Takmarka komur skemmtiferðaskipa

Frá og með árinu 2022 mun takmarkaður fjöldi skemmtiferðaskipa geta …
Frá og með árinu 2022 mun takmarkaður fjöldi skemmtiferðaskipa geta lagt í höfninni á Palma, einni stærstu borg Majorka. AFP

Hinar spænsku Baleraeyjar munu frá og með árinu 2022 takmarka fjölda þeirra skemmtiferðaskipa sem lagt geta í höfninni á Palma, einni stærstu borg Majorka.

Í fyrsta sinn sem takmörk eru sett á komur

Að hámarki 518 skemmtiferðaskipum verður leyft að stoppa í höfninni á næsta ári, samanborið við þau 549 skip sem lögðust þar að bryggju árið 2019, að því er svæðisstjórn eyjaklasans greindi frá í yfirlýsingu seint í gær.

Þá mega ekki fleiri en þrjú skemmtiferðaskipt leggja í höfninni á sama degi og getur aðeins eitt þeirra verið svokallaðr ofur-skemmtiferðaskip, sem rúmar 5.000 farþega.

Nýju reglurnar, sem gilda næstu fimm árin, voru samþykktar eftir tveggja ára viðræður við Cruise Lines International Association (CLIA), félags sem stendur fyrir 95% skemmtiferðaskipa á heimsvísu, að því er fréttastofa AFP greinir frá.

„Þetta er í fyrsta skipti sem raunveruleg takmörk eru sett á komu skemmtiferðaskipa til Palma,“ sagði Iago Negueruela, ferðamálaráðherra svæðisins.

Frá Palma-ströndinni á Majorka.
Frá Palma-ströndinni á Majorka. AFP

Segja ferðamenn valda truflun á lífi heimamanna

Íbúar Palma í Majorka hafa lengi kallað eftir takmörkunum á komum skemmtiferðaskipa til hafnarinnar í borginni en þeir segja aukinn fjölda ferðamanna í borginni trufla líf þeirra og valda álagi á almenningssamgöngur.

Sumir heimamenn segjast forðast miðbæinn á dögum þegar mörg skemmtiferðaskip leggja að bryggju og áður en kórónuveirufaraldurinn skall á mátti sjá orðin „Ferðamenn farið þið heim“ skrifuð á veggi borgarinnar.

Afstaða þeirra stangast þó á við hagsmuni ferðaþjónustuaðila, leigubílstjóra og veitingastaaðaeigenda, sem segja komur skemmtiferðaskipa vera mikilvægar fyrir viðskiptalífið á Baleareyjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert