Óvissuferð í jólapakka unglinganna

Hjálti Guðmundsson 12 ára gerir sig kláran í útreiðatúr.
Hjálti Guðmundsson 12 ára gerir sig kláran í útreiðatúr. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Dóra Magnúsdóttur, fræðslustjóri og leiðsögukona, var i stökustu vandræðum með að finna jólagjafir handa unglingunum sínum. Símar í þokkalegu standi og svo sem ekki valkostur heldur að kaupa nýja síma handa þremur unglingum sisona. Þau eiga nóg af fötum og öðrum veraldlegu dóti. Jólagjafirnar handa táningunum hafa á fáum árum orðið töluverður hausverkur eða frá því að þokkalegur lego-kassi hætti að duga til að redda jólunum.

Svar okkar hjóna þessi jól var óvissuferð fyrir krakkana. Ekki eingöngu af því að með slíkri ferð búum við til góðar minningar og ævintýri í jólafríinu heldur líka vegna þess að með upplifun verður ekki til neitt óþarfa dót – og umbúðir – sem hleðst upp og nýtist engum með tilheyrandi óþarfa kolvetnisspori. Þau fengu reyndar öll ljósaborða í herbergin sín, en á pakkanum var umslag með boðsmiða í óvissuferð. Börnunum var sagt að gera sig klár, klæða sig vel, taka með auka húfur og vettlinga og sundföt. Meira var ekki gefið upp enda væri óvissan þá engin.

Hér er hópurinn ásamt leiðsögumanni í magnaðri vetrarbirtu.
Hér er hópurinn ásamt leiðsögumanni í magnaðri vetrarbirtu. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Skömmu fyrir áramótin um hádegisbil héldum við af stað heiman frá okkur. Við hófum ferðalagið á að heimsækja vinsælan samlokustað til að tryggja að þau væru öll södd og sæl í upphafi ferðlagsins og ókum svo í vestur innan höfuðborgarsvæðisins. Elsta dóttirin, sem er uppkomin og hefur unnið í ferðaþjónustu, grunaði hvað til stóð þegar við ókum í átt að Íshestasetrinu í jaðri Hafnarfjarðar við Kaldársel enda kom þá í ljós kom að útreiðatúr var á dagskránni. Við erum öll óvant hestafólk, til þess að gera. Börnin höfðu farið á reiðnámskeið þegar þau voru lítil, pabbinn hafði farið á hestbak í sveit og mamman hafði farið á hestbak sem leiðsögukona með ferðamönnum – en þar fyrir utan höfum við engin afskipti af hestum. Nema til að dást að þeim út um gluggann eða kannski gefa þeim gamalt brauð þegar það má. Einmitt þessa vegna var tilvalið að gera eitthvað sem við annars gerum aldrei; að fara á hestabak og það um hávetur.

Fallegir vetrardagar eru svo einstakir og verðmætir; dagsbirtan staldrar stutt við og birtan svo mögnuð. Við vorum gríðarlega heppin með veður daginn sem við pöntuðum útreiðatúrinn og litirnir magnaðir í náttúrunni. Íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru ótrúlega heppnir með það hversu stutt þarf að fara út fyrir borgina til að geta gleymt nálægðina við hana.

Leiðsögukonurnar sem riðu með okkur út aðstoðuðu að velja hesta við hæfi; við vildum flest slaka ogþægilega hesta og það reyndist auðsótt. Við fengum strax að vita hvað þeir heita og svolítið um persónuleika þeirra. Við fengum Blakk, Rasmus, Gömlu-Blesu, Nýju-Blesu, Smóra og Faxi. Sum okkar þurftu á aðstoð að halda á bak (nefnum engin nöfn!) og svo var haldið af stað í beinni röð.

Hópurinn leið áfram á rólegu feti en ungviðinu leiddist þófið …
Hópurinn leið áfram á rólegu feti en ungviðinu leiddist þófið eftir smástund og var það skipt yfir í næstu gíra tölt og brokk. Þá voru ekki teknar myndir. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir

Við liðum áfram í röð í appelsínugulu ljósi vetrargeisla sólar á hestbaki, öll borgarbúar sem eru vanari bílum og hjólum. Fundum fyrir sterklegum hestinum undir okkur og vitum að reynslulitlir knapar verða bara að slaka á og treysta hestinum. Eftir dágóða stund kallar ungviðið á meira stuð, hvort okkur sé ekki óhætt að fara hraðar. Ég var alveg sátt við fara bara fetið í minni núvitund aftarlega í röðinni en heyri á stemningunni að ég fæ sennilega ekki að ráða. Hópurinn skiptir yfir í næstu gangtegund, brokk og sennilega tölt líka í bland. Við erum ekki viss enda ekki hestafólk og ég á í fullu fangi með halda mér í hnakknum. Krakkarnir hrópa „Úhú!“ og skyndilega er komið meira stuð.

Þessi útreiðatúr var því tekinn á nokkrum mismundandi gangtegundum í mögnuðu umhverfi kringum Kaldárselið í nálægð við Helgafellið, í jaðri Hafnarfjarðar. Ótrúlega fallegt svæði og auðvelt að gleyma að borgin lúrði þarna handan við hæðina en því meiri nálægð við skóg, vatn, fjöll og haf fyrir utan tengingu við blessaða skepnurnar.
Þegar útreiðartúrnum  var lokið hjálpuðumst við að með að losa hnakkana og þáðum heitt kakó eftir að inn var komið, sem var vel þegið. Næst á dagskrá var sundferð; það er alltaf svolítið spennandi að prófa nýja laug en í þetta sinn prófuðum við Ásvallarlaugina í Hafnarfirði sem við höfðum ekki heimsótt áður og kíktum uppáhalds ísbúðina áður en haldið var heim.

Það er notalegt í jólafríi að liggja undir sæng og lesa eða hámhorfa  á þætti eða bíómyndir. En skemmtileg samvera og óvenjuleg upplifun er þó það sem situr eftir í minningabankanum.

Hver segir að hestar kunni ekki að meta eina góða …
Hver segir að hestar kunni ekki að meta eina góða sjálfu fyrir Instragrammið sitt. #hestalífið Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Lilja Guðmundsdóttir dóttir Dóru kom heim í jólafrí frá námi …
Lilja Guðmundsdóttir dóttir Dóru kom heim í jólafrí frá námi í Danmörku. Hér er hún með Nýja Blesa. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
Það þarf ekki að fara lengra en út fyrir borgarmörkin …
Það þarf ekki að fara lengra en út fyrir borgarmörkin til að njóta útsýnis yfir haf, fjöll, skóg og víðáttu á Reykjanesinu. Ljósmynd/Dóra Magnúsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert