Láta draumana rætast á Tenerife

Anna Clara Björgvinsdóttir og Hallgrímur Garðarsson stofnuðu Allt Tenerife ásamt …
Anna Clara Björgvinsdóttir og Hallgrímur Garðarsson stofnuðu Allt Tenerife ásamt Sigríði Söru Þorsteinsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Vinirnir Anna Clara Björgvinsdóttir, Sigríður Sara Þorsteinsdóttir, eða Sirrý, og Hallgrímur Garðarsson stofnuðu nýverið fyrirtækið Allt Tenerife. Eins og nafnið gefur kannski til kynna eru þau búsett á Tenerife og hyggjast þau hjálpa fólki meðal annars við að láta drauma sína rætast og aðstoða við ýmislegt sem við kemur því að koma sér fyrir á eyjunni fögru í suðri.

Sirrý hefur búið á Tenerife í sjö ár en Anna Clara og Hallgrímur í rúm þrjú ár. Anna Clara kom fyrst til Tenerife árið 1994 þegar hún fór sem au pair til Tenerife en hún ákvað þá að einhvern tímann skyldi hún búa á eyjunni til langs tíma.

En af hverju ákváðu þau að stofna Allt Tenerife?

„Við höfum verið að fá alls kyns fyrirspurnir í gegnum tíðina frá fólki sem er í ferðahugleiðingum og langar til að dvelja áTenerife, ýmist til lengri eða skemmri tíma. Þar sem við vorum öll í mikilli vinnu náðum við lítið að sinna þessu, en nú hefur umhverfið breyst talsvert í kjölfar heimsfaraldursins og því um að gera að veita þá þjónustu sem svo augljóslega vantaði hér,“ segir Sirrý.

Sirrý hefur búið á Tenerife í sjö ár.
Sirrý hefur búið á Tenerife í sjö ár. Ljósmynd/Aðsend

Þau hafa öll komið víða við á starfsferli sínum og störfuðu öll í mismunandi geirum hér heima á Íslandi. „Enda líka var það alltaf ætlunin, að flytja hingað og breyta til. Frá okkar fyrri tíð höfum við sankað að okkur ýmsum gráðum og unnið margvísleg störf. Við erum til að mynda verkefnastjóri, Dale Carnegie-þjálfari, atvinnubílstjóri, barþjónn, fararstjóri og bankastarfsmaður svo eitthvað sé nefnt,“ segir Anna Clara.

Sirrý býr ásamt börnum sínum þremur á Tenerife. Hér eru …
Sirrý býr ásamt börnum sínum þremur á Tenerife. Hér eru þau 26. apríl fyrsta daginn sem börn máttu fara út eftir útgöngubann. Ljósmynd/Aðsend

Þjónustan sem þau bjóða er margþætt, en helstu verkefni í augnablikinu eru að hjálpa fólki að finna húsnæði til lengri eða skemmri tíma og eignaumsjónin sem þau bjóða upp á fyrir einstaklinga, fyrirtæki og verkalýðsfélög sem eiga eignir á Tenerife. Húsnæðismarkaðurinn á Tenerife er mikill frumskógur og mörgum finnst yfirþyrmandi að gera þetta á milli landa.

„En eins og nafnið gefur til kynna er ekkert verkefni of lítið eða of stórt og við gerum alltaf okkar besta til að verða við óskum okkar viðskiptavina. Við erum t.a.m. í samvinnu við löggilta fasteignasala og getum því verið fólki innan handar við fasteignakaup á Tenerife, hvort sem viðkomandi er staddur hér eða á Íslandi. Einnig höfum við hjálpað fólki við praktíska hluti eins og að koma börnunum inn í skólakerfið eða varðandi læknisþjónustu.“

Blómlegt Íslendingasamfélag hefur myndast á Tenerife undanfarin ár. „Það finna auðvitað allir fyrir því að hingað hafa varla komið ferðamenn í að verða ár. En maður finnur líka að það er ákveðin von í loftinu um að nú fari þetta allt á flug fljótlega. Annars eru eyjaskeggjar bara frekar slakir að upplagi og kunna að njóta lífsins.

Þegar Sirrý flutti til Tenerife fyrir sjö árum voru fáir …
Þegar Sirrý flutti til Tenerife fyrir sjö árum voru fáir Íslendingar. Á síðustu árum hefur Íslendingasamfélagið stækkað mikið. Ljósmynd/Aðsend

Það er líklega meðal þess sem laðar Íslendingana hingað, en hér hefur myndast frábært íslenskt samfélag á undanförnum þremur árum eða svo. Þegar ég flutti fyrir sjö árum voru þetta örfáar hræður en við erum örugglega að skipta einhverjum hundruðum núna víðs vegar um eyjuna. Við erum líka dugleg að halda hópinn hér sunnan megin, sérstaklega núna þegar fólk er ekki að vinna eins mikið og áður. Á íslenska barnum Nostalgíu eru t.d. alls konar viðburðir þar sem við hittumst og höfum gaman saman,“ segir Sirrý.

Þau segja að það sé margt sem þurfi að huga að áður en flutt er í sólina, sérstaklega ef fólk ætlar að flytja til lengri tíma og með fjölskylduna. „Ætlar fólk að vera hér allt árið, eða hluta úr ári? Ætlar það að flytja lögheimilið? Ætlar fólk að vinna? Er í boði að vera í fjarvinnu, eða á að leita að vinnu hér? Eru börn með í för? Þá þarf að skoða ýmislegt, eins og t.d. tryggingar og alls kyns skráningar,“ segja þau að lokum.

Strendur Tenerife eru fallegar.
Strendur Tenerife eru fallegar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is