Elskar sólarfrí en aldrei farið í skíðaferð

Hildur Hilmarsdóttir hefur unnið sem flugfreyja frá árinu 2013.
Hildur Hilmarsdóttir hefur unnið sem flugfreyja frá árinu 2013.

Hildur Hilmarsdóttir hefur komið til alls 42 landa. Hún elskar sólina og hefur aldrei farið í skíðaferð til útlanda þó hún stefni á að bæta úr því. Hildur hóf störf sem flugfreyja hjá Wow Air árið 2013. Seinna sama ár flutti hún til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og flaug með Emirates til ársins 2015. 

„Ég fór aftur til Wow air og starfaði þar til síðasta dags flugfélagsins. Ég byrjaði svo aftur að fljúga síðasta sumar fyrir flugfélagið Play,“ segir Hildur í viðtali við ferðavef mbl.is. 

Hildur elskar sólina og vill helst fara í afslöppunarferðir á sólríka staði.  „Ég hef aldrei farið í skíðaferð erlendis en það er klárlega á „bucket listanum“ mínum. Það má kannski deila um skíðahæfileika mína en ég mun fyrr en síðar fara erlendis í skíðaferð – í það minnsta fyrir skíðalúkkið og aprés ski,“ segir Hildur. 

Hildur byrjaði að fljúga með Wow Air árið 2013.
Hildur byrjaði að fljúga með Wow Air árið 2013.

Búdapest að vori algjör draumur

„Ég á einstakan vinkonuhóp sem samanstendur af 8 bestu vinkonum síðan úr Lindaskóla sem eru enn mínar bestu vinkonur í dag og í seinni tíð höfum við farið árlega í það sem við köllum „gelluferðir“ erlendis," segir Hildur. 

Vinkonurnar hafa verið búsettar víða um heim undanfarin ár og hafa þær heimsótt hvora aðra í Dúbaí, Kaupmannahöfn, Ungverjalandi, Svíþjóð og á Spáni. Heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn í fyrra og árið 2020, en þær gátu loksins farið í mars á þessu ári og þá varð Berlín fyrir valinu. 

„Við förum yfirleitt í langar helgarferðir sem einkennast af því að borða góðan mat, versla og njóta lífsins. Af þeim ferðum sem við höfum farið í stendur Búdapest að vori uppúr. Borgin hefur upp á svo margt að bjóða, menningu, fjölbreytna afþreyingu, góðan mat, skemmtilegar búðir, hagstætt verðlag, thermal spas og svo skemmir góða veðrið ekki fyrir.“

Í heilsulind í Búdapest.
Í heilsulind í Búdapest.

Tíminn hjá Emirates eins og heimsreisa

Hildur elskar vinnuna sína og er þakklát fyrir að fá að heimsækja staði sem hún hefði ekki heimsótt annars. Hún segir tímann hjá Emirates sem litla heimreisu en þá heimsótti hún meðal annars Kína, Bangladess, Srí Lanka og Indland. Hún segir erfitt að gera upp á milli eftirminnilegustu ferðalaganna. 

Hidlur segir tímann hjá Emirates hafa verið eins og heimsreisa.
Hidlur segir tímann hjá Emirates hafa verið eins og heimsreisa.

„Ég og íslensku vinkonur mínar sem störfuðu líka fyrir Emirates á þeim tíma, við skruppum af og til á vit ævintýranna og fórum meðal annars til Phuket og Balí sem var dásamlegt og við munum bókstaflega aldrei gleyma þeim ferðum þar sem við fengum okkur eins minningartattú á tánna þar sem stendur„habibi“ sem þýðir „elskan“ á arabísku. Hvort að enn sé hægt að lesa eitthvað úr tattúinu eða hvort það sé búið að afmást er önnur saga.“

Eins og Griswold fjölskyldan

Annað ferðalag sem er Hildi minnisstætt er fjölskylduferðalag í Bandaríkjunum. „Þá flugum við til Los Angeles og keyrðum þaðan til Gran Canyon með stoppi í Las Vegas. Við upphaf ferðarinnar virkaði GPS tækið ekki nægilega vel svo við tókum u-beygju á næsta McDonalds stað til þess að næra þreytta ferðalanga og koma tækinu í gagnið en það féllu á okkur tvær grímur þegar við áttuðum okkur á því að við værum í miðri Compton og litum út eins og Griswold fjölskyldan á hvítum strumpastrætó. Fall er fararheill – við gripum borgarana með okkur í snatri og restin af ferðalaginu gekk eins og í sögu og við fengum smjörþefinn af ameríska draumnum.“

Fjölskyldan við Miklagljúfur.
Fjölskyldan við Miklagljúfur.

Hildur vann hjá Wow Air þegar félagið kynnti áætlunarflug frá Íslandi til Nýju-Delí á Indlandi árið 2018. Áður en áfangastaðurinn var kynntur fékk Hildur tækifæri til að fara með markaðsdeildinni til borgarinnar að taka upp markaðsefni. 

„Þrátt fyrir að hafa komið á framandi slóðir var ákveðið menningarsjokk að koma til Indlands, meðal annars að ganga um gömlu Delí og allt áreitið sem því fylgir, að sitja föst í umferð í heillangan tíma á leiðinni til Taj Mahal – ekki aðeins vegna gríðarlegs umferðarþunga þar í landi heldur varð allt stopp á ákveðnum köflum á meðan heilögu kýrnar athöfnuðu sig á götunum,“ segir Hildur og bætir við að gremjan í garð kúnna hafi horfið fljótt við komuna í Taj Mahal. 

Við Taj Mahal.
Við Taj Mahal.

Ítalía stórfengleg í heild sinni

Hildur segist ómögulega geta valið sína uppáhalds borg í heiminum og segir það vera eins og að gera upp á milli barna sinna. Hún segir Ítalíu í heild sinni vera í miklu uppáhaldi vegna alls þess sem landið hefur upp á að bjóða þegar kemur að menningu, fallegum ströndum og vötnum, fjölbreyttum borgum, góðum mat og enn betra rauðvíns. 

„Af meira framandi stöðum þá kunni ég einstaklega vel við mig í borgunum Singapore og Seoul. Fyrir afslöppun og sól myndi ég kjósa Máritíus, Frönsku ríveríuna, Phuket eða aðrar tælenskar eyjur þar í kring. Evrópskar borgir höfða vel til mín fyrir menningarferðir og á þeim grundvelli þykir mér Montréal dásamleg borg sem býr yfir evrópskum blæ.“

Á Íslandi stendur Höfn í Hornafirði upp úr en þangað á hún rætur að rekja. Elskar hún að komast í afslöppun hjá ömmu og afa á Hornafirði. 

„Dvölin á hótel ömmu er auðvitað eins og að vera á 5 stjörnu hóteli með 8 rétta máltíð í hvert mál. Vegalengdin austur er óþarflega löng fyrir helgarferð svo ég reyni yfirleitt að komast í nokkra daga í senn en landslagið en þeir fjölmörgu og fallegu staðir á leiðinni bæta algjörlega upp fyrir vegalengdina. Ferðirnar austur jukust fyrir nokkrum árum þegar foreldrar mínir breyttu gamalli mjólkurstöð í hótel á Höfn sem nú er orðið að hótelinu Milk Factory.“

Hildur flýgur nú með Play.
Hildur flýgur nú með Play.

Vopnaðir lögreglumenn fylgdu áhöfninni

Hildur hefur ekki lent í neinu hættulegu á ferðalögum. Þegar hún vann hjá Emirates ferðaðist hún oft á framandi staði en var í nokkuð vernduðu umhverfi. Hún fann þó fyrir nokkrum óþægindum þegar hún flaut til Lagos í Nígeríu og hópur vopnaðra lögreglumanna fylgdi áhöfninni í hvert fótmál.

„Við komuna til Lagos tók á móti áhöfninni stór hópur vopnaðra lögreglumanna sem gengu með okkur í gegnum flugvöllinn, einn hvoru megin við mig með byssur í hönd. Þeir gengu með okkur að áhafnarútunni og töskurnar okkar voru settar í sér bíl ef til þess kæmi að við yrðum rænd því það hafði gerst nokkrum árum áður að vegatálmar voru settir fyrir áhafnarútu hjá öðru flugfélagi og áhafnarmeðlimir myrtir og öllum verðmætum stolið. Vopnuðu lögreglumennirnir komu síðan með okkur í rútuna og okkur var fylgt af nokkrum lögreglubílum að hótelinu. Ég hef fengið betri nætursvefn en þær nætur sem ég gisti í Lagos.“

Við Jökulsárlón.
Við Jökulsárlón.

Það er fjöldi skemmtilegra ferðalaga á döfinni hjá Hildi. Hún ætlar í verslunarferð til Dublinar með vinkonu sinni á næstunni. Síðan sér hún fram á að heimsækja systur sína á Kýpur áður en langt um líður en systir hennar er í tannlæknanámi hið ytra. 

„Ég er svo heppin að eiga góðar vinkonur sem starfa líka sem flugfreyjur bæði hjá PLAY og Icelandair og við ætlum að fara sama daginn í vinnuferð til Boston og eyða þar saman sólarhring í að njóta og skoða borgina. Í sumarfríinu verður svo farið í fjölskylduferð, yngstu fjölskyldumeðlimirnir vilja ólmir komast í Legoland svo niðurstaðan verður líklegast Danmörk, Frakkland eða New York.“

Við Cinque Terre.
Við Cinque Terre.
mbl.is