Gönguskórnir morknuðu í sundur

Erla og Hálfdan.
Erla og Hálfdan. Ljósmynd/Aðsend

Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og sérfræðingur í betri svefni, gekk Laugaveginn í byrjun ágúst ásamt Hálfdani Steinþórssyni eiginmanni sínum og þremur sonum sem eru 10, 14 og 16 ára gamlir. Ferðin gekk ekki snurðulaust fyrir sig en Erla lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu að skórnir hennar gjöreyðilögðust þegar um 40 km voru eftir. 

Límdir saman með heftiplástri

„Við vorum að hefja annan göngudaginn og áttum um 40 km eftir í það heila þegar skórnir bókstaflega duttu í sundur. Þetta var auðvitað smá sjokk því við vorum ekki með neina aukaskó með og löng ganga fram undan. Við vorum að leggja af stað úr Hrafntinnuskeri og á leið í Emstrur þannig að við áttum eftir að ganga um 28 km þennan dag. Hálfdan greip til þess ráðs að líma skóna saman með heftiplástri og binda þá með reimum. Svo klæddum við sokka yfir skóna svona til að reyna að halda þeim saman en þetta dugði nú ekki vel og hélt aðeins í nokkur hundruð metra í einu og við fórum í gegnum ansi mörg sokkapör á þessari helgi. Loks komum við í skála þar sem við fengum sterkt límband sem hélt þessu örlítið betur saman þannig að þeir rétt héngu á límingunum fram á síðasta kílómetra.“

„Eftir að hafa gengið heilan dag á ónýtu skónum voru fæturnir vægast sagt orðnir aumir og ég gat ekki hugsað mér að ganga eitt skref í þessum skóm daginn eftir. Sonur minn sem er í svipaðri skóstærð og ég var svo sætur að bjóða mér sína skó og hann tók það á sig að ganga í ónýtu skónum síðustu 15 kílómetrana. Við vorum því bæði ansi glöð þegar við hentum skónum í ruslið þegar heim var komið,“ segir Erla.

Hafði geymt skóna í hitakompu

Aðspurð hvernig upplifun það hafi verið að skór eyðileggist í miðri göngu segir Erla það hafa verið vonda tilfinningu. „Þetta er alls ekki skemmtileg tilfinning og ákveðinn lærdómur um hvernig maður á að búa sig undir svona framvegis. Ég hafði geymt gönguskóna í hitakompu yfir sumarið sem er víst alls ekki góð hugmynd þar sem þeir bókstaflega morknuðu í sundur eftir fyrsta daginn. Maður verður að huga að því hvernig maður geymir skóna, vera með auka skópar með og sterkt límband ef allt fer á versta veg“.

Erla er þó ekki buguð eftir þessa reynslu. „Í heildina var gangan alveg frábær. Þessi gönguleið er svo ótrúlega falleg og stórbrotin. Við fengum allar tegundir af veðri, sváfum t.d í tjaldi í bandbrjáluðu veðri á Hrafntinnuskeri og áttum margar notalegar samverustundir sem standa að sjálfsögðu upp úr. Ég er oft frekar seinheppin þannig að þetta með skóna kom kannski ekki endilega á óvart og er í raun bara skemmtileg saga að segja svona eftir á,“ segir Erla að lokum.

Erla ásamt þremur sonum sínum af fjórum. Sá allra yngsti …
Erla ásamt þremur sonum sínum af fjórum. Sá allra yngsti fékk að vera heima í góðu yfirlæti. Ljósmynd/Aðsend
Skórnir duttu í sundur.
Skórnir duttu í sundur. Ljósmynd/Aðsend
Svona var málinu reddað.
Svona var málinu reddað. Ljósmynd/Aðsend
Gangan varð aðeins erfiðari eftir að skórnir duttu í sundur.
Gangan varð aðeins erfiðari eftir að skórnir duttu í sundur. Ljósmynd/Aðsend
Feðgar að njóta útsýnis. Eftir stendur ógleymanleg fjölskylduferð.
Feðgar að njóta útsýnis. Eftir stendur ógleymanleg fjölskylduferð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is