Þríhyrningar sexí og háar buxur algjört möst

Anna Þóra Björnsdóttir á bikiní á Tenerife.
Anna Þóra Björnsdóttir á bikiní á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Anna Þóra Björnsdóttir, uppistandari og gleraugnasali, nýtur lífsins á Tenerife með fjölskyldunni. Anna Þóra sem er 59 ára er með mikinn fíflagang á samfélagsmiðlum og þykist vera að leika í nýrri Baywatch mynd. Hún birtir reglulega biknímyndir af sér en hún segir ekki allar konur á hennar aldri þora að ganga í bikní. 

Eins og alvöru díva er hún í nýju bikníi á hverjum degi. Hún segir líka mikið úrval á Tenerife. „Þeir eru ekki endilega að selja þetta í settum, það hentar mér vel. Mér finnst þríhyrndir brjóstahaldarar alltaf svo sexí. Ég er minna fyrir með spöngum og með þykkum hliðum. Svo er alveg möst að hafa buxurnar háar. Þær klæða konur á mínum aldri mun betur. Þegar ég var 19 ára var ég að vinna með bundnar buxur. Þær hafa dottið út með tímanum.“

Anna Þóra er með fjölskyldunni á Tenerife. Hér er hún …
Anna Þóra er með fjölskyldunni á Tenerife. Hér er hún með syni og tengdadóttur á ströndinni. Ljósmynd/Aðsend

Anna Þóra dvelur í húsi og velur þá Íslendinga sem hún hittir. Þegar blaðamaður talaði við hana á næst síðasta degi ársins ætlaði hún að hitta Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, og konu hans seinna um daginn. Hún átti líka stefnumót við Björk Eiðsdóttur blaðamann. Hún var búin að fara í drykk með Jakobi Frímanni Magnússyni þingmanni og Jakobi Bjarnari blaðamanni. „Það er allt aðal fólkið hérna,“ segir Anna Þóra.

Eru íslenskar konur feimnar við að vera í bikníi?

„Já því miður finnst mér það. Ég veit um stórglæsilega konu sem fer aldrei í bikní. Hún fer í síðermabol ofan í heitan pott af því henni finnst hún ekki vera með nógu góða handleggi. Ég bara skil ekki hver bjó til þessa þvælu. Við erum bara glæsilegar eins og við erum.“

Anna Þóra fer ekki í bikní á Íslandi enda hætt að fara í sund. „Ég á klígjulegan nágranna. Þegar ég sat með honum í pottinum þá gaf ég sundkortið mitt. Ég sá ekki ástæðuna til að vera í sama baðvatni og hann,“ segir Anna Þóra. Hún þarf ekki að hafa áhyggjur af nágrannanum á Tenerife, nágranninn er líklega að hjóla í Króatíu. 

Anna Þóra segir konur feimnar við að vera í bikní.
Anna Þóra segir konur feimnar við að vera í bikní. Ljósmynd/Aðsend

Hvernig verða síðustu dagar ársins?

„Ég er hér með með manninum mínum, þremur sonum mínum og tveimur tengdadætrum. Það er algjörlega æðislegt. Þetta er bara miklu skemmtilegra heldur en að sitja útblásin af einhverju saltkjöti og brúnuðum kartöflum heima. Við vöknum milli átta og níu í íbúðinni og fáum okkur morgunmat í íbúðinni. Svo er það yfirleitt ströndin en ég er að hugsa um að breyta til og fara í sundlaugina í dag af því að ég ætla að vera skvísa á ströndinni í drykkjuleikjum frá tvö,“ segir Anna Þóra og segir að öll fjölskyldan taki þátt. Vinir þeirra taka líka þátt en þau passa að virða sóttvarnarreglur. Aðeins mega sex sitja á sama borði og þess vegna er gott að hitta bara ein hjón í einu.

Fjölskyldan gerir ráð fyrir að bíða með að horfa á skaupið þangað til að þau koma heim. „Við höfum ekki kveikt á sjónvarpi. Við förum ekkert inn á fréttasíður nema til að lesa Smartlandið og aðeins inn á RÚV,“ segir Anna Þóra. Á gamlárskvöld ætla þau út að borða á líbönskum veitingastað og skála heima í íbúðinni á miðnætti. 

Þar sem Anna Þóra hefur verið á Tenerife og ekki fylgst með sjónvarpi hefur hún ekki séð Verbúðina. Fátt annað hefur verið tala um og þá sérstaklega Susan í balanum sem Anna Þóra man vel eftir. „Ég þekkti til Susan. Bróðir minn þekkti hana persónulega. Hann spilaði mikið á böllum og það þótti mjög eðlilegt að Susan kæmi og baðaði sig á milli laga. Þetta var bara rætt, var Susan með balann? Ég hafði voða miklar áhyggjur af því hvort henni væri kalt. Þetta var ekki sírennsli. Mig minnir að hún hafi ekki verið í neinu, hún var að minnsta kosti ekki í bikiníbrjóstahaldara.“

Anna Þóra Björnsdóttir nýtur lífsins á Tenerife.
Anna Þóra Björnsdóttir nýtur lífsins á Tenerife. Ljósmynd/Aðsend

Anna Þóra segir fólk í dag gera margt verra heldur en að baða sig í bala á skemmtistöðum. Hún tekur þó fram að hún sé kannski ekki dómbær. „Ég er gamall sjúkraliði og vann á þvagfæradeild. Á góðum degi rakaði ég átta punga á dag.“

Anna Þóra ætlar að halda áfram að hlæja og vera í bikní á næsta ári. Hún ætlar líka að fagna sextugsafmælinu sínu rækilega. „Ég ætla að gera mér glaðan dag 13. hvers mánaðar af því að 13. september verð ég sextug. Ég ætla að halda 12 sinnum upp á það. Það er ekki ólíklegt að áfengi komi við sögu 13. janúar,“ segir Anna Þóra sem ætlar alls ekki að hætta að drekka á nýju ár, það eru aðrir sem sjá um það.

Anna Þóra ætlar út að borða á gamlárskvöld.
Anna Þóra ætlar út að borða á gamlárskvöld. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert