Straumarnir nýttir til að slá hraðamet

Seiglurnar halda siglingunni áfram.
Seiglurnar halda siglingunni áfram.

„Á meðan Bakkagerði á Borgarfirði eystri var enn í fastasvefni læddust nokkrar árrisular Seiglur upp á dekk, losuðu landfestar og gerðu sitt besta til að raska ekki svefni þeirra sem enn sváfu í þorpinu. Fjörðurinn var spegilsléttur þar til Esjan bjagaði spegilmyndir fjallahringsins með stefni sínu. Við héldum til suðausturs sem leið lá til Eskifjarðar,“ skrifa Seigl­urn­ar, hóp­ur kvenna sem siglir um­hverf­is Ísland á seglskútu, í nýj­um pistli.

„Við sigldum nær landi en við höfðum áður gert á þessum legg. Við fylgdumst með Víkunum fljóta hjá með sínum bröttu og fallegu hlíðum  og settum út framseglið. Það var bjart yfir Glettingsvita þegar hann heilsaði okkur uppljómaður af sólargeislum, sem skutu sér öðru hverju fram undan skýjunum,  og svo kvöddum við Austurland að Glettingi.

Blábjörg, tignarleg stuðlaberg, blöstu við okkur á milli Breiðuvíkur og Húsavíkur en þau er aðeins hægt að skoða frá sjó. Við gægðumst inn í Loðmundarfjörð og Seyðisfjörð áður en við brunuðum fram hjá Dalatanga. Um það leyti sem við fórum framhjá Norðfirði sáum við glitta í eitthvað sérkennilegt í sjónum. Eitthvað sem flaut í yfirborðinu. Það tók langan tíma, á fullri ferð, að átta okkur á því hvað í ósköpunum þetta væri. Þegar við vorum komnar nánast upp að þessu floti, og of seint til að munda myndavélarnar, sáum við að þetta var gífurlega stór þorskhaus með gapandi kjaft og sá sem bar ábyrgð á þorsknum þarna í yfirborðinu, og vafði um hann hreifum sínum, var selur. Ótrúleg sýn í þessar sekúndur sem hún varði. Í óðagoti, þar sem við vorum búnar að taka niður seglin, reyndum við að snúa Esjunni við til að skoða þetta betur en selurinn kærði ekki um áhorfendur á matmálstíma og lét sig hverfa með bráðina.

Þegar við nálguðumst Eskifjörð gátum við sett út framseglið á ný. Smám saman jókst hraðinn. Þegar við fengum með okkur bæði Austur-Íslandsstrauminn og strandstrauminn náðum við tíu hnúta hraða og fimlega sigldi Esjan áfram á mesta hraða sem við höfum náð í ferðinni.

Í þetta sinn hittum við á réttan fjörð og álpuðumst ekki á annað ball. Eftir því sem nær dró Eskifirði lygndi og það hlýnaði í lofti. Hópur fólks á kajökum og standbrettum nálgaðist frá bænum. Þvílíkar móttökur. Þar voru Helena leiðangursstjóri og Obba, Seigla næsta leggjar, í broddi fylkingar og fylgdu okkur aðeins áleiðis síðasta spölinn.

Eftir skrúbb og tiltekt og ábót á vatn og olíu kvöddum við, enn á ný, kærar konur eftir frábæra daga frá Húsavík til Eskifjarðar. En þær sem eftir urðu fengu að skella sér í pottinn á Mjóeyri við Eskifjörð og röltu svo um þennan fallega bæ á mildu sumarkvöldi.

Aldrei þessu vant beið kvenna ekki stíf dagskrá á Eskifirði – ekki nema Siggu. Morgunninn hófst á saumaskap Siggu og Bryndísar, til að bæta framseglið, og svo beið Siggu hópur karla tilbúinn til að taka skemmtibátapróf. Sumir í hópnum höfðu jafnvel beðið í tvö ár eftir að fá að taka verklega hlutann og því var tilvalið að drífa drengina út á sjó á Esjunni og venda svolítið og kúvenda. Það varð því einnig kúvending á kynjaskiptingu um borð þegar skyndilega fimm karlar tóku í spotta og sveifar undir dyggri stjórn Siggu skipstjóra. Þrátt fyrir aðdáun karlanna á fleyinu skilaði það sér aftur til bryggju og fram fór óformleg útskrift á dekki. Þá fóru aðrar Seiglur að sniglast aftur um borð eftir jafnvel fyrstu einverustundirnar í tvær vikur. Sameinaðar sex tókum við svo á móti nýjum hópi hörkukvenna til að leggja af stað inn í nóttina  á Djúpavog.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert