Keyptu skíðaskála drauma sinna í Ólafsfirði

Sólveig Sveinbjörnsdóttir er fjallaleiðsögumaður.
Sólveig Sveinbjörnsdóttir er fjallaleiðsögumaður.

Ævintýramanneskja og fjallaleiðsögumaður eru bara tveir af mörgum titlum sem Sólveig Sveinbjörnsdóttir ber. Sólveig er fædd og uppalin á Höfn í Hornafirði þar sem hún býr í dag og vinnur við fjallamennsku. Hún segist ekki hafa áttað sig á því að það væri hægt að starfa við útivist þegar hún var að alast upp. 

„Ég starfa sem verkefnastjóri fjallamennskunáms FAS, sjúkraflutningamaður í hlutastarfi, fjallaleiðsögumaður og fyrirtækjaeigandi. Það er smá þannig að þegar maður býr úti á landi er maður oft með marga hatta. Vinir mínir myndu örugglega segja að ég væri líka áhrifavaldur og hlaðvarpsþáttastjórnandi, þó svo ég líti ekkert endilega á það sem einhvern starftitil. Ég myndi allavega segja að ég sé „dúer“ og framkvæmi oftast það sem mér dettur í hug, sem getur líklega verið bæði gott og slæmt,“ segir Sólveig. 

Sólveig fann fyrir því að hún gat ekki gert allt sem hana langaði til þegar hún var að alast upp á Höfn. „Þegar maður býr á litlum stað er framboð ekki endilega jafn mikið og á stærri stöðum. Það var ekki margt í boði hér á svæðinu sem tengdist útivist, ég stundaði hefðbundnar íþróttir framan af, í raun bara allt sem var í boði. En ég man mér fannst mjög ósanngjarnt að ég gæti ekki stundað skíði, þrátt fyrir að búa örugglega á einu snjóléttasta svæði landsins,“ segir Sólveig.

Útivist hefur alltaf heillað Sólveigu.
Útivist hefur alltaf heillað Sólveigu.

„Þegar ég fór að eldast áttaði ég mig meira og meira á því að ég vildi vera úti og langaði að búa til meira tíma til að vera úti. Þannig að fljótlega fór ég að missa áhugann á fótboltanum og lífinu sem honum fylgdi, endalaus ferðalög og æfingar sem tók allan minn tíma. Ég skráði mig í fjallamennskunám FAS og kláraði það samhliða stúdentsprófi. Þar kynntist ég þessum heimi enn þá betur og sá fljótlega að ég vildi gera meira á þessu sviði, fjöllin og jökullinn hafa átt hug minn allan síðan.“

Sólveig rekur ferðaþjónustufyrirtæki og starfar sem verkefnastjóri Fjallamennskunáms FAS.
Sólveig rekur ferðaþjónustufyrirtæki og starfar sem verkefnastjóri Fjallamennskunáms FAS.

Undanfarin ár hefur Sólveig unnið markvisst í því að auka eigin færni og þekkingu í áframhaldandi námi í ævintýraleiðsögn og innan félags fjallaleiðsögumanna á Íslandi (AIMG).

„Á þessum tíma fluttist ég einnig í Alpana og gerðist svokallaður skíðaróni (e. skibum). Þar kynntist ég manninum mínum honum Guillaume sem er fæddur og uppalin í Chamonix sem er mekka klifur- og skíðaheimsins. Undanfarin ár höfum við reynt að eyða tíma þar á hverju ári. Fyrst um sinn reyndum við að eyða vetrinum í Chamonix og sumrinu á Íslandi, leigðum þá ýmist íbúð eða bjuggum í húsbíl í fjóra til fimm mánuði í senn í leit að besta púðrinu og skemmtilegum skíðaleiðum.

Núna hefur það þó aðeins breyst og erum við meiri hluta árs á Íslandi. Við erum þó alltaf að leita leiða til að búa okkur til þennan tvöfalda lífsstíl sem við þráum; skíða á veturna og leika okkur á sumrin. Við tókum skref í þá átt í Covid og keyptum okkur lítið sumarhús hinum megin á landinu, í Ólafsfirði, og má segja að við höfum hitt á skíðaskála drauma okkar þar. Chamonix-söknuðurinn er aðeins minni fyrir vikið. Tröllaskaginn er náttúrlega paradís fyrir okkur íslenska fjallaskíðafólkið og já ekki bara skíðafólk, líka fjallahjóla og hlaup svo eitthvað sé nefnt. Við höfum eytt miklum tíma þar undanfarið, bæði að skoða fjöllin og umhverfið en einnig í skógarhögg og garðvinnu.“

Fjallaskíði eru stórt áhugamál hjá Sólveigu.
Fjallaskíði eru stórt áhugamál hjá Sólveigu.

Sólveig og Guillaume reka ferðaþjónustufyrirtækið Local Icelander. Hún segir að hugmyndin á bak við fyrirtækið hafi verið að búa til miðil og vettvang fyrir ferðamenn og fleiri til að tengjast heimamanneskju á Íslandi.

„Eftir að við stofnuðum fyrirtækið okkar Local Icelander í upphafi 2018 þá hefur verið mikið að gera hjá okkur á veturna hérlendis og því fækkaði Chamonix-ferðum okkar nokkuð eftir það. Fyrirtækið hefur verið í mótun frá því við byrjuðum og erum við alltaf að þróa það í þá átt sem við teljum rétta hverju sinni. Við höfum aðallega verið að bjóða upp á einkajökla- og íshellaferðir fyrir ljósmyndara.“

Það hefur gengið mjög vel og núna fylgja okkur rúmlega 11.000 einstaklingar á Instagram undir @localicelander, sem hafa mjög gaman af því að skoða efni sem tengist útivist, fjallamennsku og lífinu á Ísland. Ég reyni því að leggja mig fram við að halda úti þessum miðli og við reynum að vera dugleg að sýna frá ferðalögum og fjallamennsku okkar hverju sinni.“

Þegar Sólveig fer ekki í Alpana stundar hún fjallaskíði á …
Þegar Sólveig fer ekki í Alpana stundar hún fjallaskíði á Tröllaskaga.

Eftir að Sólveig tók við verkefnastjórnun fjallamennskunáms FAS tók hún eftir því að það er lítið framboð af íslensku efni um útivist og fjallamennsku.

„Ég sjálf hlusta mikið á hlaðvörp og þá sérstaklega tengd mínu áhugasviði, fjallamennsku og útivist. Lítið var til af slíku efni og ákvað ég því að taka málin í mínar hendur og byrjaði með Fjallakastið sem er hlaðvarpsþáttur sem fjallar um allt tengt útivst og fjallamennsku. Þátturinn er svona bland af samtali við fólk um ýmis málefni tengt útivist og einnig viðtöl við áhugaverða viðmælendur með fjölbreyttan bakgrunn í útivist og fjallamennsku. Það eru komnir tíu þættir í loftið og er ég að fara aftur af stað eftir sumarið með marga skemmtilega þætti.

Ég reyni svo að tengja þættina við efni á Instagram @localicelander og tengi oft málefnin í þáttunum við árstíðirnar og þá fjallamennsku sem við stundum hverju sinni. Samhliða þessu fór fólk svo að hafa samband við mig og spyrja um hitt og þetta tengt útivist og fjallamennsku og þá fæddist Fjallanetið, sem er samstarfsverkefni hjá mér og Vilborgu Örnu. Með okkur í liði er fullt af frábæru útivistar- og fjallafólki, sem skrifar um hvað það er að gera hverju sinni. Fjallanetið fór í loftið rétt fyrir sumarið og eins og gengur og gerist hjá fjallafólki eyddum við sumrinu á fjöllum og er síðan því að vakna aftur til lífsins eftir smá fjallafrí í sumar,“ segir hún. 

Sólveig er mikið á fjallaskíðum.
Sólveig er mikið á fjallaskíðum.
Hjólað á fjöllum.
Hjólað á fjöllum.


Sólveig ætlar að halda áfram að elta uppi ævintýri í vetur, hvort sem það er á Höfn, Ólafsfirði eða heimaslóðum eiginmannsins í Ölpunum. 

„Veturinn fram undan er mjög spennandi hjá mér, það er mikið að gera í fjallamennskunámi FAS, þátttakan hefur aldrei verið betri og því nóg fram undan í því. Fjallakastið er einnig að fara af stað aftur eftir sumarið og hlakka ég til að spjalla við fleira fólk um útivist og fjallamennsku, það er af nógu að taka. Ég er á leiðinni til Chamonix á næstunni og stefni á að eyða vetrinum á skíðum í Ólafsfirðinum fagra. Einnig eru mörg skemmtileg verkefni í pípunum og hlakka ég mjög til að segja frá þeim fljótlega, sum eru aðeins meira leyndó en önnur. Þannig að veturinn fer í að undirbúa mig fyrir stór fjallaverkefni á næsta ári og planið er að deila því ferðalagi með fylgjendum mínum á @localicelander.“

Hægt er að hlusta á Fjallakastið á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert