Bólusett í kastala Drakúla

Bólusetningarstöð hefur verið komið upp í kastala Drakúla.
Bólusetningarstöð hefur verið komið upp í kastala Drakúla. AFP

Þeir sem heimsækja kastala Drakúla í Rúmeníu geta nú fengið tvo fyrir einn; bóluefni frá Pfizer og skoðunarferð um kastalann. Bólusetningarstöð hefur verið sett upp í kastalanum í tilraun til að hvetja landsmenn til að fara í bólusetningu. 

Kastalinn, Bran-kastali, var byggður á 14. öld og er sagður vera kastalinn sem veitti rithöfundinum Bram Stoker innblástur fyrir vampírubókina Drakúla.

Yfir milljón smit hafa greinst í Rúmeníu í faraldrinum og 29 þúsund dauðsföll hafa verið skráð. Stjórnvöld stefna að því að vera búin að bólusetja 10 milljónir manns fyrir september en helmingur landsmanna segist ekki hafa áhuga á bólusetningu samkvæmt könnun Globesec. 

Bran kastali er frá 14. öld.
Bran kastali er frá 14. öld. Ljósmynd/Unsplash/Jorge Fernández Salas

Einstök staðsetning bólusetningarstöðvarinnar í Bran-kastala er því tilraun til að hvetja fólk til að þiggja bólusetningu. Hver sem er getur mætt í kastalann allar helgar í maí án þess að bóka sér tíma, fengið bólusetningu og fría ferð um kastalann. 

„Hugmyndin var að sýna fólki hvernig fólk var bólusett fyrir 500 til 600 árum í Evrópu,“ segir Alexandru Priscu í viðtali við fréttastofu Reuters. 

Tilgangur bólusetningarstöðvarinnar í kastalanum er ekki bara tilraun til að fá fleiri til að þiggja bóluefni heldur einnig tilraun til að fá fólk til að ferðast meira innanlands.

BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka