Flug, bíll og gisting á sérkjörum

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Icelandair og Air Iceland Connect hafa hleypt úr hlaði nýrri markaðsherferð undir yfirskriftinni „Kynnumst upp á nýtt!“. Markmið hennar er að hvetja Íslendinga til að ferðast innanlands í sumar.

Um er að ræða pakkaferðir til Akureyrar, Egilsstaða, Ísafjarðar og Reykjavíkur. Þannig verður boðið upp á flug, bíl og gistingu á sérkjörum auk þess sem viðskiptavinir munu njóta afslátta í samstarfi við fjölmarga ferðaþjónustuaðila víða um land að því er segir í fréttatilkynningu.

Herferðin mun standa til 31. ágúst og verður því hægt að nýta þessi kjör í allt sumar.

Birna Ósk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair, segir í fréttatilkynningu: „Við finnum fyrir miklum vilja hjá landsmönnum til að kynnast landinu upp á nýtt og ferðast innanlands í sumar. Því höfum við lagt upp í þessa herferð í samstarfi við fjölmarga samstarfsaðila víða um land sem eru vel í stakk búnir til að taka á móti gestum í sumar. Íslendingar kunna að gera það besta úr aðstæðunum hverju sinni og við viljum nýta þau tækifæri sem nú gefast til að bjóða landsmönnum upp á aukin þægindi við ferðalög innanlands. Hér er allt til staðar, flugvélar, bílaleigubílar, hótel og óteljandi afþreyingarmöguleikar, svo ekki sé minnst á okkar fallegu náttúru.“

mbl.is