Eltu drauminn til Tenerife

Eggert Hákonarson og Guðrún Kristín Valgeirsdóttir eltu drauminn til Tenerife.
Eggert Hákonarson og Guðrún Kristín Valgeirsdóttir eltu drauminn til Tenerife.

Mývetningurinn og ljósmyndarinn Guðrún Kristín Valgeirsdóttir og eignmaður hennar, Eggert Hákonarson, Barðstrendingur og atvinnubílstjóri, fluttu til Tenerife nú í haust. Hjónin ákváðu að láta draum sinn rætast um að stofna eigið fyrirtæki á eyjunni grænu eftir að Guðrún hafði misst vinnu tvisvar sinnum á einu ári vegna kórónuveirufaraldursins. 

Í viðtali við ferðavef mbl.is segir Guðrún að þau hafi dreymt um að flytja til Tenerife en ráðgert að flytja ekki fyrr en eftir nokkur ár barna sinna vegna. Guðrún á einn son úr fyrra sambandi og flutti hann með þeim út. Eggert þrjá drengi úr fyrri samböndum og búa þeir heima á Íslandi. 

Þau fluttu út hinn 1. september síðastliðinn og reka í dag ljósmyndafyrirtækið Magical Moments. 

„Ég hafði misst vinnuna tvisvar sinnum á einu ári vegna kórónuveirunnar. Og þegar seinna skiptið kom upp þá hugsuðum við af hverju ekki að stökkva núna? Við vorum búin að horfa á vorið 2023 að flytja. Það væri hentugri tími vegna barnanna okkar. En hlutir gerast og lífið bíður ekki eftir manni,“ segir Guðrún en þau hjónin voru búin að tala um að flytja út í um þrjú ár. 

Hjónin hafði lengi dreymt um að flytja á hlýrri slóðir.
Hjónin hafði lengi dreymt um að flytja á hlýrri slóðir. Ljósmynd/Guðrún Kristín Valgeirsdóttir

Hér gerist ekkert strax

„Tenerife hafði alltaf verið ofarlega á lista hjá mér vegna þess að hér er jafnt hitastig allt árið. Eggert horfði mikið á að þetta er í Evrópusambandinu og það gerir auðveldara fyrir okkur að flytja hingað en ella. Ég var búin að skoða mikið hvernig væri að stofna eigin rekstur, þá í kringum ljósmyndun og/eða hundasnyrtinguna. Og hvernig við gætum sameinað vinnu og áhugamál,“ segir Guðrún sem er einnig hundasnyrtir. Guðrún hafði áður komið til Tenerife og líkað vel en þetta var í fyrsta skipti sem Eggert kom til eyjunnar. 

Ljósmynd/Guðrún Kristín Valgeirsdóttir

Þau segja að það hafi verið merkilega lítið mál að flytjast búferlum til Tenerife en þau fluttu út með tvo hunda. Þau höfðu tekið íbúð á leigu í gegnum netið og stóðst hún allar þeirra væntingar. „Það var mjög gott að fá strax gott heimili fyrir okkur sem tók vel á móti okkur ásamt hundunum. Hverfið okkar er rólegt, og það er gott að vera hérna. Við e rum í Los Cristianos, í enda bæjarins í austur. Aðal áskorunin er að gíra sig niður. Hér gerist ekkert strax. Það er talað um að á meginlandi Spánar sé allt mjög hægt og rólegt, en Tenerife er á allt öðru tímatali og það er umtalað af Spánverjum. Okkur finnst það reyndar mjög gott, erum að læra að gíra okkur niður og það er allt í lagi að bíða í röð á kassa. Það kemur að þér á endanum,“ segir Guðrún. 

Þau undirbjuggu sig vel fyrir flutningana og fengu strax aðstoð með að skrá sig inn í landið og fá spænska kennitölu, NIE. Þau pössuðu sig líka að vera með öll mikilvægustu gögn prentuð út og tóku þau með sér. 

„Annars hefur gengið mjög vel að ná áttum og kynnast fólki. Spænskan kemur hægt og rólega, ég er til dæmis hætt að þurfa að vera með Google translate þegar ég fer að versla í matinn,“ segir Guðrún. 

Ljósmynd/Guðrún Kristín Valgeirsdóttir

Seldu allt heima

Hjónin ákváðu að selja flestar sínar eigur hér á Íslandi og flytja aðeins með sína persónulegu muni út. Þau sendu því eina pallettu út með Eimskip og flugu svo út ásamt hundunum. Brettið var töluvert lengur á leiðinni en litla fjölskyldan, það lagði af stað hinn 22. ágúst frá Íslandi en þau fengu það ekki afhent fyrr en 28. október. Guðrún segir að þar spili ást Spánverja á pappírsgögnum stórt hlutverk. 

„En ég fékk góða aðstoð frá tollinum hérna á eyjunni og þeim sem voru með vöruhúsið í Santa Cruz þar sem brettið var staðsett. Allir af vilja gerðir að aðstoða,“ segir Guðrún. 

Ljósmynd/Guðrún Kristín Valgeirsdóttir

Hjónin segja að vel hafi gengið að komast af stað með Magical Moments á Tenerife en þau bjóða upp á bílferðir um eyjuna og ljósmyndatöku í leiðinni. „Við erum að sameina krafta okkar í að keyra fólk um eyjuna og taka af því fallegar myndir í fallegu umhverfi. Við erum til dæmis með tvær ferðir, aðra upp í El Teide og fallegu fjallaþorpin og hins vegar um vesturströndina við sjóinn. Við erum að gera þetta persónulegt. Erum ekki með stóra hópa í ferðunum og tökum allt að fimm einstaklinga í ferðirnar,“ segir Guðrún. 

Þau bjóða einnig upp á að hitta fólk og taka myndir, til dæmis á viðburðum. „Það er í sjálfu sér ekki erfitt að stofna fyrirtæki hérna. Við fengum aðstoð frá endurskoðanda sem mun sjá um okkar skattamál líka, að skrá okkur og fyrirtækið okkar. Við erum að koma því á laggirnar en erum enn að fínpússa ferðirnar okkar,“ segir Guðrún. 

Ljósmynd/Guðrún Kristín Valgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert