Svona kemstu í sólina á árangursríkan hátt

Snæfríður, sem er 47 ára, hefur undanfarin 7 ár farið …
Snæfríður, sem er 47 ára, hefur undanfarin 7 ár farið reglulega til Kanaríeyja til langdvala og er fjölskylda hennar núna stödd á Tenerife.

Fjölmiðlakonan Snæfríður Ingadóttir gefur þeim sem áhuga hafa á því að búa á Spáni eða á kanarísku eyjunum góð ráð og upplýsingar í glænýrri handbók „Spánn – Nýtt líf í nýju landi“.

„Það eru ótrúlega margir sem ganga um með þennan draum í maganum að prófa að búa í spænsku umhverfi, hvort sem er til styttri eða lengri tíma, og þessi bók styttir þeim vonandi leiðina að draumnum. Það er að ýmsu að huga þegar flytja á í nýtt land og Spánverjarnir eru nú oft ekkert að auðvelda manni leiðina,“ segir Snæfríður.

Nýja bókin hentar jafnt öryrkjum og fólki í atvinnuleit, barnafólki …
Nýja bókin hentar jafnt öryrkjum og fólki í atvinnuleit, barnafólki og ellilífeyrisþegum. Tæpt er á flestu því sem viðkemur búsetu á Spáni í bókinni.

Sjálf hefur hún reynsluna, en hún bjó með eiginmanni og þremur dætrum á Tenerife fyrir tveimur árum.

„Við lærðum heilmikið af því og þá aðallega að maður breytir ekkert Spánverjunum heldur verður maður að aðlagast. Það þýðir ekkert að mæta hingað og gagnrýna seinaganginn, síestuna og allt hitt. Eftir því sem maður er upplýstari gengur aðlögunin betur og maður er fljótari að átta sig á hlutunum. Ég hefði sannarlega verið til í að það hefði verið til svona leiðarvísir þegar við vorum að skrá okkur í bæjarfélagið, tryggja bílinn og allt hitt sem fylgir nýju lífi á nýjum stað,“ segir Snæfríður

Í bókinni, sem er fáanleg bæði á prentuðu formi og sem rafbók á síðunni www.lifiderferdalag.is, er meðal annars að finna upplýsingar um það hvernig best sé að undirbúa flutning og að hverju þarf að huga þegar kemur að því að skrá börn í skóla, finna leiguhúsnæði, hvernig haga á skattamálum, sækja um spænska kennitölu og vera með réttu sjúkratrygginguna, svo fátt eitt sé nefnt.

„Þessar upplýsingar er að finna hjá ýmsum stofnunum en hér er þeim safnað saman á einn stað. Ég var svo heppin að fjöldi fólks aðstoðaði mig við gerð bókarinnar, deildi ráðum og reynslusögum svo ég vona að útkoman, þessi 130 blaðsíðna bók, gagnist sem flestum í þessum hugleiðingum.“ 

Snæfríður nýtur lífsins á Tenerife um þessar mundir.
Snæfríður nýtur lífsins á Tenerife um þessar mundir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert