Lögfræðingur á daginn og leiðsögumaður á kvöldin

Eyrún Viktorsdóttir er leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands.
Eyrún Viktorsdóttir er leiðsögumaður hjá Ferðafélagi Íslands.

Eyrún Viktorsdóttir er mikil fjallageit og veit fátt betra en ferðalög sem innihalda bras, tjald, skítugt hár og neskaffi. Eyrún starfar sem lögfræðingur á daginn og um kvöld og helgar er hún svo leiðsögukona hjá Ferðafélagi Íslands. Hún er í teymi leiðsögukvenna sem sjá um verkefni FÍ Kvennakraftur en þar koma saman flottar konur með áhuga á útviveru fjöllum og að byggja upp sjálfstraustið. 

Eyrún er hrifnust af ferðalögum innanlands, nema ef um ræðir skíðaferðir, þá vill hún halda til útlanda. Á nýju ári langar hana til Washington ríkis í Bandaríkjunum en bíður eftir því að kærasti hennar Haukur Elís biðji hennar svo þau geti farið í brúðkaupsferð á Mt. Blanc.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Jöklar eiga sérstakan stað hjá mér og það er fátt skemmtilegra en að skoða nýja jökla og kynnast þeim. Það skemmtilega, og að vísu líka sorglega, við jökla er að þeir breytast frá degi til dags svo maður er alltaf að upplifa sama jökulinn upp á nýtt.

Einnig þykir mér æðislegt að ferðast með allt á bakinu og helst í nokkra daga í senn og þá fara leiðir sem ég hef ekki farið áður. Allt sem inniheldur smá bras, tjald, skítugt hár og neskaffi gerir mig glaða.“

Á Laugaveginum.
Á Laugaveginum.

Hvert er eftirminnilegasta ferðalag sem þú hefur farið í?

„Tvímælalaust „rómantíska reisan“ okkar Hauks frá Núpstaðaskógi yfir í Skaftafell. Þar fórum við með allt á bakinu í fjögurra daga ferð, en á degi tvö þegar við vorum komin að rótum Skeiðarárjökuls ákváðum við að þvera jökulinn í stað þess að tjalda til einnar nætur og halda af stað yfir jökulinn samkvæmt áætlun næsta morgun. Við ákváðum semsagt að taka tvær dagsleiðir á einum degi og reyndist það smá meira bras og töluvert tímafrekara en við áttuðum okkur á. Við enduðum á að fara 40 km á einum degi og vorum komin yfir jökulinn að verða 2 um nóttu. Jökullinn var hrikalega sprunginn enda langt liðið á ágústmánuð og sumarið búið að baka hann vel. Til að gefa ykkur smá innsýn þá var Haukur að lesa í landslagið og velja staði til að fara yfir sprungur og ég var á GPS tækinu að passa að við værum á réttri leið. Á einhverjum tímapunkti missir Haukur áttir og byrjar að labba til baka og ég er í góðar 10 mínútur að reyna að sannfæra hann um réttu áttina. Stuttu síðar sé ég stelpuna úr hryllingsmyndinni The Ring skríða upp úr einni sprungunni. Við vorum svolítið þreytt okkur til varnar, búin að ganga úr sól og sumaryl inn í þokubakka og að lokum svarta myrkur. Við tókum eitt skref í einu, eina sprungu í einu og að lokum tókst okkur að finna fast land og tjölduðum á fyrsta mögulega blettinum eftir rosalegan dag. Ótrúlegt en satt þá fundum við orku daginn eftir til að halda áfram, ég var sannfærð um að þurfa að verja heilum degi í tjaldinu til að safna kröftum. Ég þakka enn fyrir hugboðið um að taka auka-auka batterí með í þessa ferð, annars værum við sennilega ennþá á jöklinum.“

Haukur og Eyrún á Sólheimajökli.
Haukur og Eyrún á Sólheimajökli.

Hvort ertu meira fyrir að ferðast innanlands eða utanlands?

„Ég kýs innanlandsferðir framyfir utanlandsferðir, nema ef það er skíðaferð.“

Hvaða ferðalag fórst þú í síðasta?

„Síðasta ferðalag var hringferð á sterum þar sem við gistum í minnsta göngutjaldi sem sögur fara af. Tjaldið fékk strax heitið Sardínudósin, en það var nú bara nokkuð huggulegt hjá okkur þrátt fyrir plássleysi. Fyrsta stopp var á Rauðasandi og við ætluðum svo að dúlla okkur eitthvað smá áfram en enduðum óvart í Svartaskógi fyrir utan Egilsstaði. Í ferðalaginu kíktum við m.a. á Mývatn, Stórurð, Borgarfjörð eystri, Vök baths og enduðum svo ferðina í Stafafelli og kíktum að lokum á einn dásamlegasta jökul landsins, Kvíárjökul.“

Við Stórurð.
Við Stórurð.

Hvert langar þig til að ferðast á nýju ári?

„Washington ríki í Bandaríkjunum hefur verið að kalla mikið á mig undanfarið. Mig dreymir um að verja nokkrum mánuðum þar og klukka fallegu og háu fjöllin þar eins og Mt. Rainier ásamt því að upplifa alla stórbrotnu náttúruna á svæðinu. Einnig er Mont Blanc á listanum en ég er að bíða eftir að Haukur biðji mín svo við getum farið í brúðkaupsferð þangað.“

Við Vörðu-skeggja.
Við Vörðu-skeggja.

Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Ísland?

„Allt sem hægt er að kalla hálendi Íslands – allt þetta hráa, með ýktu litunum og landslagi sem á heima í vísindaskáldsögum og á Júpíter er í algjöru uppáhaldi.“

Hvað er ómissandi í ferðalagið að þínu mati?

„Auka-auka batterí í GPS tækið og góður ferðafélagi sem þarf ekki að fara í sturtu daglega og hlær að bröndurunum mínum.“

Splitboard á Snæfellsjökli.
Splitboard á Snæfellsjökli.
Í fjölskylduferð um Uppgönguhrygg.
Í fjölskylduferð um Uppgönguhrygg.
Á Kvíarjökli.
Á Kvíarjökli.
Rjúpnafell í Þórsmörk.
Rjúpnafell í Þórsmörk.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert