Rúrik opnar sig í viðtali við Sports Illustrated

Rúrik Gíslason opnaði sig um erfiða tíma hjá þýska knattspyrnuliðinu …
Rúrik Gíslason opnaði sig um erfiða tíma hjá þýska knattspyrnuliðinu Sandhausen í viðtali við tímaritið Sports Illustrated. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Rúrik Gíslason fór í einlægt viðtal hjá tímaritinu Sports Ilustrated í Þýskalandi þar sem hann opnaði sig um feril sinn og ýmsa erfiðleika sem hann upplifði í Þýskalandi þegar hann lék með knattspyrnuliðunum Nürnberg og Sandhausen.

Rúrik á glæstan knattspyrnuferil að baki, en hann skaust eftirminnilega upp á stjörnuhimininn sumarið 2018 þegar hann fór á heimsmeistaramótið í knattspyrnu með íslenska landsliðinu. Á ferli sínum spilaði hann einnig á Englandi, í Danmörku og Þýskalandi. 

Fékk ekki að fara heim í jarðarför móður sinnar

Árið 2020 lagði Rúrik fótboltaskóna á hilluna og hefur síðan þá verið að gera það gott sem fyrirsæta, leikari, söngvari, dansari og samfélagsmiðlastjarna. „Ég er heppinn að geta gert ýmislegt. Og ég er stoltur af sjálfum mér fyrir að hafa sagt já við svona mörgu,“ segir Rúrik. 

Í viðtalinu opnar Rúrik sig um erfiða tíma hjá þýska liðinu Sandhausen sem hann lék með á árunum 2018 til 2020. „Ég var ekki hrifinn af því hvernig komið var fram við mig í Sandhausen í lok ferils míns. Ég mátti ekki ferðast heim til að fara í jarðarför móður minnar,“ útskýrir hann. 

„Það var sagt í blöðunum að ég hafi komið aftur frá Íslandi í engu formi vegna þess að ég hefði ekki æft þar. Sannleikurinn er sá að ég var á Íslandi til að styðja móður mína á hennar síðustu stundum,“ bætir hann við. 

„Ég er viss um að þú myndir æfa miklu meira ef þú værir ljótur“

Rúrik segir útlitið ekki alltaf hafa unnið með sér í fótboltanum. „Ég var með nokkra þjálfara í Þýskalandi sem sýndu enga miskunn þegar kom að svona hlutum. Einn þeirra setti mig á bekkinn vegna þess að hann sagði að ég væri ekki að einbeita mér að fótbolta því ég væri að safna hári,“ segir Rúrik.

„Annar sagði: „Ég er viss um að þú myndir æfa miklu meira ef þú værir ljótur“,“ bætir hann við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert