Fundu ástina á Íslandi

Janne Kristensen og Wouter Van Hoeymissen hafa búið á Þingeyri …
Janne Kristensen og Wouter Van Hoeymissen hafa búið á Þingeyri síðan 2005. Skjáskot/YouTube

Hin danska Janne Kristensen og belgíski Wouter Van Hoeymissen kynntust í Reykjavík árið 2005. Janne kom til Íslands til að fara í nám en Wouter sem ferðamaður. Þau fóru að ferðast saman um landið og ekki leið á löngu þar til þau urðu ástfangin. 

Janne og Wouter sögðu sögu sína í þætti 66° Norður en þátturinn er aðgengilegur á YouTube. 

Í dag búa þau á Þingeyri en árið 2005 keyptu þau gamalt hús í mikilli niðurníðslu fyrir aðeins 2.500 krónur. Húsið á sér langa sögu en það er norskt að uppruna og var flutt til landsins árið 1915 af verslunarmanninum Sigmundi Jónssyni, eða Simba.

Þá fékk búðin nafnið Sigmundarbúð og var þar rekin verslun frá 1916 og fram á áttunda áratug síðustu aldar þegar Sigmundur og eiginkona hans Fríða fluttu til Reykjavíkur. Í gegnum árin gegndi húsið ýmiss konar tilgangi. Þar var rekin vídeóleiga, raftækjaverslun og bókabúð.

Í dag heitir húsið Simbahöllin en hjónin búa í húsinu ásamt börnum sínum tveimur og reka kaffihús og eins konar menningarmiðstöð á neðri hæðinni. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert