Svali mælir með Tenerife um jólin

Svali lætur ekki kórónuveiruna stoppa sig í að ferðast.
Svali lætur ekki kórónuveiruna stoppa sig í að ferðast.

Það er alltaf nóg að gera hjá Sigvalda Kaldalóns eða Svala. Hann er staddur á Tenerife þessa dagana en er á leið til Íslands aftur í stutt stopp áður en hann fer aftur út á þennan stað sem hann segir frábæran fyrir Íslendinga að heimsækja um jólin. Hann segir kórónuveiruna á niðurleið og ef eitthvað komi upp á þá sé læknaþjónustan fín á staðnum.

Fyrirtæki Svala, Tenerifeferðir, var stofnað árið 2018. 

„Þessa dagana erum við bara í skipulagsvinnu fyrir komandi vertíð. Við erum að bæta við þjónustuþáttum hjá okkur. Við erum að opna skrifstofu á Tenerife, semja við birgja, semja við hótel og fleira í þeim dúrnum.“ 

Svali segir fjölmarga staði áhugaverða á Tenerife. 

„Það eru fjölmargir staðir í uppáhaldi en sennilega er týnda þorpið Masca í mestu uppáhaldi. Það eru einnig fjölmargir góðir veitingastaðir hér, svo sem Meson Castellano og Gradi Piazza sem eru í mestu uppáhaldi hjá mér núna.“

Hvað viðkemur hótelum á svæðinu segir Svali La Caleta Royale Hideaway Corales suites fallegasta hótelið. 

„Það er einnig mikið af flottum búðum á Tenerife. Ég mæli með að versla helst í borginni Santa Cruz en svo er verslunarmiðstöð sem heitir The Duke Shops sem ég mæli með fyrir alla. Sem og auðvitað Siam Mall.“ 

Mælir þú með að fólk ferðist til Tenerife um jólin? 

„Já, ég geri það. Það er allt mjög afslappað hér og öll þjónusta opin fyrir fólk. Kórónuveiran er á niðurleið hér og manni finnst maður mjög öruggur á svæðinu.“

Hvað með regluverkið. Er það flókið?

„Það eru ekki flóknar reglur hér. Þú þarft að sýna fram á neikvætt PCR-covidpróf þegar þú kemur til landsins sem má ekki vera eldra en 72 tíma gamalt. Síðan þarftu að fylla út sérstakt skjal um heilsuna hjá heilbrigðiseftirliti Spánar. Þú færð slóðina sendan við bókun. Stjórnvöld hafa gefið það út að þau muni styðja fólk ef það greinist með kórónueiruna. Breytingar með litlum fyrirvara eru ólíklegar en samt getur enginn sagt neitt með fullri vissu. En það er fín læknisþjónusta hér sem skiptir máli að vita.“

Áttu þér draumaferðalag sem þú værir til í að deila með lesendum?

„Draumaferðalagið er ekki komið til mín ennþá, en ég veit að mig langar til að skoða Asíu og Afríku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert