Ganga 154 kílómetra til heiðurs Iðunni

Inga Geirsdóttir hóf gönguna á fimmtudaginn.
Inga Geirsdóttir hóf gönguna á fimmtudaginn.

Inga Geirsdóttir, meðeigandi Skotgöngu, í Skotlandi lagði af stað í 154 kílómetra göngu á fimmtudaginn ásamt eiginmanni og dóttur. Fjölskyldan gengur í minningu systur Ingu, Iðunnar Geirsdóttur, sem lést úr brjóstakrabbameini fyrir þremur árum. Með ferðinni safna þau áheitum til styrktar Göngum saman

„Fyrir þremur árum lést yngsta systir mín, Iðunn Geirsdóttir, úr brjóstakrabbameini, aðeins 47 ára, eftir margra ára baráttu. Okkur fjölskylduna hjá Skotgöngu langar því að leggja okkar af mörkum með því að safna fé til styrktar Göngum saman,“ segir Inga. Iðunn hefði orðið fimmtug í ár og til merkis um það ætlar fjölskyldan að fara með 50 steina sem þau eru búin að mála og skilja eftir á leiðinni.

Heilsuefling í aðalhlutverki

Inga segir að Göngum saman hafi verið Iðunni mjög kært. Iðunn skipulagði göngur á Austurlandi og lagði félaginu lið á ýmsan hátt. Félagið er styrktarfélag sem hefur það að markmiði að styrkja grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. „Félagið leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar bæði til heilsueflingar og til að afla fjár í styrktarsjóð félagsins. Við ætlum því í samræmi við áherslur Göngum saman að hreyfa okkur og safna um leið fé fyrir félagið í rannsóknarsjóðinn. Brjóstakrabbamein er algengt í minni ætt og eins er þetta algengasta krabbamein hjá íslenskum konum og þetta hefur áhrif á svo margar fjölskyldur og því er þetta þarft verkefni að styðja við rannsóknir á brjóstakrabbameini.

Iðunn var veik lengi en Inga segir að veikindin hafi gert fjölskylduna nánari. „Það er alltaf sárt að missa nákominn ættingja en Iðunn var búin að vera veik í mörg ár og við vissum hvert stefndi. Að fá þennan aðdraganda gerði það kannski að verkum að við urðum enn nánari. Fyrir mér er mikilvægt að tala um Iðunni og við fjölskyldan höfum öll tileinkað okkur það. Þannig höldum við minningu hennar á lofti og það hjálpar í sorginni að rifja upp sögur af þeim látna. Margir eru hræddir við að nefna látinn ástvin á nafn við syrgjendur af ótta við að vekja erfiðar tilfinningar en þetta er einmitt öfugt, við viljum tala um þau sem eru farin. Þannig lifa þau áfram með okkur.“

Fallegir og glaðlegir steinar sem Inga og fjölskylda ætla að …
Fallegir og glaðlegir steinar sem Inga og fjölskylda ætla að skilja eftir á gönguleiðinni. Ljósmynd/Aðsend

Ein vinsælasta gönguleið Skotlands

Inga býr í Skotlandi og hefur farið með marga ferðamenn í göngur um skosku hálöndin undir nafninu Skotganga. Hún segir að leiðin sem þau ætla að ganga sé ein vinsælasta gönguleið Skotlands.

„West Highland Way er ein vinsælasta gönguleið Skotlands sem liggur milli Milngavie í útjaðri Glasgow og Fort William, sem er höfuðstaður útivistar í hálöndum Skotlands. Við höfum gengið þessa leið margoft með hundruðum manna í okkar starfi. Með hópum höfum við gengið leiðina á sjö dögum, en í ár ætlum við til heiðurs Iðunni að ganga þessa leið á fjórum dögum.

Þau ætla að gera meira en að ganga þessa vinsælu gönguleið þar sem þau ætla að dreifa 50 steinum á leiðinni en Iðunn hefði orðið fimmtug í haust hefði hún lifað. „Við hlökkum mikið til að leggja af stað og síðustu vikur höfum við verið að dunda við að mála 50 steina sem við ætlum að dreifa á leiðinni. Steinarnir eru fallegir, bjartir og gleðjandi eins og Iðunn var.“

Gönguleiðin í Skotlandi.
Gönguleiðin í Skotlandi. Ljósmynd/Aðsend

Verður ekki erfitt að burðast með 50 steina?

„Það góða við West Highland Way er að hægt er að bóka farangursflutning svo aðeins þarf að ganga með það helsta í bakpokanum yfir daginn. Við munum því bera fjóra til fimm steina hvort hvern göngudag.

Þau hjá fyrirtækinu AMS sem býður upp á trússið voru svo falleg að gefa okkur frían töskuflutning þrátt fyrir að hafa verið með takmarkaðar tekjur í 15 mánuði vegna COVID. En þetta lýsir Skotum vel og hafa sumir gististaðir einnig viljað leggja okkur lið og gefið okkur afslátt á þessum dögum og við munum því sjálf leggja þá upphæð sem safnast saman þar inn á söfnunarreikninginn hjá Göngum saman.

Við munum síðan dreifa steinunum með reglulegu millibili upp West Highland Way fyrir árin 50 sem vonandi munu gleðja augu þeirra 85 þúsund manns sem ganga leiðina árlega.“

Hægt er að styrkja Göngum saman á vef samtakanna eða með því að leggja inn á samtökin. Einnig er hægt að fylgjast með Ingu og fjölskyldu á Facebook-síðu Skotgöngu og Facebook-síðu Göngum saman

Hægt er að styrkja Göngum saman með áheitum.
Hægt er að styrkja Göngum saman með áheitum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert