Segist ekki hafa verið rekinn

Helgi Ómarsson byrjaði í flugþjónanámi.
Helgi Ómarsson byrjaði í flugþjónanámi. Ljósmynd/Helgi Ómarsson

Ljósmyndarinn Helgi Ómarsson náði ekki að útskrifast sem flugþjónn hjá Icelandair í gær eins og hann vonaðist til. Hann greinir frá því á Instagram-síðu sinni að hann hafi ekki haft tíma og þess vegna hætti hann. 

Helgi segir sögur hafa gengið um hann bæði á djamminu og á milli fólks þess efnis að hann hefði verið rekinn úr flugþjónanáminu. „Þær sögur eru ekki sannar, og eru allir aðilar málsins meðvitaðir um það, raunin er sú að ég náði ekki að sinna núverandi verkefnum og störfum, hundinum mínum og náminu eins vel og ég hefði viljað,“ skrifar Helgi á Instagram og segir að hann hafi tekið ákvörðun um að hætta með miklum trega og sorg. 

Bara slúðursaga

„Námið og tíminn í ferlinu var bókstaflega eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef gert og er mjög sorgmæddur yfir því að hafa ekki getað haldið áfram,“ segir Helgi sem kynntist skemmtilegu fólki í náminu. 

Helgi segist hafa rætt við starfsfólk fyrirtækisins oftar en einu sinni og segist hafa fengið mikinn stuðning. „Svo ástæðan var svo sannarlega ekki brottrekstur og þetta er slúðursaga sem hefur verið að flakka á milli manna.“

Hann vonast til þess að klára námið seinna ef hann fær tækifæri til. Þá verður hann mögulega kominn með maka sem getur hjálpað með hundinn. Hann segist þó ekki vera markvisst að leita sér að maka. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert