Arnar Péturs kann líka að slaka á

Arnar Pétuson að hlaupa í Kenía.
Arnar Pétuson að hlaupa í Kenía.

Arnar Pétursson langhlaupari, þjálfari og fyrirlesari ferðast mikið hlaupanna vegna. Hann hefur meðal annars dvalið í Kenía og dreymir um að hlaupa í Eþíópíu. Þrátt fyrir að hlaupin séu aldrei langt undan reynir hann líka að slaka á og njóta lífsins á ferðalögum. 

„Mér finnst langskemmtilegast að vera lengi á sama staðnum og kynnast þannig aðeins menningunni og fólkinu sem býr þar betur. Svo er nauðsynlegt að það sé hægt að hlaupa, en það er reyndar hægt allstaðar, bara misauðvelt,“ segir Arnar um hvernig ferðalögum hann er hrifinn af. 

Tengjast allar utanlandsferðir þínar hlaupum? Eða ferðu einhvern tímann út til að slaka á?

„Ég ferðast mjög mikið tengt hlaupunum til að fara í æfingabúðir eða keppnir en svo nýti ég reyndar oft hvíldartímabilið sem er tvær til þrjár vikur, til að ferðast. Þá er fókusinn miklu meira á að hafa gaman, heimsækja vini, slaka á og gera eitthvað allt annað en að hlaupa í hringi.“

Áttu þér uppáhaldsborg?

„Fyrsta borgin sem kemur upp í hugann er Barcelona en ég bjó um tíma í Köln í Þýskalandi og þar er gjörsamlega frábært að vera. Þannig ef ég ætti að ferðast alltaf til einnar borgar til að skemmta mér væri það Barcelona en svo væri ég til í að búa í Köln upp á hlaupin að gera.“

Hvar er skemmtilegast að hlaupa í útlöndum? 

„Mér hefur líklega liðið hvað best að hlaupa í Mammoth Lakes í Bandaríkjunum. Þar ertu í um 2.400 metra hæð með þvílíkt flotta náttúru í kringum þig. Þarna er líka frábært að æfa og mjög gott samfélag sem styður við hlaupara. Þar fór ég í mat hjá Deena Kastor sem á bandarískametið í maraþoni og fékk að kynnast hlaupurunum nokkuð vel.

Iten í Kenía er svo hinn staðurinn sem kemur upp í hugann en þar fékk ég að hitta Eliud Kipchoge, heimsmethafa í maraþoni og tvöfaldan Ólympíumeistara. Þar skiptir líka engu máli hvenær þú ferð út að hlaupa, það er alltaf einhver heimsklassa hlaupari sem þú mætir á leiðinni.“

Arnar á Borgarfirði eystri þaðan sem hann er ættaður.
Arnar á Borgarfirði eystri þaðan sem hann er ættaður.

Áttu þér ein­hvern eft­ir­læt­is­mat sem þú hef­ur fengið á ferðalög­um?

„Frekar en að segja eitthvað sem ég fékk mér einu sinni þá finnst mér meira viðeigandi að nefna það sem ég hef borðað kannski hvað oftast, en það er kebab í Þýskalandi en ég bjó þar í um eitt og hálft ár þegar ég var í mastersnámi. Uppáhaldsmaturinn í ferðalögum innanlands er án efa túnfiskssamlokurnar hennar mömmu. Þær eru án lauks og eru svindl góðar, alveg eins og hún.“

Áttu þér uppáhaldsstað á Ísland?

„Ég er í grunninn mikill Kópavogsbúi og hef eytt ómældum tíma í æfingar í körfubolta, fótbolta og hlaup í Smáranum og svæðinu þar í kring og það er alltaf jafn gaman. Fyrir utan Kópavoginn finnst mér einna skemmtilegast að fara upp í bústað með Söru og hundinum okkar honum Þráni.“

Hvar er skemmtilegast að hlaupa á Íslandi?

„Heiðmörk á sumrin er frábær en svo er líka snilld að koma til Borgarfjarðar eystri á sumrin og skokka þar sem afi Jón, Skúli og systkinin ólust upp. Það vantar hinsvegar meira af ómalbikuðum stígum á höfuðborgarsvæðinu, malbikið fer alls ekki nógu vel með fæturna og þess vegna mæli ég alltaf með því að hlaupa frekar á grasinu við hliðina á gangstéttinni þegar það er hægt.“

Arnari finnst gaman að hlaupa í Heiðmörk.
Arnari finnst gaman að hlaupa í Heiðmörk.

Ætlar þú að ferðast í vetur?

„Fjölskyldan ætlar að vera á Tenerife yfir jól og áramót til að fagna sextugsafmæli pabba, það er samt líklegra að fólk haldi að hann sé fimmtugur enda ótrúlegur maður og fyrirmynd. Svo förum við pottþétt upp í bústað í vetur til að hafa það rólegt og þægilegt.“

Hvert dreymir þig um að fara?

„Mig hefur alltaf langað til að ferðast meira til Asíu og planið var náttúrulega að komast á Ólympíuleikana í maraþoni í Tókýó og slá þannig tvær flugur í einu hlaupi. Svo á ég eftir að fara í æfingabúðir til Eþíópíu en þar ertu að æfa í 2.400 til 3.000 metra hæð við frekar frumstæðar aðstæður, svipað og í Kenía, en það er algjör stemning.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert