Heldur til í fokdýru glæsihýsi á Nýja-Sjálandi

Benedict Cumberbatch.
Benedict Cumberbatch. AFP

Hollywood-leikarinn Benedict Cumberbatch og eiginkona hans, leikstjórinn Sophie Hunter, hafa það ansi gott í kórónuveirufaraldrinum. Þau eru stödd á Nýja-Sjálandi að því er fram kemur á vef The Sun og leigja þar rándýrt glæsihýsi. 

Glæsihýsið er sagt vera frábær staður til þess að láta lítið fyrir sér fara. Það er við strönd og á stórri landareign. Húsinu fylgir auðvitað sundlaug og sundlaugarhús. Nóttin er sögð kosta 1.700 pund eða tæplega 300 þúsund íslenskar krónur. Mögulega hefur þó Cumberbatch fengið góðan afslátt.  

Leikarinn er staddur í landinu ásamt eiginkonu og börnum sínum tveimur þar sem hann var í tökum fyrir myndina The Power of the Dog. Gera þurfti hlé á tökum vegna kórónuveirunnar en útgöngubann var sett á í landinu í lok mars. Aðgerðum hefur smám saman verið aflétt eins og annars staðar í heiminum. 

Heimildarmaður segir að hjónin hafi ákveðið að vera áfram í sveitinni á Nýja-Sjálandi eftir að útgöngubann var sett á í stað þess að fara heim til Englands. Nú syttist í það að tökur haldi áfram. Heimafólk hefur tekið eftir Cumberbatch njóta þess sem sveitin hefur upp á að bjóða. 

Benedict Cumberbatch og Sophie Hunter.
Benedict Cumberbatch og Sophie Hunter. AFP
mbl.is