Þrýst á stjórnvöld að opna landamæri fyrr

Bangkok í Taíland.
Bangkok í Taíland. mbl.is

Stjórnvöld í Taílandi íhuga nú að opna landamæri sín að hluta til fyrir ferðamönnum í sumar. Ferðamennskan er Taílendingum mikilvæg en vegna heimsfaraldursins hefur hún hrunið. Yfirvöld skoða nú hvort möguleiki sé á að þeir sem hafi verið bólusettir sleppi við tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. 

Ferðamálaráðherra Taílands tilkynnti í dag að fimm héruð yrðu opnuð fyrir erlendum ferðamönnum, Phuket-eyja, Surat Thani-héraðið, en þar á meðal eru eyjurnar vinsælu Ko Samui, Ko Phangan og Ko Tao, Bangkok, Chiang Mai og Chonburi. 

Samkvæmt heimildum Bloomberg hefur forsætisráðherra landsins, Prayuth Chan-Ocha, óskað eftir því að bólusetningarvottorð verði skoðuð og þá væri hægt að opna landamærin enn frekar þann 1. júlí næstkomandi. 

Tæplega 40 milljónir erlendra ferðamanna heimsóttu Taíland árið 2019. Í dag þurfa allir erlendir ferðamenn að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins. 

Fyrirtæki í ferðamennsku í Taílandi hafa þrýst á stjórnvöld í landinu að opna landamærin á öruggan hátt sem fyrst. Í síðustu viku hrintu fyrirtækin af stað herferð #OpenThailandSafely eða Opnum Taíland á öruggan hátt. Eitt af markmiðum hreyfingarinnar er að opna landamærin fyrir ferðamönnum frá löndum eins og Bretlandi og Bandaríkjunum, sem hafa bólusett í miklum mæli undanfarnar vikur. 

Fleiri ríki í heiminum hafa nú þegar opnað, eða stefna á að opna, landamæri sín fyrir þeim sem hafa fengið bólusetningu. Þar á meðal eru Grikkland og Spánn. Kýpur stefnir í sömu átt en Seychelles-eyjar hafa gengið skrefinu lengra og gefið út að allir, bólusettir eða ekki, megi heimsækja eyjarnar frá 25. mars. 

Í tilviki Seychelles-eyja var sú ákvörðun tekin vegna þess að vel gengur að bólusetja í landinu og standa vonir til að hjarðónæmi verði náð þar áður en langt um líður. 

Phuket.
Phuket. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert