Fór í ferðalög með fyrrverandi kærustu

Bill og Melinda Gates eru að skilja.
Bill og Melinda Gates eru að skilja. AFP

Bill og Melinda Gates komu heiminum á óvart þegar þau greindu frá skilnaði sínum í byrjun vikunnar eftir 27 ára hjónaband. Hjónaband þeirra var ekki hefðbundið eins og erlendir fjölmiðlar eru duglegir að rifja upp. Meðal þess sem vekur athygli er að Bill Gates fór reglulega í ferðalög með fyrrverandi kærustu sinni, Ann Winblad. 

Stofnandi Microsoft og Winblad áttu í ástarsambandi á níunda áratug síðustu aldar en hættu saman árið 1987 að hluta til vegna þess að Winblad, sem er fimm árum eldri, vildi festa ráð sitt. Bill Gates bað Winblad um blessun þegar hann ákvað að biðja Melindu. 

Fjallað er um samband Bills Gates og Ann Winblad í Time frá árinu 1997. Þar kemur fram hversu gott samband þeirra sé. Þau fóru meira að segja í frí saman þrátt fyrir að ástarsambandi þeirra væri lokið. 

Parið fyrrverandi fór meðal annars í ferðalög saman áður en Bill Gates kvæntist Melindu Gates. Þau gerðu ýmislegt uppbyggilegt á ferðalögunum. Í Brasilíu kynntu þau sér lífefnaverkfræði. Í öðru fríi í Santa Barbara í Kaliforníu horfðu þau á fyrirlestra frá Cornell-háskóla um eðlisfræði. 

Bill Gates og Ann Winblad héldu áfram að fara í frí saman eftir að Gates kvæntist. Milljarðamæringurinn fékk það samþykkt hjá konu sinni að fara í helgarfrí með fyrrverandi kærustu sinni á vorin. Þau dvöldu þá í sumarbústað Winblad í Norður-Karólínuríki og fóru í langa göngutúra á ströndinni.

Bill Gates.
Bill Gates. AFP
mbl.is