Stellurnar festust í drullu en traktor kom til bjargar

Halldóra Huld Ingvarsdóttir stundar meðal annars stangveiði.
Halldóra Huld Ingvarsdóttir stundar meðal annars stangveiði.

Halldóra Huld Ingvarsdóttir, sjúkraþjálfari hjá Verkjalausnum, hefur verið í hestamennsku frá unga aldri og byrjaði að ferðast um landið á fjölbreyttari hátt í kórónuveirufaraldrinum. Jöklagöngur, reiðtúrar, skíði og stangveiði er meðal þess sem Halldóra Huld tekur sér fyrir hendur. Hún hefur lent í ótal ævintýrum en hún og vinkonur hennar festu meðal annars bíla þegar veiðiklúbburinn Stella fór í fyrstu veiðiferðina. 

„Þegar sjúkraþjálfurum var gert að loka í upphafi heimsfaraldursins fór ég að einblína meira á myndlistina mína. Þá gerði ég síðuna Huld art á Facebook og síðar á Instagram. Þar deili ég olíumálverkum eftir mig, þá helst náttúru- og hestamyndum enda liggur áhuginn þar,“ segir Halldóra. 

Útivistaráhuginn kviknaði í gegnum hestamennskuna.
Útivistaráhuginn kviknaði í gegnum hestamennskuna.

Halldóra Huld hefur verið í hestamennsku síðan hún man eftir sér. Hún og tvíburasystir hennar Sigga voru mikið í hesthúsinu og því fylgdi mikil útivera. Eftir því sem hún varð eldri fór áhuginn á fjallgöngum og hlaupum að aukast.

Halldóra Huld byrjaði ung í hestamennsku ásamt tvíburasystur sinni.
Halldóra Huld byrjaði ung í hestamennsku ásamt tvíburasystur sinni.

„Í byrjun árs fór ég í fjallgöngu þar sem ég varð vitni að alvarlegu slysi. Þetta sat í mér og ég varð smeyk við að fara aftur á fjöll. Ég stóð mig eitt sinn að því að vera að setja á mig höfuðljós og mannbrodda fyrir göngutúr, þegar það var hvorki myrkur né hálka. Ég skráði mig því í fjallgönguhóp undir stjórn leiðsögumanns og fékk þá fljótt áhuga á jöklagöngum. Á svipuðum tíma kynntist ég vinkonu minni, Maju. Hún stefndi á þátttöku í utanvegahlaupum og ég á jöklagöngur. Við fórum því að stunda þetta tvennt í sameiningu,“ segir Halldóra Huld sem telur að hún hafi alltaf valið sér vini sem stunda útivist. Fjölskylda hennar er líka mikið í útivist. 

Halldóra Huld og Maja vinkona hennar á Hrútfjallstindum í sumar.
Halldóra Huld og Maja vinkona hennar á Hrútfjallstindum í sumar.

„Minn helsti ferðafélagi í dag er Maja. Við smullum saman frá fyrstu mínútu. Við stofnuðum tveggja manna hlaupahópinn #Bestfriendsatfirstsight í fyrsta skipti sem við hittumst tvær saman, sem síðar fékk nafnið Fjallageiturnar. Það hefur líklegast enginn hlaupahópur villst jafn oft eins og okkar en við köllum það ævintýraferðir. Í fimmta skipti sem við hittumst var síðan ferðin okkar til Suður-Ameríku plönuð. Það er magnað hvað það smellur allt þegar maður hittir einhvern sem hefur sameiginlega stöðu og áhugamál og maður sjálfur,“ segir Halldóra Huld. 

„Ég hef líka mjög gaman af stangveiði og hef verið að stunda það með fjölskyldu og vinum. Vinkonuhópurinn stofnaði nýverið veiðihópinn Stellu, þema ferðarinnar var nefnilega Stella í orlofi. Í fyrstu ferðinni fengum við einn fisk á land. Adrenalínið fór þá á fullt hjá okkur en það átti eftir að vera toppað með trompi þegar bílarnir festust á sama tíma í drullu lengst upp á heiði seinna þennan dag. Við náðum að losa annan bílinn en hinum var ekki haggað. Við fórum þá á öðrum bílnum heim að sveitabænum og sóttum traktor. Hann festist næstum því líka í björgunaraðgerðunum. Strappinn slitnaði tvisvar sinnum í átökunum en að lokum heppnaðist aðgerðin og við fórum heldur betur sáttar með okkur heim að bæ. Við vorum komnar með nóg af ævintýrum á þessum tímapunkti, potturinn og góður matur beið okkar.“

Veiðifélagið Stella.
Veiðifélagið Stella.

Hvað stóð upp úr frá sumrinu?

„Tólf daga hringferð um landið með Maju á litlum „camperbíl“. Lífið er ekki flókið á „campernum“, við rúllum á tjaldsvæðin eftir góðan dag á fjöllum, færum nokkrar töskur til og þá er svefnaðstaðan klár. Fyrirhöfnin er engin og maður getur auðveldlega elt besta veðrið. Nema þegar það springur á honum, þá er það erfiðara. Það gerðist einu sinni en því var snarlega reddað með góðri aðstoð.“

Haldóra Huld sæl eftir Dyrfjallahlaupið í sumar.
Haldóra Huld sæl eftir Dyrfjallahlaupið í sumar.

„Í ferðinni tók ég líka þátt í Dyrfjallahlaupinu sem er 24 km utanvegarhlaup. Það er það lengsta sem ég hef hlaupið hingað til. Ég endaði í þriðja sæti kvenna sem var langt umfram mínum væntingum. Þetta var mjög krefjandi en á sama tíma ótrúlega skemmtileg upplifun. Við héldum svo áfram í hlaupum og almennu fjallabrölti í geggjaðri náttúru og ekki skemmdi veðrið fyrir, brakandi blíða allan tímann. Enduðum svo ferðina í Þórsmörk að taka á móti fólkinu sem kom í mark í Laugarvegshlaupinu.

Ég svaf mjög vel í „campernum“ en eldunaraðstaðan var ekki mikil. Við réttlættum þá fyrir okkur að fara oftast út að borða þar sem ferðamátinn var að öðru leiti svo ódýr. Það kom nefnilega líka skemmtilega á óvart hvað við eigum mikið af góðum veitingarstöðum víðsvegar um landið. Síðan vorum víð duglegar að sækja sundlaugarnar og böðin sem þarna voru. Þetta var bara geggjað frí.“

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Sveit sem stórfjölskyldan á saman á Snæfellsnesi er minn allra besti staður. Í raun finnst mér Snæfellsnesið í heild æðislegur staður að vera á. Þar er mikið af náttúruperlum, Snæfellsjökullinn er þar mitt mesta uppáhald. Planið var að fara á hann síðastliðið vor. Í fyrra skiptið fórum við Maja ásamt systur hennar með fjallgönguhóp þangað upp í miklu roki. Ég veit satt að segja ekki hvort við náðum á toppinn, stóðum þarna í roki í smá stund og snérum svo við. Í seinna skiptið þurfti ég að hætta við Snæfellsjökulshlaupið sökum meiðsla. Þurfti að stoppa sjálfa mig af í dyragættinni á leiðinni út, mig langaði svo. Það verða þó gerðar fleiri tilraunir, ætla upp á toppinn og sjá útsýnið yfir Snæfellsnesið.“

Halldóra Huld og Maja komu við í Þórsmökr í hringferðinni …
Halldóra Huld og Maja komu við í Þórsmökr í hringferðinni í sumar.

Hvert þurfa allir Íslendingar að fara?

„Dyrfjöllin eru ótrúlega tignarleg fjöll í Borgafirði-Eystri sem gaman er að sjá. Ef fólk hefur áhuga á fjallgöngum eða hlaupum þá er tilvalið að skoða Stórurð. Gangan er meðal löng og ekki erfið. Mér skilst að það geti verið snjóþungt þarna og því betra að ráðfæra sig áður við fólk sem þekkir til. Löngufjörur á sunnanverðu Snæfellsnesinu er líka magnaður staður, sérstaklega þegar maður er á hestum. Fjörurnar eru mjög vinsælar hjá fjölskyldunni og hafa ferðirnar þangað oft verið hápunktur sumarsins hjá mér. Það er svo æðislegt að upplifa hvítar strendur á Íslandi og ekki skemmir útsýnið yfir Snæfellsjökul fyrir. Það virðist líka alltaf vera gott veður þarna.“

Fjölskyldan í Löngufjörum.
Fjölskyldan í Löngufjörum.

Uppgötvaðir þú eitthvað nýtt í kórónuveirufaraldrinum þegar það mátti helst ekki ferðast erlendis?

„Já heldur betur. Þetta byrjaði í raun þegar öllu var lokað og maður gat ekki mætt í ræktina. Þá neyddist ég til að hreyfa mig meira úti en vanarlega. Heimaræktin var ekki að virka fyrir mig. Þá fór ég að finna hvað þetta gaf mér miklu meiri ánægju en ræktin. Ísland er líka magnað land, ótrúlega fjölbreytt og stórbrotið. Ferðalög innanlands eru því bara alls ekki síðri en erlendis. Ferðalögin mín innanlands höfðu að mestu takmarkast við hestana þar til í ár. Því eru mjög margir staðir sem ég á eftir að sjá en með ferðalögunum innanlands hef ég séð betur og betur hvað Ísland bíður upp á ótrúlega mikið.“

Ertu dugleg að ferðast á veturna? 

„Veturnir fara fyrst og fremst í það að hugsa um hestana og ferðast um á þeim. Ég stunda þó líka svigskíði og fjallgöngur á veturnar. Veðrið getur verið svo ótrúlega fallegt þegar sólin er lágt á lofti og í raun er ekkert verra þó það sé rigning eða smá snjókoma. Það getur bara verið frískandi, ef maður fær sig út í veðrið. Við fjölskyldan höfum verið að fara í skíðaferðir erlendis ásamt vinafólki. Þessar ferðir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Það er svo geggjað að hafa ekkert annað hugsa um en í hvaða brekku maður ætti að renna sér í næst og hvaða veitingastað maður ætti að velja sér í brekkunum. Og ekki skemmir fjallafegurðin fyrir. Allir fara svo ótrúlega sáttir eftir daginn á hótelið,“ segir Halldóra Huld. 

„Jöklagöngurnar tóku svo við núna snemma í vor. Ég fór í fyrsta og mögulega eina skiptið upp á Hvannadalshnjúk. Það var brakandi blíða á leiðinni upp en í síðasta stoppinu sáum við fenna aðeins yfir toppi hnúksins. Við vonuðum að það væri farið þegar við myndum toppa svo við sæjum allt útsýnið sem hnúkurinn byði upp á. Það gerðist heldur betur ekki. Þegar við náðum loksins á toppinn skall á óveður og öllum snúið við. Ég áttaði mig á því þarna í eigin raun að veðurfar á jökli er eitthvað annað en niðri við byggðir. Við sprungusvæðið var fólk farið að örmagnast og björgunarsveitin kölluð út en það er lítið sem hún getur gert í þessum aðstæðum. Allir komust þó að lokum heilir á húfi niður. Dagurinn varð því ógleymanlega skemmtilegur en á sama tíma mjög lærdómsríkur.“

Veðrið lék ekki við Halldóru Huld þegar hún toppaði Hvannadalshnjúk.
Veðrið lék ekki við Halldóru Huld þegar hún toppaði Hvannadalshnjúk.

Ég fór síðar með Maju á Hrútfjallstinda sem eru jökultindar í nágrenni við Hvannadalshnjúk. Það var æðisleg ferð með frábærum hóp. Hrútfjallstindar hafa víst upp á mikla náttúrufegurð að bjóða og því trúi ég vel. En við gengum að mestu í þoku og rigningu. Það var þó þess virði. Það var svo magnað að ganga upp úr lægðinni hátt yfir sjávarmáli og fá sólina skínandi á móti sér á toppnum og horfa á lægðina fyrir neðan sig. Þangað mun ég fara aftur og aftur og aftur, það er klárt. Svona ferðir gefa manni svo mikið. Miklu meira en nokkrun tímann ræktin.“

Á leið á topp á Hrjútfjallstinda.
Á leið á topp á Hrjútfjallstinda.

Hvað áttu eftir að gera og dreymir um? 

„Jöklagöngur geta verið mjög langar og ég hef áttað mig á því að mér finnst ótrúlega skemmtilegt að ganga upp á þá en ekki eins gaman að labba niður. Það væri draumur að geta skellt á sig skíðum á niðurleiðinni og látið sig svífa niður einhverja góða spotta. Fjallaskíði eru því næstu mál á dagskrá hjá mér. Ætli ég byrji ekki á því að skíða niður Snæfellsjökul, finnst það liggja beinast við.

Það er líka draumur minn að heimsækja allar heimsálfurnar og upplifa mismunandi menningarheima, sjá nýja og flotta staði og prófa nýja hluti. Næsta ferð verður surfferð til Costa Rica með Maju. Sú ferð verður farin um leið og færi gefst.“

View this post on Instagram

A post shared by Huld Art (@huld.art)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert