Of mikil gírun ekki ógn heldur markmiðið

Höllu Berglindi Jónsdóttur finnst gaman að fara í göngur með …
Höllu Berglindi Jónsdóttur finnst gaman að fara í göngur með vinum með farangur á bakinu. Ljósmynd/Aðsend

Halla Berglind Jónsdóttir sérfræðingur hjá CCP byrjaði að ferðast í auknum máli um Ísland í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Það hefur ekkert slegið á útivistabakteríuna undanfarin ár og segir hún fátt jafnast á við Landmannalaugar. 

„Mér finnst skemmtilegast að fara lengri gönguferðir með hóp af vinum þar sem allur búnaður er borinn á bakinu. Það þýðir að það er allt temmilega mikið vesen, þarfnast mikillar samvinnu og maður fær að gírast og græjast í góðum hópi. Á sama tíma finnst mér frábært að ferðast ein. Það er allt önnur upplifun þar sem maður þarf að treysta og standa með sjálfum sér svo ég reyni að gera eitthvað af því líka,“ segir Halla um hvernig ferðalögum hún er hrifin af. 

„Ég hef alltaf stundað einhverja útivist en það var flest í nágrenni við Reykjavík. Sumarið 2020 ætlaði ég svo að ferðast mikið erlendis en það varð ekki mikið úr því og í staðinn endaði ég á að þræða fjöll og firði á Íslandi. Fyrsta gangan sem ég fór í var Laugavegurinn sem ég mæli með og eftir það var ekki aftur snúið – ég endað á að fara í útilegu hverja helgi, sex helgar í röð,“ segir Halla. 

Það er endurnærandi að komast út í náttúruna og stunda …
Það er endurnærandi að komast út í náttúruna og stunda útivist. Ljósmynd/Aðsend

Hvað gefa ferðalög þér?

„Mér finnst ferðalög fyrst og fremst vera gríðarlega endurnærandi. Það er svo ótrúlega gott að komast aðeins úr hversdagsleikanum og gera eitthvað allt annað, ég tala nú ekki um þegar maður er utan þjónustusvæðis. Þegar maður er svo í hóp upplifir maður svo margar gæðastundir með vinum sínum og nær að kynnast þeim á hátt sem maður myndi ekki annars gera.“

Í góðu veðri á Hornströndum.
Í góðu veðri á Hornströndum. Ljósmynd/Aðsend

Er ekki bara kalt og blautt á Íslandi?

„Það getur verið ansi kalt og vindasamt en ég held það sé ekkert sérstaklega blautt. Ég hef samt verið fáránlega heppin þegar kemur að veðri í stærri ferðum á Íslandi svo í mínum bókum er Ísland suðrænn og seiðandi áfangastaður.“

Er eitthvað ferðalag sem situr sérstaklega í þér? 

„Í ágúst fór í 13 manna hóp í fimm daga ferð á Hornstrandir. Við vorum búin að undirbúa okkur allt sumarið undir alvöru Hornstrandaveður, kulda og vosbúð, en strax á fyrstu 20 mínútunum af göngu vorum við komin á stuttbuxurnar. Ferðin einkenndist svo af algjörri bongó blíðu og góðri stemningu þar sem hreinlega allt gekk upp og frábær vinskapur myndaðist. Algjör epík! Mér fannst líka gaman hvað þetta var krefjandi ferð, bæði andlega og líkamlega. Ég er alveg frekar lofthrædd svo það var gaman að sigrast á hverju fjallinu á fætur öðru og í hvert sinn varð það aðeins auðveldara.“

Gönguferðin um Hornstrandir í sumar var epísk.
Gönguferðin um Hornstrandir í sumar var epísk. Ljósmynd/Aðsend

„Í tengslum við Hornstrandaferðina þá stofnuðum við vinirnir Ferðafélagið Gírun til þess að búa til enn meiri stemningu. Fyrir ferðina bjuggum við svo til lógó og derhúfur sem við vorum með allan tímann. Þetta tengdi okkur enn betur saman og við höfum haldið hópinn sem ferðafélag síðan, ætlum á fjallaskíðanámskeið núna í febrúar og stefnum á eina stóra göngu næsta sumar, sennilega Lónsöræfi. Það birtist svo frétt fyrr í vetur þar sem seðlabankastjóri lýsti því yfir að „Of mikil gírun væri helsta ógnin“ sem við erum að sjálfsögðu gríðarlega ósammála.“

Ferðahópurinn er ekki hræddur við of mikla gírun eins og …
Ferðahópurinn er ekki hræddur við of mikla gírun eins og seðlabankastjóri lýsti yfir í vetur. Skjáskot/RÚV

Áttu þér uppáhaldsstað á Íslandi?

„Mér finnst Landamannalaugar einn fallegasti staður landsins. Landslagið þar er svo ólíkt öllu öðru sem ég er vön og mér líður smá eins og ég sé á annarri plánetu. Í hvert sinn sem ég fæ erlenda vini í heimsókn reyni ég að taka þau þangað, jafnvel þó það sé ekki meira en dagsferð – það er algjörlega bílferðarinnar virði.“ 

Laugavegsgangan er í miklu uppáhaldi hjá Höllu.
Laugavegsgangan er í miklu uppáhaldi hjá Höllu. Ljósmynd/Aðsend

En erlendis?

„Mér líður mjög vel innan um háa fjallgarða svo ég verð að segja Chamonix í Frakklandi. Það er bara svo brjálæðislega fallegt þarna og geggjað að skíða innan um þessi stóru og voldugu fjöll.“

Halla kann vel við sig á skíðum.
Halla kann vel við sig á skíðum. Ljósmynd/Aðsend

Ætlar þú að ferðast eitthvað í vetur? 

„Það er fókus þessa vetrar hjá vinahópnum að komast betur inn í fjallaskíði og græja sig upp í þeirri deild. Við verðum eitthvað á vappi innanlands í ár en stóri fókusinn er svo á skíðaferð til í Japan 2023. Ég er þó líka á leiðinni á vesturströnd Bandaríkjanna í lok mars svo ég er að skoða hvort ég geti ekki kíkt eitthvað þar í kring.“

Halla er byrjuð á fjallaskíðum.
Halla er byrjuð á fjallaskíðum. Ljósmynd/Aðsend

Hvert dreymir þig um að fara?

„Ég náði að strika ansi mikið af Íslenska „bucket listanum“ síðustu tvö sumur en það eru enn margir staðir erlendis sem ég á eftir að fara til. Mig langar virkilega að ferðast til Japan og kynnast menningunni þar betur. Þá eru þjóðgarðarnir í Bandaríkjunum og Kanada ofarlega á lista. Síðustu ár hef ég líka fengið nokkurn áhuga á að ferðast til Mið-Austurlanda og stefni á að gera það einhvern daginn.“

Halla finnst gaman að ferðast með vinum en líka ein.
Halla finnst gaman að ferðast með vinum en líka ein. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert