„Þessi borg hefur algjörlega náð mér“

Stórbrotið útsýni yfir miðborg Pittsburgh fæst á sérstökum útsýnispalli í …
Stórbrotið útsýni yfir miðborg Pittsburgh fæst á sérstökum útsýnispalli í nágrenninu.

Gísli S. Brynjólfsson, forstöðumaður markaðsmála hjá flugfélaginu Icelandair, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að sér lítist gríðarlega vel á nýjasta áfangastað Icelandair, Pittsburgh í Bandaríkjunum.

„Ég hef lengi verið mikill Evrópumaður þegar kemur að ferðalögum en þessi borg hefur algjörlega náð mér. Ég sé fyrir mér að Íslendingar muni elska að heimsækja Pittsburgh. Hér er líflegur miðbær, mikið mannlíf, verðlag hóflegt og mikið um að vera í íþróttum, menningu og öðru,“ segir Gísli.

„Ég er handviss um að ég á eftir að koma hingað aftur í frí.“

Þá segir Gísli að móttökurnar sem Icelandair fékk og áhuginn sem félaginu var sýndur við komuna gefi tilefni til bjartsýni.

„Ég get ekki annað en verið bjartsýnn á að þetta komi til með að ganga vel og að við munum þróa flugleiðina áfram.“

Gísli S. Brynjólfsson.
Gísli S. Brynjólfsson.

Spurður um markaðssetninguna á borginni telur Gísli að hún verði auðveld.

„Já, ég held það. Við erum fyrst og fremst að selja Ísland og Evrópu til íbúa Pittsburgh og nágrennis og fyrir Íslendinga er áfangastaðurinn bónus. Allir sem ég hef hitt og hafa komið hingað segjast elska þessa borg.“

Mismunandi ímynd

Spurður um helstu áskoranir í markaðssetningu flugferða og Icelandair almennt segir Gísli að ein þeirra sé til dæmis að fyrirtækið sé með mismunandi ímynd eftir mörkuðum.

„Við erum með eina ímynd heima á Íslandi en allt aðra í Skandinavíu, Evrópu eða í Bandaríkjunum.“

Hann segir að almennt sé mikilvægt að halda vörumerkinu hreinu og tæru í huga fólks.

„Varan sem við erum að selja er ólík milli markaða og skilaboðin þurfa því að vera mismunandi. Sums staðar selur varan sig mjög vel sjálf. Við erum oft með vöru sem skarar fram úr og gjarnan með einu tenginguna milli Norður-Ameríku og Evrópu eða þá langbestu.“

Hver er markaðsstefna Icelandair?

„Við erum með margar markaðsstefnur ef svo má segja. Það fer eftir því hvar þú ert en við reynum að halda vörumerkinu hreinu eins og fyrr sagði. En það sem þú ert að selja og hvernig þú selur það er ólíkt milli markaða.“

Eins og Gísli útskýrir eru áfangastaðir félagsins sextán í Norður-Ameríku og yfir 30 í Evrópu.

„Þetta eru hundruð ólíkra tenginga og í sumum tilvikum er um einstaka samsetningu flugferða að ræða. Við erum stöðugt að reyna að fínstilla skilaboðin.“

Lestu ítarlegt samtal við Gísla í ViðskiptaMogganum í dag.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK