4,8 tonn af rusli bætast við á Everest á hverju ári

Mount Everest.
Mount Everest. AFP

Um 4,8 tonn af rusli eru skilin eftir á Everestfjalli á hverju ári að meðaltali. Um 600 manns freista þess að komast á toppinn á hverju vori og hver og einn skilur eftir sig að meðaltali átta kíló af rusli. 

Nepalar hafa lengi glímt við þetta vandamál en á síðasta ári var farið í aðgerðir til þess að fjarlægja ruslið. Enginn reyndi að komast á topp Everest á síðasta ári en fjallinu var lokað vegna kórónuveirunnar. Heilbrigðiskerfið í Nepal er brothætt og ekki þótti ástæða til að leggja aukaálag á það ef smit bærust með ferðamönnum til landsins. 

Á nýju safni í Sagarmatha Next Centre, ferðamannamiðstöð í grennd við grunnbúðir Everest, er nú verið að koma fyrir listmunum sem búnir hafa verið til úr rusli af Everest. 

Á meðal þess sem ferðamenn skilja eftir á fjallinu eru súrefniskútar, rifin tjöld, brotnir stigar, reipi, dósir og plastrusl. 

„Okkur langar til að sýna hvernig er hægt að umbreyta rusli í mögnuð listaverk, og skapa vinnu og peninga,“ sagði Tommy Gustafsson, meðstofnandi Sagarmatha Next Centre. „Við vonumst til þess að breyta hugarfari fólks um ruslið.“

Reuters

600 manns reyna að komast á topp Everest á hverju …
600 manns reyna að komast á topp Everest á hverju ári. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert