Leggja skatt á ferðamenn

Taíland tekur upp ferðamannaskatt.
Taíland tekur upp ferðamannaskatt. mbl.is

Allir erlendir farþegar sem koma til Taílands munu þurfa að borga svokallaðan ferðamannaskatt bráðlega. Ríkisstjórn Taílands tilkynnti um skattlagninguna í þessari viku og mun hún taka gildi þegar hún hefur birst í lögbirtingarblaði landsins. 

Gjaldið er 300 böht eða um 1.300 krónur á gengi dagsins í dag. Ráðgert er að þessar tekjur muni auðvelda fyrirtækjum í ferðaþjónustu róðurinn en lítill hluti teknanna mun dekka lækniskostnað erlendra ferðamanna sem hafa ekki tök á að greiða fyrir þjónustuna sjálfir. Sá peningur mun þó ekki koma í staðinn fyrir sjúkratryggingar ferðamanna. 

Skatturinn er lægri en í löndum sem hafa nýlega tekið upp skattlagningu á ferðamenn en Baja California Sur-ríkið í Mexíkó leggur 2.400 krónur á erlenda ferðamenn og ferðamannaskatturinn í Nýja-Sjálandi er um 3.150 krónur á hvern ferðamann. 

Skattlagningin hefur lengi verið í bígerð í Taílandi en árið 2019 sóttu 40 milljónir erlendra ferðamanna landið heim. Henni var hins vegar frestað vegna kórónuveirunnar en aðeins 6,5 milljónir erlendra ferðamanna komu til Taílands árið 2020. 

Eins og staðan er í dag er Taíland opið fyrir ferðamönnum en skilyrði er að fara í tveggja vikna sóttkví auk þess sem ferðamenn þurfa að fara í þrjár kórónuveiruskimanir á þessum tveimur vikum.

Travel Market Report

mbl.is