Á slóðum hvala og Hollywood-stjarna

Sjóböðin á Húsavík hafa mikið aðdráttarafl.
Sjóböðin á Húsavík hafa mikið aðdráttarafl. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson

Ferðamannasumarið hefur farið vel af stað á Húsavík og segir Eva Björk Káradóttir að straumur gesta til bæjarins undanfarnar vikur hafi verið meiri en heimamenn þorðu að vona. Eva er framkvæmdastjóri Hvalasafnsins á Húsavík og einnig formaður stjórnar Húsavíkurstofu og segir hún að bærinn hafi svo sannarlega notið góðs af þeim sýnileika sem hann fékk í Netflix- gamanmynd Wills Ferrell um seinheppna Eurovision-keppendur frá Húsavík.

„Við greinum það sérstaklega hjá Bandaríkjamönnunum sem koma hingað að þeir hafa flestir séð myndina og leita gagngert að stöðum þar sem eftirminnileg atriði voru kvikmynduð,“ útskýrir Eva og bætir við að fyrir aðdáendur kvikmyndarinnar sé búið að skipuleggja sérstaka gönguferð um Húsavík með viðkomu á mikilvægum stöðum úr myndinni. „Þá er búið að endurbyggja litla álfabæinn sem leikur stórt hluverk í söguþræðinum og hafa erlendu gestirnir gaman af að koma þar við til að færa álfunum smágjafir.“

Stendur meira að segja til að endurbyggja strætóbiðskýlið þar sem söguhetjur Rachelar McAdams og Wills Ferrell leggja af stað í örlagaríkt ferðalag til Reykjavíkur. „Við tökurnar var einfaldlega fengið að láni skýli frá nálægum fótboltavelli, en með því að endursmíða rútubiðskýlið eins og það birtist í kvikmyndinni ættu ferðamenn að hafa skemmtilegt kennileiti til að ljósmynda.“

Eva Björk Káradóttir.
Eva Björk Káradóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hitta hvali í sýndarveruleika

Flestir sem heimsækja Húsavík leggja leið sína í Hvalasafnið en safnið hefur verið starfrækt í nærri aldarfjórðung. Eva brýnir fyrir íslenskum ferðalöngum að sleppa ekki safninu þótt þeir haldi kannski sumir að þeir viti allt sem hægt er að vita um hvali: „Fólk verður mjög hissa þegar það kemur á safnið og upplifir allt sem þar er að sjá, og fræðist um hvalina sem lifa í hafinu umhverfis Ísland. Safnkosturinn er mjög fjölbreyttur og skartar m.a. ellefu beinagrindum af hvölum og þremur heimildarmyndum um hvali.“

Sýningarrýmin eru átta talsins og eru hvölum, hvalveiðum, lífríki sjávar og þjóðsögum tengdum hvölunum gerð skil með fjölbreyttum hætti. „Nýjasta upplifunin í safninu fer fram í sýndarveruleika og þar gefst gestum kostur á að kafa ofan í hafið til fundar við fimm hvalategundir. Mesta aðdráttaraflið hefur þó, nú sem endranær, steypireyðurin en beinagrindin af henni er 23 metra löng og margir sem standa á gati þegar þeir mæta þessu stærsta dýri sem lifað hefur á jörðinni.“

Þá er vitaskuld ómissandi að fara í hvalaskoðunarferð en nokkur hvalaskoðunarfyrirtæki gera út frá Húsavík og halda oft á dag til fundar við hvalina úti á Skjálfandaflóa. Eva segir flóann henta einstaklega vel til hvalaskoðunar vegna þess mikla fjölbreytileika tegunda sem þar ber fyrir augu. Skjálfandafljót ber með sér næringarefni út í flóann svo að þar á sér stað mikil fæðumyndun sem hvalirnir sækja í og ekki óalgengt að í hvalaskoðunarferð megi sjá allt að fimm ólíkar tegundir hvala ef heppnin er með.

Af fjórum hvalaskoðunarfyrirtækjum eru þrjú komin aftur á fulla ferð og segir Eva að þau bjóði upp á svipað verð en ólíka upplifun. „Valið veltur á því hvort fólk langar t.d. að skoða flóann á gamaldags eikarbát, á seglskipi, rafmagnsknúnum bát eða hraðskreiðum slöngubát.“

Flestir sem heimsækja Húsavík leggja leið sína í Hvalasafnið.
Flestir sem heimsækja Húsavík leggja leið sína í Hvalasafnið. Ljósmynd/Aðsend

Geta séð hvali úr sjóböðunum

Á undanförnum árum hefur mikil uppbygging átt sér stað í ferðaþjónustunni í Norðurþingi og segir Eva að svæðið skarti einstakri náttúrufegurð og góðum gönguleiðum. Af vinsælli áfangastöðum má nefna Þeistareyki og Ásbyrgi og árið 2018 voru opnuð Geosea-sjóböðin á Húsavíkurhöfða. „Þar er notast við jarðhitavatn sem tekið er úr borholu undir sjó og er vatnið því salt og mjög gott fyrir húðina. Gestir hafa útsýni yfir flóann og stundum má sjá hvali beint úr böðunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »