Af hverju geta áhrifavaldar ferðast til útlanda?

Áhrifavaldar geta ferðast því þeir fá borgað fyrir það.
Áhrifavaldar geta ferðast því þeir fá borgað fyrir það. Ljósmynd/Pexels/Asad Photo Maldives

Á tímum heimsfaraldurs stinga ferðaljósmyndir í stúf á samfélagsmiðlum og oft grípur um sig ákveðin afbrýðisemi út í þann sem birtir myndina. Efnamikið fólk og áhrifavaldar hafa nefnilega, þrátt fyrir miklar ferðatakmarkanir, getað ferðast um víða veröld síðastliðna mánuði.

Breska ríkisútvarpið BBC birti á dögunum grein þar sem fjallað var um hvernig áhrifavaldar og stjörnur geta ferðast óáreitt um heiminn. Aldrei hafa verið jafn strangar sóttvarnareglur í gildi á Bretlandi en þær tóku gildi 5. janúar.

Það vakti því athygli í bresku pressunni þegar raunveruleikastjarnan og fyrrverandi fegurðardrottningin Zara Holland var handtekin á Karíbahafseyjunni Barbados í lok desember og úrskurðað í máli hennar 6. janúar. Holland var dæmd fyrir að brjóta lög um sóttkví við komuna til Barbados en henni láðist að halda sig á hótelinu samkvæmt fyrirmælum. 

Í grein BBC segir að margar stjörnurnar sem eru á ferðalagi hafi komist frá Bretlandi áður en strangar takmarkanir tóku gildi og því geti þær enn ferðast. Það er þó bara ein skýringin. 

Önnur er sú að margir áhrifavaldar og stjörnur hafa farið til útlanda í vinnuferðir. Áður en reglurnar tóku gildi hinn 5. janúar voru vinnuferðir til útlanda leyfðar. 

Þá fengu áhrifavaldar og stjörnur samstarfssamninga við ferðaþjónustufyrirtæki til þess að sýna staði sem fyrirtækin eru að hefja markaðssetningu á eftir að jákvæðar fréttir af bóluefni bárust. Þetta er greinilegt í samfélagsmiðlafærslum áhrifavaldanna sem merkja skilmerkilega fyrirtækin í færslur sínar og skrifa að um samstarf sé að ræða. 

Fyrirtækið Trendy Travel er meðal áberandi fyrirtækja í slíkum færslum en það sérhæfir sig í að nota stjörnur til að auglýsa ferðir og áfangastaði. Framkvæmdastjóri Trendy Travel Keith Herman segir í viðtali við BBC að mánuðirnir desember og fram í mars séu mjög mikilvægir fyrirtækjum í ferðaþjónustu vilji þau rétta úr kútnum þegar heimsfaraldurinn verður yfirstaðinn. 

„Ferðaráðgjafar og leiðsögumenn eru allir í sama báti; við þurfum að komast í gegnum þessa erfiðu tíma, sérstaklega næstu mánuði sem er mikilvægt sölutímabil,“ sagði hann í viðtalinu.

Vel þekktar stjörnur á vegum Trendy Travel hafa til dæmis verið að birta myndir frá áfangastöðum á Maldíveyjum og Dúbai á síðustu dögum. Herman segir þó að þau hafi nú beðið áhrifavaldana að hætta að merkja fyrirtækið í færslur sínar á næstu vikum vegna aðgerða gegn kórónuveirunni í Bretlandi.

Ljósmynd/Pexels/Riccardo Bresciani
mbl.is