Gefa út veftímarit fyrir fólk í ferðaþjónustu

Þau Elín Esther Magnúsdóttir, Davíð Arnar Runólfsson og Kaska Paluch …
Þau Elín Esther Magnúsdóttir, Davíð Arnar Runólfsson og Kaska Paluch standa að baki We Guide. Ljósmynd/Aðsend

Nýtt veftímarit, We Guide, kemur úr í fyrsta sinn þann 18. desember næstkomandi. Tímaritið er ætlað öllum þeim sem starfa við ferðaþjónustu á Íslandi. Að blaðinu standa þrír leiðsögumenn sem misstu vinnuna í haust vegna Covid-10. 

Efnistök verða fjölbreytt, enda fjölbreyttur hópur úr mörgum starfstéttum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Fyrsta blaðið kemur sem fyrr segir út í desember verður öllum aðgengilegt, án endurgjalds, á vefnum We Guide.

„Í haust var ljóst að leiðsögumenn myndu ekki hverfa til fyrri starfa, í bráð að minnsta kosti. Við misstum öll vinnuna eins og flestir aðrir en frekar en að sitja aðgerðalaus fórum við að tala um hvernig við gætum nýtt þennan tíma og datt í hug að það væri gaman ef þessi stóri hópur sem tilheyrir ferðaþjónustunni hefði sitt eigið blað. Svona hálfgert fagtímarit,“ segir Davíð Arnar Runólfsson, einn af stofnendum We Guide.

„Það eru svo margir sem koma að þjónustu við ferðamenn, í svo margs konar störfum, að við vitum oft ekki hvað aðrir eru að gera. Sá sem er að leiðsegja í Hvalaskoðun á Húsavík tengir kannski ekki mikið við herbergisþernu í sveitahóteli á Suðurlandi, en þau eru í sama bransanum og eiga heilmargt sameiginlegt. Okkur langar að færa þau aðeins nær hvoru öðru.“

Í sama streng tekur Kaśka Paluch. „Samkvæmt Hagstofunni voru um 30.000 manns í störfum tengdum ferðaþjónustunni árið 2019. Það er gríðarlegur fjöldi, og þessi störf eru mjög fjölbreytt. En við erum öll með sama markmið - að veita ferðamönnum góða þjónustu svo þeir njóti dvalarinnar. We Guide verður vettvangur til að miðla upplýsingum, reynslu og sögum sem nýtast okkur öllum. En fyrst og fremst viljum við að blaðið verði skemmtilegt.“ Blaðið verður á ensku, enda segir Kaśka að hluti lesenda verði ekki með íslensku sem móðurmál.

„Til að ná til allra sem vinna í ferðaþjónustu verðum við að taka tillit til þess að mörg störf eru unnin af fólki sem flytur hingað frá öðrum löndum. Langflestir eru að læra íslensku, en það gengur misvel. Enska er væntanlega það tungumál sem við notum við flesta kúnnana okkar, svo okkur þótti eðlilegt að nota tungumál sem flestir skilja.“

Í blaðinu verður blanda af skemmtiefni og fræðslu. Allt frá jarðfræðigreinum yfir í „Starfsmann mánaðarins“, en einnig viðtöl, góð ráð, sagnfræði, umfjöllun um öryggismál og margt fleira.

„Við erum líka að vinna í umfjöllun um hvers ferðaþjónustan megi vænta á næsta ári. Covid-19 hefur komið illa við flesta landsmenn, en ferðaþjónustan er líklega eini bransinn sem hefur nánast þurrkast upp. Við reynum að spá í spilin og velta upp hugmyndum um næstu mánuði,“ segir Elín Esther Magnúsdóttir.

„Það má reyndar segja að útgáfa blaðsins sé að einhverju leiti táknræn, nú þegar styttist vonandi í að manngerðar lausnir dragi úr áhrifum faraldursins. Ferðaþjónustan bíður á ráslínunni og verður fljót að af stað um leið og hægt er. Það býr mikill kraftur í þeim sem að henni koma, hvort sem um er að ræða frumkvöðla með eigin fyrirtæki eða starfsfólk sem gerir sitt besta alla daga.“

Jafnframt því að undirbúa fyrsta tölublaðið, stendur ritstjórn blaðsins fyrir söfnun á Karolina Fund. Það fé sem safnast verður nýtt til vinnu við heimasíðuna og til að borga lausapennum fyrir sína vinnu. Hægt er að skoða verkefnið á Karolina Fund.

Fyrsta forsíða We Guide.
Fyrsta forsíða We Guide. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert