Ferðast með inniskó um allan heim

Henry Golding ferðast alltaf með inniskó.
Henry Golding ferðast alltaf með inniskó. Skjáskot/Instagram

Hollywoodleikarinn Henry Golding tekur inniskó með í öll ferðalög. Ástæðan er sú að honum þykir gólf hótela og flugvéla heldur ógeðsleg og kýs því frekar að ganga um í inniskóm en berfættur. 

Golding er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í kvikmyndinni Crazy Rich Asians auk fjölda ferðaþátta á vegum BBC.

„Ég pakka alltaf virkilega ódýrum inniskóm. Þeir taka ekkert pláss, svo maður getur stungið þeim hvar sem er. Ég var að taka ferðaþætti í Malasíu og gólfin á hótelunum voru ekki heillandi. Teppin í flestum byggingum eru bara ógeðsleg og drulluskítug,“ sagði Golding í viðtali við Bloomberg

„Ég er alltaf í inniskónum, alls staðar, jafnvel í sturtunni. Ég tek annaðhvort ódýru inniskóna sem maður fær á fimm stjörnu hótelum eða Havaianas eða Chacos. Treystið mér, þið viljið ekki vita hvað er á þessum gólfum,“ sagði Golding.

mbl.is