„Einhleypir eiga það reyndar til að fara tvíhleypir frá Siglufirði“

Gunnsteinn Ólafsson tónskáld, kór-og hljómsveitarstjóri stofnaði Þjóðlagahátíðina á Siglufirði árið …
Gunnsteinn Ólafsson tónskáld, kór-og hljómsveitarstjóri stofnaði Þjóðlagahátíðina á Siglufirði árið 2000.

Gunnsteinn Ólafsson tónskáld, kór- og hljómsveitarstjóri stofnaði Þjóðlagahátíðina á Siglufirði árið 2000 og kom á fót Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar árið 2006 í samvinnu við heimamenn. Um þessar mundir er hann að undirbúa 21. þjóðlagahátíðina á Siglufirði. 

„Þessi alþjóðlega tónlistarhátíð stendur yfir í fimm daga frá 7. til 11. júlí. Við leggjum áherslu á að fá listamenn sem víðast að úr veröldinni og í ár verða tónlistarmenn meðal annars frá Brasilíu, Gíneu, Þýskalandi, Englandi, Ítalíu og Noregi. En íslensk þjóðlög og ný íslensk tónlist hljóma vitanlega líka á 18 tónleikum hátíðarinnar.“

Ertu búinn að vera lengi á Siglufirði?

„Fjöllin á Siglufirði tóku á móti mér þegar ég skreið í þennan heim en ég ólst upp í Kópavogi. Fyrstu 12 árin dvaldi ég hjá ömmu minni í litlu húsi við Hvanneyrarbraut á Siglufirði á sumrin og bast staðnum sterkum böndum. Þegar ég svo komst til vits og ára leitaði hugurinn aftur norður og þá hófst ævintýrið sem skóp Þjóðlagahátíðina og Þjóðlagasetrið.“

Hvað er mest sjarmerandi við Siglufjörð?

„Siglufjörður er draumaveröld þeirra sem ólust þar upp og ferðamenn hrífast af stórbrotnum fjallahringnum, öllum veitingastöðunum, söfnunum og lifandi mannlífinu. Siglufjörður er á vissan hátt dvergvaxin stórborg norður við heimsskautsbaug. Lognið á kvöldin er líka einstakt. Gestir þjóðlagahátíðar eiga ekki nógu stór orð til að lýsa því.“

Hvað er best að borða á Siglufirði?

„Belgísku vöfflurnar á súkkulaðikaffihúsinu Frídu eru ómótstæðilegar. Svo þykir mér gott að gæða mér á „fishandchips“ í sólinni fyrir utan Fiskbúð Fjallabyggðar eða fara í veislu á Torginu þar sem girnilegt hádegishlaðborð svignar undan krásum. Best varðveitta leyndarmál Siglufjarðar er reyndar marokkóski kokkurinn á Gistiheimilinu Siglunesi. Hann hefur sigrað bragðlauka landsmanna með framandi og dásamlegum mat sínum.“

Hvar ætti fólk að gista?

„Í Fjallabyggð eru ágæt hótel og gistihús og margir leigja sér íbúðir meðan þeir dvelja á svæðinu. Á Siglufirði eru tvö tjaldsvæði, annað í miðbænum en hitt rétt sunnan við byggðina. Þaðan er stutt að ganga inn í skógrækt þar sem frábær aðstaða býður fólks sem vill grilla, njóta hvíldar eða hlusta á kvikan þrastasöng.“

Hvernig á maður að klæðast á þessari hátíð?

„Á Siglufirði koma menn alltaf til dyranna eins og þeir eru klæddir og gestum okkar er óhætt að fylgja þeirri reglu. Annars væri gaman að sjá einhvern með Nönnuhúfu sem elsti Siglfirðingurinn, Nanna Franklín, prjónaði fyrr á árum og öll börn á Siglufirði skörtuðu.“

Sækja Íslendingar aðallega hátíðina eða einnig útlendingar?

„Við mörlandar verðum að öllum líkindum í miklum meirihluta á hátíðinni en erlendum gestum hefur reyndar fjölgað mjög undanfarin ár. Það er alltaf slangur af erlendum ferðamönnum í bænum meðan hátíðin stendur yfir og þeir stinga inn nefinu á tónleikastöðum eins og spurningamerki í framan; botna ekki í því að hér skuli vera alþjóðleg tónlistarhátíð úti við ysta haf.“

Hvaða tónlistarfólk hlakkar þú mest til að hlusta á? 

„ Við erum óvenju heppin með listamenn í ár svo það stefnir í samfellda tónlistarveislu. Við eigum von á heimsfrægri slagverkssveit frá Noregi sem nefnist SISU ásamt þjóðlagasöngkonunni Öyonn Groven Myhren. Mér segir svo hugur að þau eigi eftir að slá í gegn. Ég er einnig spenntur fyrir að heyra Ragnheiði Gröndal flytja eigin tónsmíðar og hlusta á nýtt verk eftir Halldór Eldjárn sem Sinfóníuhljómsveit unga fólksins frumflytur.“

Norska slagverkstríóið SISU lemur húðir sínar á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.
Norska slagverkstríóið SISU lemur húðir sínar á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði.

Er hátíðin fyrir ungt fólk, einhleypa eða fjölskyldufólk?

„Við teljum að hátíðin sé bæði fyrir börn og fullorðna. Börn fá ókeypis aðgang að öllum tónleikum og námskeiðum og námskeið fyrir fullorðna eru líka ókeypis, svo sem í afró, ukulele-leik og námskeiði í þjóðlagaútsetningum með Röggu Gröndal. Þetta er því rakin fjölskylduhátíð. Einhleypir eiga það reyndar til að fara tvíhleypir frá Siglufirði að lokinni Þjóðlagahátíð svo rómantík síldaráranna lifir hér enn góðu lífi.“

Hvar er best að fara í sund eða gera eitthvað skemmtilegt í vatni á Siglufirði?

„Sundlaugarnar í Fjallabyggð eru alltaf opnar, sundhöllin á Siglufirði og útilaugin á Ólafsfirði. Þeir sem eiga kajak geta veitt sér þorsk í soðið í firðinum og öllum er frjálst að renna fyrir silungi í Fjarðaránni eða Hólsánni eins og hún er líka kölluð. Sjálfum finnst mér skemmtilegast að dýfa tánum í ár og læki á göngu í „siglfirsku ölpunum“.“

Hvernig geta lesendur fræðst nánar um Þjóðlagahátíðina og Þjóðlagasetrið á Siglufirði?

„Við bendum á heimasíðu Þjóðlagahátíðarinnar, Siglofestival, og þar er einnig hægt að fræðast um Þjóðlagasetrið. Það er í elsta húsi Siglufjarðar, Maðdömuhúsi, og í því safnaði sr. Bjarni Þorsteinsson íslensku þjóðlögunum í lok 19. aldar. Skemmtilegast er að taka börnin með sér í setrið, því við sýnum lifandi efni af fólki á öllum aldri syngja og kveða, leika á gömul hljóðfæri og dansa þjóðdansa. Siglufjörður er heimabær íslenska þjóðlagsins og þangað er alltaf ljúft að koma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert