Vildu eiga minna, lifa meira og vinna minna

Margrét Rós Harðardóttir býr í Berlín.
Margrét Rós Harðardóttir býr í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Rós Harðardóttir, leiðsögu- og myndlistarmaður, hefur komið sér vel fyrir í Berlín. Hún nýtur þess að fræða Íslendinga sem heimsækja borgina um leyndadóma Berlínar með Berlínum. Vegna kórónuveirufaraldursins hefur hún lagt meiri áherslu á myndlistina og garðrækt síðustu mánuði en hættir þó ekki að lifa lífinu til fulls sem var einmitt eitt af markmiðunum með búferlaflutningunum.

Margrét Rós heilsaði blaðamanni í lok september með þeim orðum að það væri 27 stiga hiti í dásamlega garðinum hennar. Á meðan horfði blaðamaður út um gluggann í íslenska rokið. Það var þó ekki veðrið sem fékk Margréti Rós til að flytja til Berlínar heldur ástin en hún er í dag gift Þjóðverjanum Matthiasi Wörle og á með honum tvo drengi.

Garðurinn hennar Margrétar Rósar er aðeins í 500 metra fjarlægð frá heimili hennar en 250 fermetra garðskikann fengu þau nýlega eftir sjö ára bið. Í garðinum rækta þau grænmeti, blóm og ber, eru með útieldhús og tvö lítil hús.

Margrét Rós hefur einbeitt sér að garðrækt í kórónuveirufaraldrinum.
Margrét Rós hefur einbeitt sér að garðrækt í kórónuveirufaraldrinum. Ljósmynd/Aðsend

„Ef þú sendir okkur tölvupóst þá förum við í Berlínum af stað. Það hafa verið örfáar ferðir á kórónuveirutímanum. Við erum tvær sem eigum Berlínur og það er okkar aðalstarf. Einnig erum við með nokkra leiðsögumenn á okkar snærum. En ég er myndlistamaður og hef verið að nýta tímann í það og svo erum við með garð rétt hjá heimilinu okkar og ég er búin að hella mér í vinnu þar,“ segir Margrét Rós um síðustu mánuði. Hún segir allt hafa verið mjög strangt í Þýskalandi í vor og fóru synir hennar nýlega í skólann í fyrsta skipti í fimm mánuði.

Vildu njóta meira og eiga minna

Eftir að hjónin prófuðu að búa á Íslandi ákváðu þau að flytja til Þýskalands og varð Berlín fyrir valinu.

„Við tökum ákvörðun um að flytja til Berlínar af því að okkur langaði til að breyta um lífsstíl. Vera lífrænni, eiga minna, lifa meira og reyna að vinna aðeins minna. Ég hafði unnið alveg svakalega mikið fram að þeim tímapunkti eins og venjulegur Íslendingur. Við ákváðum bara að breyta um lífsstíl fyrst við vorum á annað borð að flytja. Ég held að það sé auðveldara að lifa svona erlendis. Það er auðveldara að eiga ekki bíl, að eiga minna og taka ekki alveg þátt í þessu kapphlaupi sem er heima.“

Margrét Rós segir að auðvitað hafi verið hægt að fara til margra þýskra borga en það var margt sem vann með Berlín. Í borginni er frábært samgöngukerfi og borgin iðar af mannlífi. Berlín er framarlega á ýmsum sviðum eins og í deilihagkerfinu og komu deilibílar og deilihjól snemma fram í Berlín. „Maður finnur fyrir því að það er kraftur og vilji til að prófa að fara nýjar leiðir sem er gaman,“ segir Margrét Rós um andrúmsloftið í borginni.

Matthias og Margrét Rós eiga tvo syni en fjölskyldan býr …
Matthias og Margrét Rós eiga tvo syni en fjölskyldan býr í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Jafnréttið ekki eins og á Íslandi

Maður Margrétar Rósar er frá Suður-Þýskalandi en Margrét Rós segir að þar sé allt aðeins íhaldssamara.

„Þar eiga mömmurnar bara að vera heima. Þar er sjaldnar verið að setja börnin á leikskóla og þau börn sem fara á leikskóla eru frá átta til tólf. Svo þegar þau koma heim klukkan tólf er mamma búin að elda. Þýskaland er framarlega á mörgum sviðum og það er gaman að upplifa það. Það er samt mikilvægt að gleyma sér ekki í því að horfa á það sem er gott, þar sem hér er jafnrétti ekki eins og það sem við þekkjum frá Íslandi,“ segir Margrét Rós.

Staða kvenna er einmitt uppspretta að nýrri ferð hjá Berlínum sem þær ætla af stað með þegar ferðamenn byrja aftur að streyma til Berlínar eftir kórónuveirufaraldurinn. Í ferðinni tala þær um sögu kvenna og stöðu þeirra í dag.

