Besti ferðafélaginn fyrir ferðalagið um Ísland

Vefurinn Nat.is nýtist vel við skipulagningu ferða innanlands.
Vefurinn Nat.is nýtist vel við skipulagningu ferða innanlands. mbl.is/RAX

NAT Travel Guide ehf., eigandi ferðavefsins www.nat.is, hefur uppfært íslenskan hluta vefsins og opnað hann almenningi á www.is.nat.is.

Nat.is á sér langa sögu að sögn Birgis Sumarliðasonar, eins stofnenda síðunnar. Birgir hefur starfað í ferðamannaiðnaðinum í 55 ár og safnað upplýsingum um landið og gert þær aðgengilegar almenningi. 

Fyrstu síðurnar voru skrifaðar 1998 og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt gegnum árin og eru nú yfir 3.000. Verkefnið hefur alfarið verið unnið af áhugamönnum um upplýsingaveitu um Ísland og er hreint einkaframtak.

Birgir stofnaði fyrstu upplýsingamiðstöðina fyrir ferðamenn á Íslandi í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti í Reykjavík. Í þá daga flaug Birgir mikið með blaðamenn og ljósmyndara Morgunblaðsins um landið og hófu þeir að safna upplýsingum um vötn sem ekki höfðu verið skráð áður. Þar voru drögin lögð að öllum þeim upplýsingum sem finna má á Nat.is í dag. 

Birgir segir margt hafa breyst í gegnum árin. Þegar hann starfaði sem flugmaður hafði hann bara einu sinni farið með ferðamenn til Vestmannaeyja fyrir eldgosið árið 1973 og þá aðeins því einn farþeginn þurfti nauðsynlega að komast á klósettið. Annars var förinni heitið til Surtseyjar. Eftir gos var ekki sömu sögu að segja og buðu þeir upp á ferð til Vestmanneyja að skoða nýja hraunið. 

Eins starfaði Birgir við að þjónusta aðila í ferðaþjónustunni sem fóru með ferðamenn upp á hálendið. Þá voru aðeins tveir sem buðu upp á slíkar ferðir en í dag skipta þeir tugum sem leggja leið sína upp á hálendið með erlenda sem og íslenska ferðamenn. 

Á vefnum má finna ógrynni upplýsinga sem nýtast við skipulagningu ferða um landið en þar má einnig finna mikið af upplýsingum um sögu staða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert