Bongóblíða á Hornströndum – en fullt af plasti

Seiglurnar voru fyrir vestan.
Seiglurnar voru fyrir vestan.

„Við sigldum seglum þöndum aftur út á Ísafjarðardjúp. Fáninn blakti – á þjóðhátíðardaginn. Djúpið var stillt og fagurt og við sáum hnúfubak stökkva í fjarska. Stefnan var tekin á Grænuhlíð. Þessi fagra hlíð hefur reynst ófáum sæfarendum griðastaður í Djúpinu, sama Djúpi og skartaði nú sínu fegursta. Við liðuðumst áfram í blíðunni og höfrungar nálguðust okkur og fjarlægðust aftur. Áfangastaður okkar þennan dag var Aðalvík og þar settum við niður akkeri, borðuðum kvöldmat og létum blíðskaparveðrið vagga okkur í svefn,“ skrifa Seigl­urn­ar, hóp­ur kvenna sem sigl­ir um­hverf­is Ísland á seglskútu. 

„18. júní vakti okkur bjartur og fagur. Þvílík dýrð! Veðurfræðingurinn í ferðinni, Elín Björk Jónasdóttir, tók veður, fullyrðingum samferðakvennanna til staðfestingar: „Bongó í Aðalvík.“ Í framhaldinu var ekki um annað að ræða en að stinga sér í sjóinn. Sjósund, standbretti, sápukúlur og vatnslitamálun. Í Aðalvík var í nógu að snúast þennan fallega morgun.

Upp úr hádegi var akkerið tekið upp og haldið áfram norður á bóginn. Þá var ráð að kasta út nokkrum önglum og athuga hvort við fengjum fisk í kvöldmatinn. Og það leið ekki á löngu þar til tveir vænir þorskar bitu á hjá systrunum um borð, Höllu og Melkorku. Sigga skipstjóri mundaði hnífinn og bræðurnir gulu voru á augabragði blóðgaðir fyrir kvöldmatinn, dýrindisfiskisúpu að hætti Bryndísar og Helenu. Súpan mallaði á meðan við dóluðum okkur fram hjá Hælavíkurbjargi innan um sjófuglana. Í rennisléttri Hornvík fundum við okkur næturstað með draumkenndar hamraborgir fyrir augum.

Mikið drasl fannst við Hornstrandir.
Mikið drasl fannst við Hornstrandir.

Undiralda og snjókoma stríddu okkur í Hornvík. Nóttin varð þó ekki löng þar sem við áttum stefnumót við Landhelgisgæsluna og sjálfboðaliða Hreinni Hornstranda að morgni 19. júní í Hlöðuvík. Sjö Seiglur voru sóttar af Landhelgisgæslunni og fluttar í land til að taka þátt í árlegri ruslahreinsun Hreinni Hornstranda í friðlandinu. Félagið hreinsaði fjörurnar í Hlöðuvík nú í annað sinn, en Hlöðuvík var fyrsti staðurinn sem félagið réðst í að hreinsa, árið 2014. Alls hafa um fjörutíu tonn af rusli verið flutt úr friðlandinu á þennan hátt og leikur Landhelgisgæslan lykilhlutverk í að koma ruslinu burt. Þrátt fyrir að Hlöðuvík hafi verið hreinsuð áður var af nógu að taka, mest plasti og drasli sem tengist útgerð, líka þó nokkuð af ýmiss konar burstum, ílátum, stígvélum og öðrum skóbúnaði. Félagið og gæslan eiga hrós skilið fyrir seigluna í þessu verkefni. Síðdegis, eftir að hafa flutt fleiri tonn af rusli út í varðskipið Tý, flutti gæslan lúnar Seiglur aftur um borð í Esju. Akkerið var tekið upp og stefnan tekin norður fyrir Horn.

Enn á ný fengum við dýrðarveður. Við sigldum undir stórbrotnu Hælavíkurbjargi og Hornbjargi í meiri háttar veðri. Upplifun sem stimplar sig rækilega inn í minningabankann. Með trega eftir ógleymanlega daga á Vestfjörðum tókum við stefnuna út á hafið og inn í sumarnóttina. Stefnan var tekin á Tröllaskaga.“

mbl.is