„Brýnt er að eiga góðan fatnað og vandaða skó“

Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands, hér staddur á Þingvöllum.
Ólafur Örn Haraldsson forseti Ferðafélags Íslands, hér staddur á Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einn af uppáhaldsstöðum Ólafs Arnar Haraldssonar á Suðurlandi er Brúarárskörð, þar sem uppspretturnar fossa úr berginu. 

Íslendingar ætla að nota sumarið til að ferðast innanlands og fer t.d. ekki framhjá þeim sem nota samfélagsmiðla að margir eru byrjaðir að leggja drög að ógleymanlegum ævintýrum í íslenskri náttúru. Um allt land má finna einstakar perlur og óviðjafnanlegt landslag og þeir sem á annað borð smitast af útivistarbakteríunni virðast smitast fyrir lífstíð enda alltaf hægt að uppgötva eitthvað nýtt og stórkostlegt í íslenskri náttúru.

Þetta veit Ólafur Örn Haraldsson manna best, en hann er forseti Ferðafélags Íslands og í hópi reyndustu fararstjóra landsins. Ólafur Örn þekkir landið út og inn og stendur ekki á svörunum þegar hann er spurður um áhugaverðustu áfangastaðina á Suðurlandi:

„Það sem einkennir Suðurlandið ekki hvað síst er hversu fjölbreytt það er og þegar ekið er eftir hringveginum meðfram fjallahringnum opnast manni í sífellu ný vídd og ný sýn. Þeir sem ferðast þessa 300 km leið sjá allt það glæsilegasta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.“

Er þá alveg eftir að nefna þá fegurð sem finna má þegar farið er inn til landsins, en á léttum jeppa eða fjórhjóladrifnum fólksbíl má ferðast nokkuð langt upp á hálendið yfir sumartímann, s.s. inn í Friðland að Fjallabaki, inn að Landmannalaugum og upp að Heklu. „Í Þjórsárdal og nágrenni er ótrúlega margt sem hægt er að skoða, s.s. Háifoss, Þjóðveldisbærinn og Gjáin, sem er að margra mati einn fallegasti staður á Íslandi. Er ekki erfitt að nálgast flestar fallegustu perlur Suðurlandsins og óhætt að hafa börn með í för um þetta svæði.“

Á mörkum öræfa og grænna sveita

Einn af uppáhaldsstöðum Ólafs Arnar á Suðurlandi er Brúarárskörð og svæðið þar í kring. Þar rennur Brúará, sem á uppruna sinn á Rótarsandi þar sem vatnið sprettur upp úr svörtum sandinum og safnar svo liðsauka úr ýmsum uppsprettum og lækjum á leið sinni gegnum skörðin. „Brúarárskörð eru fyrir ofan Bláskógabyggð og skildi Brúará lengi að hreppana Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp sem síðar voru sameinaðir. Þeir sem ferðast um þetta svæði geta m.a. gengið upp á Högnhöfða, sem er hluti af röð fjalla sem fylgja landmótunarlínunni frá suðvestri til norðausturs og skilja á milli öræfa og óbyggðar og sumra blómlegustu sveita landsins. Þegar horft er inn til hálendisins blasa við eyðisandar og jöklar, en horft til suðurs má sjá græn tún, kjarr og skóga.“

Að leita að uppsprettu Brúarár er mögnuð upplifun að sögn Ólafs Arnar, enda breytist áin hratt á aðeins örfáum kílómetrum og fer úr því að vera örlítil uppspretta á sandi yfir í að vera vatnsmikil bergvatnsá. „Best er að ganga upp með ánni hægramegin, þ.e. norðan- og austanmegin, njóta útsýnisins yfir stórbrotið gljúfrið sem áin rennur í gegnum, og sjá hvernig uppspretturnar fossa út úr berginu,“ segir hann og minnir á að ef börn eru með í för er vissara að hafa á þeim gætur því hættulegt getur verið fyrir forvitna að fara of nálægt brún gljúfursins.

Geta ekið eða gengið

Ólafur Örn mælir með tveimur leiðum til að skoða Brúarárskörð, eftir því hvort fólk vill komast þangað akandi eða á tveimur jafnfljótum. „Þeir sem vilja fara á bíl ættu að taka stefnuna á bæinn Úthlíð í Bláskógabyggð, þar sem fjölskylda Björns Sigurðssonar býður upp á ýmiss konar þjónustu. Þaðan liggur slóði inn í land og upp að Brúarárskörðum og ætti að vera fær venjulegum fjórhjóladrifnum heimilisbílum. Er upplagt, á leiðinni til baka, að líta við á veitingastaðnum í Úthlíð,“ útskýrir Ólafur Örn.

Þeir sem vilja ganga upp að Brúarárskörðum ættu að byrja ögn vestar, við bústaði VR. „Þar má leggja bílnum á góðum stað og fylgja svo þröngum skógarstíg fram með silfurtærri Hrútá. Er ýmist hægt að fara sömu leið til baka eða fylgja bílveginum niður að Úthlíð og þá mögulega fá far að bústaðasvæði VR til að sækja bílinn.“

Að ganga upp í Brúarárskörð kallar ekki á mikinn undirbúning og ætti að vera nóg að klæðast útivistarfatnaði sem hæfir veðri, og striga- eða gönguskóm sem hafa verið gengnir til. Þeir sem leggja af stað um kl. 9 að morgni ættu að vera komnir aftur á upphafsreit síðdegis og vissara að taka með gott nesti, vatn á flösku ellegar kakó á brúsa, og eins og eina klósettpappírsrúllu.

Gott að miða við 12-15 km göngu á einum degi

Margir þeirra sem ætla að nota sumarið til að uppgötva undur íslenskrar náttúru eru að ferðast um sveitir og óbyggðir landsins í fyrsta skipti, og er ekki úr vegi að biðja Ólaf Örn um góð ráð fyrir byrjendur. Hann segir það góða reglu að fara hægt af stað og byrja á styttri og viðráðanlegri dagleiðum. „Brýnt er að eiga góðan fatnað og vandaða skó sem búið er að ganga til. Næst húðinni ætti að klæðast hlýrri ull, svo lopa- eða flíspeysu utan yfir og loks nota vind- og regnheldan stakk sem þriðja lag. Með þessu þriggja laga fyrirkomulagi er auðvelt að taka af eða bæta við eftir veðri hverju sinni og geyma viðbótarfatnaðinn í léttum dagpoka,“ segir hann. „Þá er mikill stuðningur í því að eiga þægilega göngustafi sem hægt er að stytta eða lengja eftir þörfum.“

Vitaskuld ætti að taka farsímann með og ganga úr skugga um að hleðslan á rafhlöðunni endist allt ferðalagið og gott betur. „Gott er líka að láta einhvern vita áður en haldið er af stað; segja hvert ferðinni er heitið og hvaða leið á að fara, og gera síðan vart við sig í lok ferðar.“

Byrjendur sem eru í sæmilegu formi geta reiknað með að ganga um 12-15 km leið á einum degi og er þá gert ráð fyrir því að staldra við endrum og sinnum til að hvílast, nærast og safna kröftum áður en aftur er haldið af stað. Er meðal-gönguhraði í óspilltri náttúru um það bil 3 km/klst. og þarf að taka með í reikninginn hvort hæðarbreyting er mikil eða lítil. „Áður en lagt er af stað ætti að skoða veðurspána vel og hafa það hugfast að þegar nær dregur hausti er stundum allra veðra von og getur dimmt býsna hratt á kvöldin,“ segir Ólafur og minnir á að ferðalangar gangi vel um náttúruna og skilji ekkert eftir sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »