Forðist skemmtiferðaskipin

AFP

Breska ríkisstjórnin hvetur Breta til þess að forðast ferðalög með skemmtiferðaskipum. Þetta kemur fram í nýjum tilmælum frá stjórnvöldum. Fyrir tæpri viku var aflétt ferðatakmörkunum íbúa á Englandi til annarra landa en ekki fjallað sérstaklega um skemmtiferðaskip. 

Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisþjónustunni verður áfram fylgst grannt með þróun mála og tilmælum breytt varðandi skemmtiferðaskipin ef það er talið óhætt út frá heilbrigðissjónarmiðum. Tilmælin nú byggja á ráðleggingum frá embætti landlæknis. 

Þetta þýðir að þeir sem eiga slíkar ferðir bókaðar í náinni framtíð eiga á hættu að hætt verði við ferðirnar. 

Rory Boland, ritstjóri tímaritsins Which? Travel, segir í samtali við Guardian að þetta muni leiða til þess að nánast allar ferðir með skemmtiferðaskipum á næstunni verði aflýst eða frestað. 

Stærsta útgerð skemmtiferðaskipa í Bretlandi, P&O Cruises, hefur aflýst öllum ferðum þangað til um miðjan október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka