Rúrik djammaði með ofurfyrirsætu og frægum leikara í Mexíkó

Rúrik Gíslason fagnaði afmæli sínu með ofurfyrirsætunni Alessöndru Ambrosio og …
Rúrik Gíslason fagnaði afmæli sínu með ofurfyrirsætunni Alessöndru Ambrosio og leikaranum Lucien Laviscount. Samsett mynd

Lífið virðist leika við IceGuys-stjörnuna og fyrrverandi knattspyrnumanninn Rúrik Gíslason, en hann hefur verið duglegur að ferðast um heiminn og er um þessar mundir staddur á sannkölluðu lúxushóteli í Mexíkó. 

Hótelið sem um ræðir er á Riviera Maya-svæðinu í Mexíkó og er glænýtt hótel undir hatti Edition-keðjunnar. Rúrik virðist hafa átt góðar stundir á hótelinu, en þann 25. febrúar síðastliðinn fagnaði hann afmæli sínu og opnun hótelsins með trylltu partíi þar sem hann djammaði meðal annars með ofurfyrirsætunni Alessöndru Ambrosio og Emily in Paris-leikaranum Lucien Laviscount. 

Rúrik birti skemmtilega myndaröð frá kvöldinu á Instagram-síðu sinni, en af myndum að dæma vantaði sannarlega ekki upp á stuðið. Með honum á myndunum voru stjörnur úr hinum ýmsu áttum, þar á meðal leikkonan Karrueche Tran sem skaust fyrst upp á stjörnuhimininn þegar hún byrjaði með tónlistarmanninum Chris Brown árið 2011. 

Duglegur að djamma með frægum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Rúrik djammar með stórstjörnum, en í nóvember síðastiðnum mætti hann í stjörnum prýtt hrekkjavökupartí ofurfyrirsætunnar Heidi Klum í New York-borg. 

Þar hitti hann marga fræga, þar á meðal eftirsóttustu TikTok-stjörnur heims úr hinum geysivinsæla Elevator Boys-hópi, en hann hafði kynnst strákunum á viðburði í Þýskalandi um sumarið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert