Ævintýri í uppsveitum Árnessýslu

Hægt er að koma við hjá Geysi á leið um …
Hægt er að koma við hjá Geysi á leið um Árnessýslu. mbl.is/Árni Sæberg

Nú þegar farið er að sjá fyrir endann á sumrinu er tilvalið að skella sér í dagsferð frá höfuðborgarsvæðinu í smávegis sveitaferð. Uppsveitir Árnessýslu hafa upp á margt að bjóða, þar er hægt að kaupa sér dýrindis mat, ganga fallegar gönguleiðir, fara í sund og í raun allt það sem hugurinn girnist. 

Náttúran á þessum tíma árs er líka guðdómlega falleg og græni liturinn alveg í botni hvar sem komið er við.

Uppsveitir Árnessýslu eru svæðið frá Þingvöllum að Þjórsá og í því eru fjögur sveitarfélög. Fullkomið er að fara í dagsferð frá höfuðborgarsvæðinu en einnig er hægt að skella tjaldinu með og tjalda til einnar nætur, til dæmis á Flúðum eða í Brautarholti. 

Friðheimar

Friðheimar eru hinn fullkomni áfangastaður fyrir alla fjölskylduna. Auðvelt er að skipuleggja daginn út frá heimsókn þar, hvort sem þið stoppið þar bara til að skoða eða til að snæða hádegisverð. Gott er að panta borð fyrir fram á netinu, enda geysivinsæll staður.

Friðheimar bjóða upp á góðan mat.
Friðheimar bjóða upp á góðan mat. Ljósmynd/Guðný Hilmarsdóttir

Sund

Íslendingar elska sund og í dagsferð um uppsveitir Árnessýslu verður enginn sundlaugaraðdáandi svikinn. Gamla laugin á Flúðum, Hraunborgir, Neslaug Árnesi, Reykholtslaug, Skeiðalaug í Brautarholti, Sundlaugin Flúðum eða Laugarvatn Fontana fyrir þá sem vilja gera vel við sig.

Gamla laugin á Flúðum.
Gamla laugin á Flúðum. Ljósmynd/Facebook

Slakki

Skemmtilegt er fyrir alla fjölskylduna að koma við í húsdýragarðinum í Slakka. Slakki er í Laugarási í Biskupstungum og þar er hægt að hitta hvolpa, kettlinga, kanínur, svín, refi, endur og fleiri skemmtileg dýr.

Efsti-Dalur 2

Í Efsta-Dal er fullkomið fyrir fjölskylduna að stoppa, fylgjast með kúnum og bústörfunum á bænum. Þar er líka hægt að stoppa í kaffi, kaupa heimatilbúinn ís og á efri hæðinni er veitingastaður.

Fótboltagolf

Það góða við svæðið er að þú getur sniðið ferðina algjörlega að þínum þörfum. Ef fjölskyldan er í stuði til þess að stoppa og hreyfa sig og hafa gaman er til dæmis fullkomið að stoppa í fótboltagolfi á Flúðum

Kálfi gefið að drekka í dýragarðinum í Slakka.
Kálfi gefið að drekka í dýragarðinum í Slakka. mbl.is/Björn Jóhann Björnson
mbl.is