„Þær eru ekki komnar jafnlangt og við, það er bara þannig. Það er ekki allt betra í Berlín. Það er ástæðan fyrir því að við förum út í að stofna Berlínur. Sem móðir er maður er pínulítið gjaldfelldur sem starfsmaður. Ég veit ekki hvað ég þekki margar ótrúlega flottar og hæfileikaríkar konur sem voru áður í flottum störfum en eiga ekki greiðan aðgang aftur til baka eftir að hafa stofnað fjölskyldu.

Hér hef ég meiri réttindi. Ég má vera heima í þrjú ár í fæðingarorlofi og það er algengt að fólk geri það. Það er reyndar algengara í Suður-Þýskalandi. En á móti kemur að þú ert ekki jafn mikils metin sem starfsmaður sem kona á barneignaraldri,“ segir Margrét Rós. Hún er til dæmis svokölluð hrafnsmóðir af því henni finnst ekki erfitt að senda börnin sín í leikskóla.

Berlínur á góðri stundu.
Berlínur á góðri stundu. Ljósmynd/Aðsend

Góður matur og fjölbreytt menningarlíf

Það skortir ekki hugmyndirnar þegar Margrét Rós er beðin að lýsa fullkomnum degi í lífi sínu í Berlín. Hún myndi byrja á að fara í garðinn sinn og borða þar góðan morgunmat úti undir berum himni. Hún segir þann veruleika töluvert frábrugðinn íslenskum veruleika vegna veðursældarinnar. Margrét Rós, sem hjólar mjög mikið, færi síðan hjólandi niður í miðbæ í leit að menningu, en ef eitthvað skortir ekki í Berlín þá er það fjölbreytt menningarlíf. Margrét Rós myndi helst vilja enda daginn við vatn. Í tuttugu mínútna hjólafjarlægð kemst hún á fallega hvíta strönd og er ómissandi að fá sér sundsprett.

Úr garðinum hennar Margrétar í Berlín.
Úr garðinum hennar Margrétar í Berlín. Ljósmynd/Aðsend

Eitt það skemmtilegasta sem Margrét Rós gerir í Berlín er að fara á sýningahopp.

„Það skemmtilegasta sem ég gerði fyrir covid var að fara á fimmtudögum og föstudögum á sýningahopp. Þá hitti ég einhverjar skvísur, fer í dömudrykk, borða og fer á fimm opnanir á listviðburðum.“

Þegar Margrét Rós er spurð hvar henni finnst skemmtilegast að borða í borginni nefnir hún ekki einn stað eða eina mathöll. „Mér finnst ótrúlega skemmtilega að borða mismunandi mat á mörgum mismunandi stöðum,“ segir Margrét Rós sem fer gjarnan með vinum sínum á matarrölt. Þá pantar hópurinn kannski einn til tvo rétti á hverjum stað til að deila og heldur áfram á næsta stað.

Margrét Rós, sem er mikill matarunnandi, ljóstrar því upp að hún bjóði upp á sælkeraferð með Berlínum en segir þá ferð algjöra leyniferð. Áhugasamir verða að hafa samband og hver veit nema þeir séu staddir í borginni þegar Margrét Rós ákveður að skella í leynilega smakkferð. Hún segir reyndar Berlínur mjög duglegar að benda fólki á góða veitingastaði.

Margrét Rós þekkir veitingastaði borgarinnar mjög vel og undir venjulegum kringumstæðum borðar hún úti þrisvar í viku en það hefur aðeins breyst í kórónuveirufaraldrinum. Á Íslandi gæti það talist að lifa hátt en Margrét Rós segir ekki svo dýrt að borða úti í Berlín og að fara á veitingastaði er hluti af menningunni. Hún borðar mikið úti í hádeginu og veit þá hvar hún getur fengið góð hádegistilboð. Eins er hluti af því vera góð Berlína að geta bent gestum sem koma til borgarinnar á hvar gott er að borða í þeirra stuttu dvöl í borginni. 

Margrét Rós á fyrirtækið Berlínur. Berlínur fara með Íslendinga í …
Margrét Rós á fyrirtækið Berlínur. Berlínur fara með Íslendinga í skemmtilegar ferðir um borgina. Ljósmynd/Aðsend

Berlín er skynsamlegt val

Margrét Rós hefur fulla trú á því að fólk fari að ferðast aftur. Hún verður að minnsta kosti tilbúin með skoðunarferðir með Berlínum þegar sá tími kemur aftur.

„Ég held að Íslendingar hafi meiri útþrá en margar aðrar þjóðir af því að á Íslandi er verra veður og verðlag hærra en víða annars staðar. Ég efast ekki um að þegar aðstæður leyfa muni Íslendingar flykkjast til Berlínar. Mér finnst Berlín vera skynsamlegur kostur. Ég er náttúrlega ekki hlutlaus, ég bý hérna og valdi þennan kost en þetta er tiltölulega stutt flug og hér færðu meira fyrir peningana. Það er miklu sniðugara að koma til Berlínar en að fara til Kaupmannahafnar eða London því hér er allt miklu ódýrara. Hér borgarðu kannski tvær til þrjár evrur fyrir kaffibolla og tvær evrur fyrir bjór en hvað borgar þú í Kaupmannahöfn?“

mbl.is