Náttúran er með okkur í liði – hreyfum okkur úti

Flestir sem hafa prófað göngur segja að mikil andleg vellíðan …
Flestir sem hafa prófað göngur segja að mikil andleg vellíðan fylgi því að hreyfa sig úti við.

Þegar við tölum um heilsu þá ganga mörg út frá því að við séum að tala um líkamlega heilsu. Hún er vissulega mikilvæg en andlega heilsan er það ekki síður. Andleg vellíðan skiptir nefnilega sköpum, að við séum fær um að upplifa jákvæðar tilfinningar og njóta hamingjuríkra stunda. Auðvitað getur lífið verið flókið en við þurfum að geta aðlagað okkur öllum þeim áskorunum sem við erum að kljást við hverju sinni. Þótt sífellt fleiri séu að átta sig á þessu eru kröfur samfélagsins samt miklar og mörg sem bogna undan þeim, uppfull af streitu. Við þekkjum það öll að gleyma okkur, að vera með athyglina út á við í stað þess að staldra aðeins við og huga að því hvernig okkur líður. Það myndi hins vegar gera okkur svo gott að líta meira inn á við og hætta að gera og leyfa okkur frekar að vera.

Ómeðhöndluð streita getur valdið heilsufarsvandamálum

Það er eðlilegt að finna fyrir streitu endrum og eins. Ef hún hins vegar varir lengi þá getur hún reynst okkur hættuleg en hún er helsta ástæða þess að fólk fer í veikindaleyfi frá vinnu. Enda geta afleiðingar ómeðhöndlaðrar streitu leitt til þess að við þróum með okkur alls kyns heilsufarsvandamál eins og þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun og lélegt heilsufar. Það er því til mikils að vinna að sjá til þess að streitan verði ekki allsráðandi í lífi okkar.

Göngu- og jógaferðirnar stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu.
Göngu- og jógaferðirnar stuðla að betri andlegri og líkamlegri heilsu.

Útivist, jóga og jóga nidra

Þeim fjölgar sem nota jóga og jóga nidra til að líta inn á við og upplifa þessa ró sem er okkur svo holl. Til eru margar tegundir af jóga sem leggja mismunandi áherslu á ýmsa þætti eins og líkamsstöður, hugleiðslu, möntrur, slökun og öndun. Jóga nidra er ævaforn hugleiðslutækni sem er notuð til að auka jafnvægi og vellíðan en jóga nidra þýðir jógískur svefn sem mætti líkja við liggjandi leidda hugleiðslu. Í djúpu hugleiðsluástandi hægir á heilastarfseminni og við upplifun ástand sem jafngildir djúpsvefni. En náttúran er líka með okkur í liði. Flest sem hafa prófað göngur geta vottað um það hversu mikil andleg vellíðan fylgir því að hreyfa sig úti við. Það þarf samt ekki alltaf fjall eða langar göngur til að upplifa þessa tilfinningu. Bara það að anda að sér fersku lofti og hreinsa hugann í íslenskri náttúru nærir okkur svo um munar.

FÍ Heilsugöngur

Edith Gunnarsdóttir, eigandi Hugarsetursins, jógakennari, ráðgjafi og fararstýra hjá Ferðafélagi Íslands, hefur undanfarin ár haldið úti fjallaverkefninu FÍ heilsugöngur í samvinnu við Hugarsetrið. FÍ Heilsugöngur hefur það að markmiði að stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu með útivist og jóga. Þar hittast þátttakendur tvisvar í viku, í byrjun vikunnar er farið í þægilega göngu nálægt höfuðborgarsvæðinu og í lok vikunnar er farið í jóga nidra-djúpslökun. En Edith gerði einmitt fyrstu íslensku rannsóknina um áhrif jóga og jóga nidra á þunglyndi, kvíða og streitu. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að einkenni þunglyndis, kvíða og streitu minnkuðu. Einnig bætti jóga og jóga nidra líf þátttakenda á marga vegu, þeir upplifðu m.a. minni streitu, meiri slökun, sterkari sálfsmynd, aukið sjálfsöryggi og sjálfsumhyggju, jákvæðari hugsun og meiri hamingju. Hér er að lesa nánar um rannsóknina.

Höfundur er jógakennari, ráðgjafi og leiðsögukona.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert