. Vellíðan og kyrrð hugans sem fylgdi alltaf eftir tímana fór að ná inn í hið daglega líf líka.

Ég fór að vera meðvitaðri um eigin hugsanir og tilfinningar. Boltinn var byrjaður að rúlla í ansi góða átt.“

Skúli er einn af þeim sem vil ekki ákveða of mikið þegar kemur að framtíðinni. 

„Ég fylgi því sem veitir mér ástríðu og ánægju hverju sinni og sé hvert það leiðir mig. Mig langar til að líða vel í mínu daglega lífi og vonandi get ég hjálpað öðrum að gera slíkt hið sama. En það sem er helst á döfinni núna er karlajóganámskeiðið sem ég mun halda utan um í Sólum jógastúdíói sem fer af stað núna 2. júní. Þetta er námskeið í 4 vikur, tvö skipti í viku þar sem við munum fara yfir undirstöðuatriðin í jóga og er sérstaklega ætlað karlmönnum sem vilja kynnast jóga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert