Ekkert opið um jólin í ár

Disneyland í París er lokað.
Disneyland í París er lokað. AFP

Disneyland í París í Frakklandi verður ekki opið yfir jólin eins og til stóð. Ástæðan er hertar aðgerðir stjórnvalda gegn kórónuveirunni.

„Við vonuðumst til að geta opnað aftur yfir hátíðirnar, en samkvæmt nýjustu tilmælum stjórnvalda getum við það ekki. Disneyland í París verður því lokað til 12. febrúar 2021,“ segir í tilkynningu frá garðinum á instagram. 

Disneyland var opnað í júlí síðastliðinn og var opið þar til í október. Fyrirhugað var að hafa garðinn opinn frá 19. desember til 3. janúar 2021 og loka þá fram í febrúar. 

Fleiri garðar á vegum Disney víðsvegar um heiminn eru lokaðir. Disneyland í Kaliforníu í Bandaríkjunum verður lokaður út árið. Hins vegar er Disney World Resort í Flórída opinn.

mbl.is